154. löggjafarþing — 100. fundur,  22. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[18:33]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svarið. Ég tel að það sé verkefni hæstv. dómsmálaráðherra að hafa eftirlit með þessari starfsemi. Ég spyr aftur: Er það eðlilegt að það séu 100 spilakassar þar sem 49 manns mega vera inni? Mér finnst eitthvað óeðlilegt við þetta, ef það er rétt. Ég verð bara að segja eins og er að það er stórfurðulegt að það sé ekki á stefnuskrá að banna spilakassa. Við erum þarna undir með veikt fólk sem er háð spilafíkn sem bitnar gífurlega á fjölskyldum. Við sjáum hversu ótrúlega miklir fjármunir eru þarna undir. Mér finnst það alveg stórfurðulegt að það sé ekki á stefnuskrá þessarar ríkisstjórnar, og þá dómsmálaráðherra, að banna þetta. En það er greinilegt að þeim finnst þetta kannski ekki það mikið tiltökumál, allar þessar fjölskyldur sem verða undir í þessari spilafíkn. En ég er viss um að fjölskyldurnar, sem eru undir þarna úti, eru sammála mér, það á að banna þetta.