154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:13]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Frú forseti. Í fjármálaáætlun er gert ráð fyrir mjög umtalsverðum sparnaði vegna fækkunar hælisleitenda á Íslandi. Raunar voru útlendingamálin kynnt sem eitt af stóru málunum þremur sem ættu að leggja grunn að starfi þessarar ríkisstjórnar, vera meginviðfangsefni hennar. Hæstv. forsætisráðherra ítrekaði þetta margoft við stofnun stjórnarinnar. En hvernig hyggst ríkisstjórnin ná þessari fækkun fram? Jú, það hefur þegar fækkað miðað við síðasta ár eftir að Útlendingastofnun breytti skilgreiningu umsókna frá Venesúela. Engu að síður er gífurlegur fjöldi búinn að sækja um hæli hér það sem af er þessu ári miðað við íslenskar aðstæður. Hvað er í vændum frá ríkisstjórninni sem liður í þessu atriði, einu af þremur stóru atriðum ríkisstjórnarinnar, til að taka á útlendingamálum, hælisleitendamálum ekki hvað síst?

Ég er ekki að spyrja um litla útlendingafrumvarpið sem var loks afgreitt í fimmtu tilraun eftir að það hafði ítrekað verið þynnt út að því marki að það stóð eiginlega ekkert eftir og það litla sem eftir stóð var þurrkað út af hæstv. félagsmálaráðherra sem færði vandann einfaldlega frá ríkinu yfir á sveitarfélögin, reyndar á kostnað ríkisins, vandann sem felst í því þegar fólk sem hefur fengið endanlega synjun neitar að fara. Hvað er nýtt, hvers er að vænta til viðbótar við þetta litla útlendingamál nr. 2, sem hefur legið fyrir? Stendur ekki til að fara í heildarendurskoðun á útlendingalögunum? Þetta ástand byggir á þeim að mjög verulegu leyti og m.a. ákvarðanir Útlendingastofnunar sem geta auðvitað sveiflast fram og til baka eins og dæmin sanna.