154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:08]
Horfa

dómsmálaráðherra (Guðrún Hafsteinsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég tek undir það með hv. þingmanni að öryggi ríkisins skiptir höfuðmáli. Að halda uppi allsherjarreglu í landinu er hornsteinninn og undirstaðan að góðu og kraftmiklu samfélagi. Ég ætla mér að standa vörð um það meðan ég stend hér uppi. Í dag eru tæplega 1.000 lögreglumenn að störfum í landinu og ég vil nota tækifærið og þakka þeim lögreglumönnum fyrir að standa sig vel í krefjandi aðstæðum. Við höfum öll heyrt af því að starfsumhverfi lögreglunnar hefur tekið miklum breytingum á tiltölulega stuttum tíma. Svo virðist vera sem aukin harka sé að færast í undirheimana og ég hef áhyggjur af því. Það er einnig þannig að starf lögreglumannsins hefur breyst. Við erum nú orðið með nokkuð marga borgaralega lögreglumenn sem sinna rannsóknum og eru þar af leiðandi ekki sýnilegir á strætum borga og bæja.

Aðhaldskrafa lögreglunnar, eins og ég nefndi hér áðan, er engin á næsta ári en samkvæmt fjármálaáætlun hækkar hún í 1% í fjármálaáætlun frá 2026–2029.