154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[14:16]
Horfa

matvælaráðherra (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég finn að það er mikill áhugi fyrir málinu, það er gott. Ég mæli hér í dag fyrir frumvarpi til laga um lagareldi. Þetta frumvarp er samið í matvælaráðuneytinu í miklu og góðu samráði við alla helstu hagaðila málaflokksins á öllum stigum málsins. Málið á sér nokkurn aðdraganda og tel ég rétt hér í upphafi að gera grein fyrir forsögu þess í stuttu máli. Ég vil þó byrja á því að segja að ég fagna þeirri miklu umræðu sem hefur verið um málið undanfarin misseri. Það er ekki sjálfgefið að svona frumvarp fái svona mikla umfjöllun áður en mælt er fyrir því. Þetta tel ég vera mikið heillaskref fyrir umræðuhefð á Íslandi, þær breytingar sem hafa orðið á málinu frá því að það kom fyrst fram hafa vakið athygli sem og efnisatriði frumvarpsins, enda um grundvallarbreytingar á lagareldi að ræða. Það er framfaraskref að mál séu unnin með þessum hætti, ekki síst þegar um er að ræða heildarlöggjöf fyrir ört vaxandi og oft á tíðum umdeilda atvinnugrein. Verkið er löngu tímabært sökum þessa og tel ég að þær breytingar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi séu farsælar fyrir náttúruvernd, dýravelferð og þróun lagareldis á Íslandi.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um að mótuð verði heildstæð stefna um uppbyggingu, umgjörð og gjaldtöku lagareldis þar sem lögð verði áhersla á tækifæri til atvinnusköpunar og mikilvægi þess að atvinnugreinin byggist upp á grundvelli sjálfbærni, vísindalegrar þekkingar og verndun villtra laxastofna. Þá ber að nefna að við síðustu breytingu á gildandi lögum, sem var á árinu 2019, ákvað Alþingi að lög um fiskeldi skyldu endurskoðuð eigi síðar en 1. maí 2024.

Í matvælastefnu fram til ársins 2040 kemur fram að fiskeldi er ein af þremur frumframleiðslugreinum með landbúnaði og sjávarútvegi. Stefnan var samþykkt hér í þessum sal vorið 2023 og er ætlað að vera leiðarstef fyrir matvælaframleiðslu í landinu og þá stefnumótun sem undir hana fellur. Á þessum grunni var hafist handa í matvælaráðuneytinu að móta stefnu til framtíðar. Að frumkvæði forvera míns, hæstv. innviðaráðherra Svandísar Svavarsdóttur, var óskað eftir úttekt Ríkisendurskoðunar á lagaframkvæmd, stjórnsýslu og eftirliti sjókvíaeldis. Ríkisendurskoðun skilaði úttekt í janúar 2023 þar sem ráðuneyti og stofnanir fengu mikilvægar ábendingar varðandi núverandi framkvæmd. Ljóst var að mikið verk væri að vinna við að þróa lagaramma og stjórnsýslu sjókvíaeldis til samræmis við umfang og vöxt greinarinnar. Alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið Boston Consulting Group var fengið til að leggja mat á framtíðarmöguleika Íslands á sviði lagareldis, sem er yfirheiti yfir sjókvía-, land-, þörunga- og úthafseldi. Fyrirtækið vann mikilvæga og góða valkostagreiningu um stöðu og framtíð lagareldis á Íslandi og hafði samráð við mikinn fjölda hagaðila í því ferli. Niðurstöður Boston Consulting voru þær að gríðarleg tækifæri fælust í uppbyggingu lagareldis hér á landi. Ein meginforsenda þess að nýtt væru tækifærin og atvinnugreininni gæti vaxið fiskur um hrygg væri hins vegar að lagaleg umgjörð og stjórnsýsla yrði styrkt verulega frá því sem nú er. Þessar greiningar hafa reynst mikilvægar stoðir í vinnu ráðuneytisins við frumvarpsgerðina.

En fleira kom einnig til. Alvarleg mál, svo sem blóðþorrafaraldur í árslok 2021 sem hafði mikil áhrif á fiskeldi á Austfjörðum til sex mánaða, og alvarlegir strokatburðir sem hafa átt sér stað hér við land á undanförnum árum og nú síðast í haust þegar frjór eldislax komst upp í veiðiár. Slíkt verður ekki kallað annað en umhverfisslys.

Í kjölfar þessa voru skipaðir starfshópar til að fara ofan í saumana á þessum atburðum og benda á leiðir til úrbóta. Þannig skilaði starfshópur um smitvarnir í sjókvíaeldi minnisblaði til ráðherra í febrúar 2023 og starfshópur um strok í sjókvíaeldi skilaði skýrslu til ráðherra í maí 2023. Vinna beggja þessara starfshópa hefur reynst vera afar mikilvæg við gerð þessa frumvarps.

Loks er rétt að nefna að í október á síðasta ári voru lögð fram drög að nýrri stefnumótun lagareldis fram til ársins 2040 en hún tekur líkt og frumvarpið sem hér er mælt fyrir mið af þeirri vinnu sem á undan er lýst.

Í stefnumótuninni er lagt upp með að framtíðaruppbygging í lagareldi byggi á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðar. Áhersla er lögð á að eftirlit, vöktun og rannsóknir með framleiðslunni standist ýtrustu kröfur til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif á umhverfið í framtíðinni og er slíkt forsenda fyrir vexti og viðgangi greinarinnar. Í stefnunni er jafnframt lagt upp með að leyfishafar greiði sanngjarnt gjald fyrir afnot af sameiginlegum auðlindum sem skili tekjum sem m.a. standi undir stjórnsýslu, rannsóknum og vöktun málaflokksins og nauðsynlegri innviðauppbyggingu.

Áætlað er að gjaldið verði á bilinu 3–4 milljarðar á tímabilinu 2025–2028. Þá er rétt að minnast á að í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2025–2029 er tryggt fjármagn til rannsókna og vöktunar Hafrannsóknastofnunar auk fjármagns til eftirlits og leyfisveitinga Matvælastofnunar. Þannig hafa metnaðarfull áform um auknar rannsóknir og eftirlit þegar verið fjármögnuð. Þetta er mikilvægur þáttur í þeim breytingum sem við viljum sjá í greininni.

Í öllu þessu ferli hefur verið ítarlegt samráð við skilgreinda hagaðila eins og ég sagði áðan. Þeir fengu tækifæri til þess að koma með athugasemdir við skýrslu ríkisendurskoðanda sem og skýrslu Boston Consulting Group sem var sett í opið samráð inn á samráðsgátt stjórnvalda auk þess sem samtöl áttu sér stað við hagaðila við gerð skýrslunnar. Rekstraraðilar voru með einn fulltrúa í vinnuhóp um smitvarnir. Rekstraraðilar og veiðiréttarhafar fengu að koma með athugasemdir við vinnu strokhópsins auk þess sem skýrslan var sett inn á samráðsgátt. Við gerð stefnumótunarskýrslunnar var ítarlegt samráð en m.a. voru haldnir sex fundir með mismunandi hagsmunahópum í undirbúningsferlinu auk þess að drög að stefnumótunarskýrslu voru sett í opið samráð. Á öllum stigum hafa hagaðilar getað óskað eftir fundi við ráðuneytið og hafa verið haldnir fjölmargir fundir um einstaka málefni.

Með frumvarpi þessu er lagt til að felld verði úr gildi núgildandi lög um fiskeldi nr. 71/2008. Í stað þeirra verði mynduð heildarumgjörð um greinar lagareldis sem lúta að sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi, þar sem sett eru skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Með frumvarpinu er því í fyrsta skipti settur rammi utan um bæði landeldi og hafeldi þar sem Ísland er í kjörstöðu til að vera leiðandi á heimsvísu. Meginefni frumvarpsins snýr að sjókvíaeldi enda er það sú atvinnugrein sem er komin hvað lengst á veg og þarfnast mestra úrbóta.

Í dag eru tvö meginstjórntæki til að meta umhverfisáhrif sjókvíaeldis sem eru á ábyrgð Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin metur burðarþol hvers fjarðar, þ.e. hversu mikið af lífmassa er óhætt að ala í firði eða hafsvæði án þess að óásættanleg áhrif á umhverfið hljótist af. Þannig er metin geta fjarðar til að taka við auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið. Þetta stjórntæki er grundvallað á vatnatilskipun Evrópusambandsins sem leidd hefur verið í lög hér á landi. Hafrannsóknastofnun hefur einnig búið til áhættumat erfðablöndunar sem er ætlað að meta hættu á erfðablöndun sem hlutfall af umfangi sjókvíaeldis á tilteknu svæði. Samhliða þessu ber Hafrannsóknastofnun ábyrgð á vöktun á lífríkinu og hefur stofnunin lagt fram metnaðarfulla aðgerðaáætlun þar sem gengið verður mun lengra en gert er í dag til samræmis við ákvæði þessara laga með ítarlegri vöktun á vistkerfisáhrifum, rannsóknum á erfðablöndun og vöktun í ám, með aðgerðum til að styrkja villta laxastofninn, skoða áhrif sníkjudýra á vistkerfið í víðum skilningi og útvíkkun á burðarþoli þar sem skoðað verður allt álag, þar með talin óæskileg efni, svo sem örplast og mengun frá þungmálmum.

Mikilvægt er að verkfærakista eftirlitsaðila sé í stöðugri endurskoðun og fái að þróast í takt við aukna þekkingu og reynslu af sjókvíaeldi hér á landi. Hafrannsóknastofnun hefur verið tryggt aukið fjármagn í gegnum fjármálaáætlun, eins og ég sagði áðan, til að rannsaka umhverfisáhrif í sjókvíaeldi í víðu samhengi, hvort heldur er með rannsóknum eða vöktun, til að renna styrkum stoðum undir fyrirliggjandi stjórntæki.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu eru boðaðar miklar breytingar frá núgildandi lögum. Þær umfangsmestu eru í meginatriðum fimm.

Í fyrsta lagi mun atvinnugreinin starfa samkvæmt áhættustýrðu skipulagi með innleiðingu smitvarnasvæða. Samkvæmt þessu verður hver fjörður smitvarnasvæði og innan hvers svæðis starfar einn rekstraraðili. Ábyrgð á umgengni um náttúru og lífríki einstaka fjarðar hvílir því á herðum viðkomandi leyfishafa. Markmiðið með þessari breytingu er að draga úr áhættu vegna útbreiðslu smitsjúkdóma og sníkjudýra. Reynsla nágrannalanda okkar hefur sýnt svart á hvítu að þegar margir rekstraraðilar starfa innan sama svæðis leiðir það til þess að farvegur sjúkdóma og sníkjudýra er mun greiðari en ella. Dæmi þess höfum við séð hér á landi með útbreiðslu blóðþorra og lúsafaraldurs, eins og ég kom inn á áðan. Með þessu fyrirkomulagi er fyrirséð að auðveldara verði að ná utan um frávik einstakra rekstraraðila í starfsemi sjókvíaeldis.

Til að ná þessum markmiðum um svæðaskiptingu er í frumvarpinu gert ráð fyrir aðlögunartíma til 1. júlí 2028 fyrir fyrirtæki í sjókvíaeldi til að semja sín í milli um færslu leyfa og starfsemi milli smitvarnasvæða ellegar falla þau niður. Það er því brýnt að rekstraraðilar komi sér saman innan þess tímaramma svo ekki komi til íhlutunar af hálfu stjórnvalda.

Horft er til einstakra smitvarnasvæða sem líffræðilegra eininga. Þannig verður rekstraraðilum skylt að hvíla smitvarnasvæði í tiltekinn tíma þar til svæðið nær jafnvægi, hvort sem það er vegna sjúkdóma, sníkjudýra eða álags á umhverfi eða vistkerfi svæðanna. Ef framleiðsla rekstraraðila á einstaka smitvarnasvæði hefur neikvæð áhrif á umhverfi eða vistkerfi umfram það sem burðarþol þess svæðis heimilar leiðir það sömuleiðis til lækkunar framleiðsluheimilda við endurskoðun burðarþols. Á hinn bóginn, ef áhrifin eru minni en burðarþolið gerir ráð fyrir, getur það leitt til aukningar en þó aldrei umfram það sem hámarksburðarþol svæðisins segir til um.

Samhliða innleiðingu smitvarnasvæðanna verður innleidd framleiðslustýring vegna affalla og lúsa á hverju smitvarnasvæði. Það er í fyrsta sinn sem slík aðferðafræði er leidd í lög á heimsvísu samkvæmt mínum upplýsingum. Í núgildandi kerfi er til staðar sá freistnivandi að setja í sjó seiði sem eru ekki á vetur setjandi þar sem engin viðurlög eru við afföllum. Með breytingum á rekstraraðili yfir höfði sér að draga úr framleiðslu sinni ef afföll og sníkjudýr fara fram úr skilgreindum viðmiðum. Að sama skapi verður möguleiki til vaxtar ef rekstraraðilar eru undir viðmiðunum. Þá er búið að herða afturköllunarákvæði frumvarpsins á þann veg að brot gegn ákvæðum eða stjórnvaldsfyrirmælum settum samkvæmt þeim geta leitt til leyfissviptingar teljist brotin alvarleg.

Í öðru lagi verða leyfi til að framleiða frjóan lax ekki lengur bundin við einstaka rekstrarleyfi hvers rekstraraðila heldur mun rekstraraðili hafa til umráða það heildarmagn heimilda sem hann hefur fengið úthlutað og getur ráðstafað heimildum sínum innan þeirra smitvarnasvæða sem hann hefur til umráða. Hér mætti hugsa sér að upp komi blóðþorrasmit eða alvarlegt lúsasmit á tilteknu smitvarnasvæði sem gerir það að verkum að hvíla það svæði. Í stað þess að þær heimildir sem nýttar hafa verið á því svæði liggi ónýttar væri hægt að hvíla slík svæði í lengri tíma en ella og nýta framleiðsluheimildirnar annars staðar á meðan. Viðkomandi getur sömuleiðis selt, flutt eða leigt þær heimildir til annarra rekstrarleyfishafa innan sama landsvæðis.

Þetta er meðal þeirra atriða sem hafa verið gagnrýnd. Hér er þó grundvallarmunur. Sjókvíaeldi byggir á staðbundinni nýtingu fjarða á Íslandi. Staðbundin nýting tryggir byggðafestu því eðli málsins samkvæmt fara firðirnir ekki neitt. Staðbundin nýting þýðir að starfseminni eru skorður settar innan ákveðins svæðis, svo sem vegna friðunarsvæða, burðarþols og áhættumats fjarðarkerfa, strandveiðiskipulags o.s.frv. Til þess að taka af allan vafa þá eru firðir á Íslandi sameign þjóðarinnar og ljóst að stjórnvöld fara með umráðarétt yfir þeim. Þá leiðir staðbundin nýting til þess að starfseminni eru settar skorður innan nýtingarsvæðisins, svo sem, eins og ég sagði áðan, vegna friðunarsvæða, burðarþols og áhættumats fjarðarkerfa o.s.frv.

Annað atriði sem hefur verið gagnrýnt varðar ótímabundin leyfi. Í því samhengi er mikilvægt að hafa í huga núgildandi lagaumhverfi en samkvæmt því eru rekstrarleyfi gefin út til 16 ára í senn. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kom fram að löggjöfin væri óljós varðandi þetta atriði og segir þannig í ábendingu, með leyfi forseta, „að matvælaráðuneyti þurfi að taka af allan vafa um hvort rekstrarleyfi teljist tímabundin eða ótímabundin eign“. Sérstaklega var bent á í skýrslunni að þegar rekstrarleyfi renna út þá hefur Matvælastofnun afar takmarkaðar heimildir til að synja aðila um endurnýjun þrátt fyrir að frávik hafi orðið í starfseminni eða hún ekki innan markmiða laganna. Enn fremur eru heimildir til afturköllunar rekstrarleyfa afar takmarkaðar í núgildandi lögum. Það þýðir að í dag getur rekstraraðili í raun farið á svig við rekstrarleyfið og þær skyldur sem á honum hvíla þar sem þessar heimildir eru takmarkaðar til þess að stöðva atvinnustarfsemina innan þeirra 16 ára sem leyfið er í gildi. Þessu viljum við breyta.

Segja má að útgáfa ótímabundinna leyfa sé leið til þess að leggja auknar byrðar og skyldur á herðar rekstraraðila enda hlýtur rekstraraðilinn aukin og betri réttindi. Það má því segja að hér sé verið að innleiða handbremsu í kerfið. Með þessu frumvarpi er því settur fram skýr rammi til að afturkalla leyfin. Nýtingarréttindi sem hljótast með þessu frumvarpi verður því mögulegt að afturkalla ef markmið löggjafarinnar eru brotin. Persónulega hef ég engan áhuga á að gefa afslátt af markmiðum þessa frumvarps.

Í þriðja lagi er í sérstökum kafla frumvarpsins fjallað um strok. Nú er með skýrum hætti kveðið á um þá skyldu rekstrarleyfishafa að halda eldisfisk innan sjókvía og tekinn af allur vafi um að strok sé óheimilt og ekki ásættanlegur hluti af rekstri sjókvíaeldis. Þannig verði engin frávik þegar kemur að stroki án afleiðinga. Í frumvarpinu er að finna þau nýmæli að lagðar eru á sektir fyrir hvern fisk sem veiðist í ám og fara sektarákvarðanir eftir því hvort fiskur finnst í ám sem eru hluti af áhættumati erfðablöndunar eða ekki. Verði strokatburður þar sem meðalþyngd frjórra laxa er undir 1 kg., er gert ráð fyrir að til grundvallar sektarákvörðun verði fjöldi fiska sem sé margfeldi af endurkomuhlutfalli þess fjölda fiska sem strjúka. Afleiðingar stroks eru því ekki mældar endilega í því magni sem sleppur heldur á hvaða lífsskeiði eldislaxinn er og á hvaða tíma árs hann sleppur. Er hugsunin að baki þessu sú að sektirnar taki mið af þeim umhverfisskaða sem strokið er líklegt að valda hinum villtu stofnum. Þetta byggir á þeirri grundvallarreglu umhverfisréttar að mengunarvaldur greiði fyrir það tjón sem hann veldur, það sem nefnist á íslensku mengunarbótareglan eða, með leyfi forseta, „polluter pays principle“.

Hér er verið að undirbyggja hlutlægar reglur varðandi strok þannig að sektarandlag frjós fisks sem finnst í veiðiá verður allt að 5 millj. kr. á hvern fisk. Alvarlegir strokatburðir geta síðan leitt til afturköllunar leyfisveitingar.

Reglur sem þessar fela í sér mikilvæg varnaðaráhrif og skapa hvata fyrir rekstraraðila til að fjárfesta í búnaði, ferlum og þekkingu til að varna því að slíkir atburðir eigi sér stað. Þetta sýnir þróun í öðrum löndum þar sem eldi er komið lengra á veg, en mjög hefur dregið þar úr stroki. Mikilvægt er að beita sektum sem varnaðaraðgerðum til að skapa hvata til fjárfestinga. Þá skal það áréttað að strokatburðir leiða ekki aðeins til refsinga vegna umhverfisbrota heldur kunna þeir að hafa neikvæð áhrif á afkomu og eignarréttindi veiðiréttarhafa og annarra rekstrarleyfishafa í sjókvíaeldi með lækkun á áhættumati erfðablöndunar. Af þeim sökum gerir frumvarpið ráð fyrir því að ábyrgð rekstrarleyfishafa á stroki sé hlutlæg, þ.e. að ekki þurfi að sýna fram á sök rekstrarleyfishafa til þess að til sektarákvörðunar komi. Þá geta atvik sem eru hluti af eðlilegri og eðlisbundinni áhættu í rekstri sjókvíaeldis ekki talist vera óviðráðanlegir atburðir. Hér er verið að tala um göt á netpoka vegna núnings við aðra hluti eða árekstur á vegum rekstrarleyfishafa á sjókví svo dæmi séu tekin, enda eru þetta innbyggðir áhættuþættir í sjókvíaeldi þótt sannanlega geti verið um illviðráðanlega atburði að ræða.

Með frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir því að hlutverk stofnana í stroktilvikum breytist með þeim hætti að yfirstjórnar- og samræmingarhlutverk færist frá Fiskistofu til Matvælastofnunar en skylda hvílir á samráði stofnunarinnar við Fiskistofu vegna sérþekkingar hennar og lögboðins hlutverks. Í frumvarpinu er einnig reynt að eyða öllum vafa um framkvæmd og upprunagreiningu laxa sem veiddir eru vegna gruns um eldisuppruna en án sýnatöku og greiningar verður sjaldnast vitað með fullvissu hvar tiltekinn lax á uppruna sinn. Kostnaður sem fellur til við þessa greiningu fellur á rekstrarleyfishafa í þeim tilvikum þegar unnt er að rekja uppruna til ákveðins aðila en að öðrum kosti fellur kostnaður á ríkissjóð. Hér er því verið að undirbyggja hlutlægar reglur sem geta leitt til leyfissviptingar.

Í fjórða lagi er lagt til að breytingar verði gerðar á gjaldtöku. Gjaldtökunni verður breytt á þann veg að rekstraraðila greiði gjald í samræmi við afkomu. Ef lítill munur er á milli framleiðslukostnaðar og heimsmarkaðsverðs er gjaldhlutfallið lægra en í núverandi fyrirkomulagi, en þegar mikill munur er á framleiðslukostnaði og heimsmarkaðsverði verður gjaldtakan hærri. Þannig verður tekið betra tillit til verðsveiflna og breytinga á kostnaðarliðum sjókvíaeldis og þannig færist gjaldtakan nær því að endurspegla tekjumyndun rekstraraðila á hverjum tíma. Áfram verður stuðst við meðaltalsnálgun og mun þessi aðferð tryggja að rekstraraðilar geti ekki verið með tilfærslur á kostnaði.

Markmið gjaldtökunnar er einnig útvíkkað til að framleiðslugjald innifeli hvata til taka upp framleiðsluaðferðir sem draga úr þeirri áhættu sem fólgin er í að ala fisk í opnum sjókvíum. Í því sambandi má m.a. benda á hvata til að innleiða lokaðan eldisbúnað, eldi á ófrjóum laxi, útsetningu stærri seiða, hvata til að stytta eldistíma í sjókvíum og hvata til nýtingar annarra tæknilausna sem hafa sama tilgang. Með þessu móti er tekið tillit til nýjunga sem ekki eru endilega augljósar nú en kunna að skila bættri umgengni og aukinni dýravelferð. Umhverfishvatar eru hugsaðir til að ýta undir fjárfestingar í búnaði, þekkingu og þróun lausna sem flýta fyrir umskiptum í framleiðsluaðferðum og stuðla að bættri umgengni við umhverfi og aukinni dýravelferð, t.d. vegna minna lífræns álags, minni hættu á stroki og minni afföllum. Markmiðið er því að veita rekstraraðilum tækifæri til að standa undir fjárfestingum og þróunarkostnaði sem til þarf svo betur megi tryggja umhverfis- og dýravelferðarsjónarmið eins og ég hef hér lýst. Á hinn bóginn getur rekstraraðili þurft að greiða hærri gjöld og eiga jafnframt þá hættu á að verða fyrir skerðingum vegna affalla og lúsar, eins og ég hef áður farið yfir.

Virðulegur forseti. Lagt er til að breytingar verði á úthlutunarfyrirkomulagi fiskeldissjóðs þannig að fjármunir renni beint til sveitarfélaga í samræmi við umfang sjókvíaeldis á hverju svæði til að mæta innviðaþörf sveitarfélaga. Með breytingunum eykst fyrirsjáanleiki í fjárveitingum. Þetta er svar við ákalli sveitarfélaganna um gagnsærra og skilvirkara fyrirkomulag.

Í fimmta lagi er lagt til að núgildandi friðunarsvæði verði lögfest. Samkvæmt auglýsingu landbúnaðarráðherra frá árinu 2004 er eldi laxfiska óheimilt á Húnaflóa, Skagafirði, Skjálfanda, Þistilfirði, Bakkaflóa, Vopnafirði og Héraðsflóa. Markmið og tilgangur þessarar lokunar er að draga úr áhættu af völdum mögulegs stroks úr sjókvíaeldi, lágmarka hættu sem kynni að stafa af dreifingu sjúkdóma og sníkjudýra og vernda stofna sjógenginnar bleikju og urriða fyrir áhrifum af völdum sjókvíaeldis. Þar sem friðunarsvæði umræddra svæða eru afar mikilvæg til að lágmarka áhrif sjókvíaeldis á umhverfi sitt og villta stofna þykir rétt að þau verði lögfest. Þannig muni friðunarsvæðin hvíla á sterkari réttarheimild en auglýsing veitir og allar framtíðarbreytingar, hvort sem er til rýmkunar eða þrengingar, verða aðeins gerðar með vilja Alþingis.

Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að friðunarsvæðin verði útvíkkuð með þeim hætti að undir þau falli einnig Eyjafjörður og Öxarfjörður. Þessar hugmyndir um útvíkkun gildissviðs auglýsingarinnar eru ekki nýjar af nálinni. Árið 2020 framkvæmdi atvinnuvegaráðuneytið athugun í kjölfar erindis sem laut að því að sjókvíaeldi yrði ekki leyft í Eyjafirði. Á grundvelli núgildandi laga um fiskeldi leitaði ráðuneytið umsagnar sveitarfélaga í nágrenni Eyjafjarðar um hvort rétt væri að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í sjókvíum í Eyjafirði. Ekki ríkti einhugur meðal sveitarfélaga og var m.a. kallað eftir frekari rannsóknum og samráðs í skipulagsmálum. Á sama tíma óskaði ráðuneytið einnig umsagnar Hafrannsóknastofnunar, þar sem fram kom að tilefni væri til þess að banna fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði m.a. vegna stöðu villtra stofna laxfiska, þá sérstaklega bleikju. Byggist ráðgjöf stofnunarinnar byggir á varúðarnálgun, þar sem náttúran njóti vafans í því skyni að nýting auðlinda væri sjálfbær.

Þegar stefnumótunardrög lagareldis voru kynnt til samráðs var lýst yfir að fyrirhugað væri að lögfesta friðunarsvæði auglýsingar nr. 460/2004. Við stefnumótunardrögin bárust alls 86 umsagnir og þar af voru átta frá aðilum sem kölluðu eftir því að lögfestingin yrði einnig látin ná til Eyjafjarðar. Þegar síðan frumvarpsdrögin voru kynnt til samráðs var lagt til að lögfestingin myndi einnig ná til Eyjafjarðar og Öxarfjarðar. Við frumvarpsdrögin nú bárust rúmlega 80 umsagnir frá einstaklingum þar sem lýst var yfir stuðningi við tillögu frumvarpsins um að friða Eyjafjörð og Öxarfjörð. Sami hópur fagnaði jafnframt þeirri tillögu frumvarpsins að friðunarsvæði yrðu framvegis ákveðin með lagasetningu í stað auglýsingar ráðherra.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið veigamestu breytingarnar á umhverfi lagareldis. Í frumvarpinu er að finna fjölmörg önnur nýmæli eða breytingar sem ætlað er að skapa greininni ramma sem byggist á skýrum viðmiðum sjálfbærrar nýtingar, vistkerfisnálgunar og varúðarreglu. Má þar nefna auknar eftirlitsheimildir Matvælastofnunar, skýrara hlutverk Hafrannsóknastofnunar og fisksjúkdómanefndar, breytt fyrirkomulag Umhverfissjóðs sjókvíaeldis og hert eftirlit og viðurlög við kynþroska eldislaxa. Þá er líkt og ég nefndi áðan að finna í frumvarpinu ramma utan um greinar landeldis og hafeldis.

Ofangreindar breytingar eru umfangsmiklar og gæti vaknað sú spurning hvort nægur tími sé til stefnu til þess að vinna úr svo yfirgripsmiklu frumvarpi það sem eftir er af þinginu. Já, tíminn er sannarlega stuttur. Hins vegar hefur farið fram mjög svo ítarlegt samráð með öllum helstu hagaðilum og stofnunum sem eiga hagsmuni af þessu frumvarpi, eins og ég fór yfir hér fyrr í ræðu minni. Samráðsferli hefur átt sér stað á öllum stigum málsins, allt frá undirbúningi stefnumótunarinnar til endanlegrar útgáfu frumvarpsins. Þá vann matvælaráðuneytið frumvarpið í nánu samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun og mikið af þeim breytingum sem hér hafa verið raktar hafa komið að frumkvæði þessara stofnana. Þetta ítarlega samráð er að mínu viti lykilforsenda þess hversu vel hefur tekist upp með frumvarpið sem hér er undir. Það er ekkert leyndarmál að það hefur reynst áskorun að koma til móts við ólík sjónarmið í ferlinu enda, eins og við þekkjum, eru uppi skiptar skoðanir um atvinnugreinina. Hvað sem því líður hafa hagaðilar úr ólíkum áttum, hvort sem um er að ræða rekstraraðila, veiðiréttarhafa eða sveitarfélög, sammælst um að breytinga sé þörf. Það er ekki bara þjóðhagslega mikilvægt að ljúka umbótum á lagaumhverfinu heldur er það einnig áskilið í lögum um fiskeldi að þau verði endurskoðuð á þessu ári.

Að lokum vil ég þakka þeim sem komu að gerð frumvarpsins fyrir mikla og góða vinnu. Hér er lögð á það áhersla að náttúran njóti vafans og ekki sé gengið of nærri umhverfinu með metnaðarfullum markmiðum sem lúta að verndun dýra og náttúru. Ég tel þær áherslur endurspegla það undirstöðuatriði að þau sem hagnýta sameiginlega náttúruauðlindir landsins greiði af því sanngjarnt gjald og beri ábyrgð í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umræðu og hv. atvinnuveganefndar.