154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:03]
Horfa

Ásthildur Lóa Þórsdóttir (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. matvælaráðherra kom hérna upp með alls konar tölur og annað sem ég get í sjálfu sér lítið sagt við nema ég hafi eitthvað fyrir framan mig en engu að síður sagði hún að leyfin sem væri búið að veita núna væru til ársins 2032. Það eru átta ár þangað til. Miðað við það þá gætum við látið þau renna út árið 2032 en við erum í staðinn búin að gefa núna leyfi bara ótakmarkað. Hún talaði líka um einn aðila á hverjum stað og smitvarnarsvæði. Ég bara hef ekki þekkingu til að svara þessu en þarna er mikill fjöldi af löxum og það eru sjúkdómar meðal þeirra. Smitvarnarsvæði þegar það eru sleppingar og eitthvað, laxinn þekkir nú ekki beint svona mörk og fer bara þangað sem hann vill fara ef hann sleppur út og það hefur ekkert gengið rosalega vel að hafa stjórn á einu eða neinu í þessu hingað til. Það er náttúrlega bara alveg ljóst. Og að það megi vera 28% 18 ár í röð er bara gríðarlega langur tími. Að það sé þó verið að setja einhver takmörk, mér þykir þetta með ólíkindum. Ég veit ekki hvað ég á að kalla það. Ég held að ef maður myndi setja svona takmörk eða einhver hliðstæð takmörk fyrir börnin sín þá myndi maður aldrei ná neinu uppeldi. Ég held að þetta sé ekki neitt sem skiptir neinu máli fyrir einn eða neinn og muni litlu um þessi mörk. Og hvað ef þeir fara upp í 30%? Hvað fá þeir mörg ár fyrir það? Ég meina, ég veit það ekki, þetta er ekki að ganga. Það er alveg ljóst að þetta bara gerist og þeir hafa enga stjórn á þessu.