154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:08]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Frú forseti. Fiskeldi er komið til að vera. Sjókvíaeldi á Vestfjörðum og Austfjörðum er komið til að vera og það eru mjög góðar fréttir. Greinin er að styrkja sig í sessi, hún er vaxandi og ef rétt verður á málum haldið þá verður hér um að ræða einhverja mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar. En áður en hægt er að fara efnislega yfir meginatriði frumvarps hæstv. matvælaráðherra, heildarendurskoðun á lagaverki eldis á Íslandi, þá er rétt að halda til haga nokkrum meginatriðum í umræðunni.

Það eru auðvitað fyrst hin gríðarlega jákvæðu efnahagslegu og samfélagslegu áhrif sem fiskeldi hefur haft, ekki eingöngu á nærsamfélagið á Vestfjörðum eða Austfjörðum, íbúa eða sveitarfélög, heldur fyrir landsmenn alla, þjóðarhag. Það verður líka að hafa í huga að frá því að heildstæð löggjöf var sett um fiskeldi árið 2008 þá hefur verið lagt til grundvallar það meginsjónarmið að uppbygging fiskeldis skuli byggja á vísindum, skuli byggja á rannsóknum þar sem sjálfbærni og hagsmunir umhverfisins eru í fyrirrúmi, ásamt hagsmunum fólks í landinu.

Ég ætla að rekja aðeins hvað ég á við með þessu, frú forseti. Þegar við horfum á þessi grundvallaratriði um meginmarkmið löggjafar um fiskeldi hingað til hafa þau verið að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis til að efla atvinnulíf og byggð í landinu, ásamt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Eina leiðin til að samþætta þessi tvö meginmarkmið, uppbyggingu og vernd, er að allar ákvarðanir, allar stjórnvaldsákvarðanir um fiskeldi byggi á bestu fáanlegu vísindalegu ráðgjöf sem völ er á og hlutlægri stjórnsýslu til að ákvarða hvar hægt sé að starfrækja fiskeldi og hvernig, án þess að það hafi áhrif á lífríki og umhverfi.

Ef við skoðum þróun löggjafarinnar síðustu ár þá kemur alveg í ljós samandregið að allar breytingar sem hafa verið gerðar hafa verið þess eðlis að leggja auknar kröfur á stjórnsýslustofnanir og fiskeldisfyrirtæki með það að markmiði að stuðla enn frekar að verndun lífríkis og draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Niðurstaða löggjafans fram til þessa, frú forseti, er sú að fiskeldi er leyft þar sem því verður við komið án neikvæðra vistfræðilegra áhrifa. Þetta er sú aðferðafræði sem mikil og góð sátt hefur ríkt um og er gott að hafa til grundvallar þegar við förum í umræðu um eðli og markmið og tilgang þess frumvarps sem hér liggur til grundvallar eða þá einstök efnisatriði stjórnkerfisins, eftirlits og slíks.

Ég vil líka aðeins koma inn á jákvæðu efnahagslegu áhrifin. Fiskeldi hefur fjölgað stoðum undir gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins og hefur numið um og yfir 5% af verðmætum alls vöruútflutnings á undanförnum misserum. Þessi þróun er alveg einstaklega jákvæð enda er öflugur og fjölbreyttur útflutningur grundvallarforsenda bættra lífskjara hér á landi. Það er líka alveg ljóst að fiskeldi hefur nú þegar haft mikla efnahagslega þýðingu fyrir íbúa í hinum ýmsu byggðarlögum og áhrif þess fara ekki fram hjá þeim sem þar búa. Atvinnulífið hefur orðið fjölbreyttara, öflugra, fólki hefur fjölgað, aukið líf hefur færst á fasteignamarkaðinn, sveitarfélög hafa getað styrkt tekjustofna sína og byggt upp það sem áður var ekki hægt.

Það sem er merkilegt líka, frú forseti, er að við höfum í huga að fiskeldi — og þetta hefur svolítil áhrif á hvernig umræðan vill nú oft vera hér í þessum sal — að fiskeldi er ein af fáum atvinnugreinum sem er umfangsmeiri á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu. Um 80% af atvinnutekjum í greininni koma af landsbyggðinni, þar af um þriðjungur frá Vestfjörðum. Þetta hefur áhrif. Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en að þetta hafi líka pólitísk áhrif og á skoðanir og afstöðu þingmanna til þessa máls. Ég get nefnt sem dæmi að um 38% af atvinnutekjum íbúa í Tálknafjarðarhreppi má rekja til fiskeldis en í Garðabæ eru það um 0,2%. Þetta er töluverður munur, frú forseti. Árið 2010 voru atvinnutekjur á Vestfjörðum í fiskeldi 120 milljónir en 2022 voru þær orðnar 2,1 milljarður. Það er sautjánföldun á raunvirði á þessu tímabili. Auðvitað hefur þetta áhrif, þessi jákvæðu áhrif sem fiskeldi hefur, og það er ekki hægt að slíta þetta úr samhengi þegar við ræðum umgjörðina sem frumvarpinu er ætlað að skapa fyrir þessa mikilvægu atvinnugrein.

Ég vil koma aðeins inn á þróunina í löggjöfinni, eins og ég gerði áðan. Við erum með innbyggt í núverandi löggjöf stýritæki til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, jafnvel minnka þau þannig að þau séu nær engin, til að stýra þeirri áhættu sem af starfseminni getur orðið. Þetta skiptir máli. Stór hluti svæðisins í kringum Ísland er nú lokaður fyrir fiskeldi. Árið 2014 var sett mjög mikilvægt stýritæki, byggt á rannsóknum um burðarþol. Það ákvarðar hvar skynsamlegt er og hægt að hafa fiskeldi með tilliti til umhverfisáhrifa. Árið 2019 var lögfest annað stýritæki, sem heitir áhættumat erfðablöndunar, til að draga úr og taka á þeirri áhættu sem kann að vera ef frjór eldislax sleppur og leitar upp í fiskveiðiár. Þessi stýritæki eru grundvallaratriði. Svo er það stjórnsýslan. Þar verður að segjast að það hefur ekki verið þannig, eins og margir hafa haldið fram, að um hafi verið að ræða stjórnlausa uppbyggingu í þessu, villta vestrið jafnvel, ef svo má segja. Nei, þvert á móti, stjórnsýslan hefur verið mjög mikil. Fyrir utan þau atriði sem ég var að telja upp áðan þarf að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, það þarf að fá rekstrarleyfi og starfsleyfi og enn er verið að bæta í þessar kröfur. Gott og vel, við skulum þá skoða það og hafa það sem markmið að við séum að leggja á þessa atvinnugrein sanngjarnar og réttar kröfur, byggðar á hlutlægum viðmiðunum sem byggja á rannsóknum og vísindum en ekki láta pólitískan geðþótta fara að ráða hér för.

Frú forseti. Á þessum stutta tíma sem hægt er að fara yfir frumvarp sem telur um 50 bls. og greinargerð sem telur um 80 bls. þá er rétt hægt að tæpa hér, alla vega í fyrstu ræðu, á nokkrum atriðum sem ég tel að þurfi að skoða nánar. Það eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á hugtökum sem ég tel vera varhugaverðar og þurfi að skoða. Það er verið að leggja til breytingar á skilgreiningu á villtum nytjastofnum. Þar er atriði, frú forseti, sem gengur ekki upp og hv. atvinnuveganefnd verður að skoða nánar. Það er líka verið að fara í það að breyta skilgreiningu á burðarþoli og það er erfitt að sjá, alla vega á greinargerðinni, hver rökstuðningurinn er fyrir því. Það sem ég er að draga hérna fram, frú forseti, og vil beina því til hv. atvinnuveganefndar er að ráðast eingöngu í þær breytingar sem byggja á þessum sjónarmiðum sem ég var að reifa hérna áðan, byggja á skynsamlegum og réttum sjónarmiðum, byggja á hlutlægum sjónarmiðum, sem eru rökstudd með vísindalegum hætti, og á rannsóknum.

Þá er hér atriði sem mér þykir orka mjög tvímælis og er að mínu mati til þess fallið að fara algjörlega á skjön við löggjöfina eins og hún hefur þróast á undanförnum árum og ég var að rekja hér áðan, þá löggjöf sem hefur þróast og grundvallast á vísindum, grundvallast á rannsóknum um áhrif á vistfræðilegum áhrifum fiskeldis, og það er 7. gr. frumvarpsins sem kveður á um að loka eigi Eyjafirði og Öxarfirði fyrir fiskeldi. Ég fæ ekki skilið af hverju þetta er sett þarna inn í ljósi þess að nú þegar höfum við stýritæki eins og burðarþol, eins og áhættumat og jafnvel, við afgreiðslu einstakra umsókna, mat á umhverfisáhrifum. Af hverju er með þessu ákvæði frumvarpsins verið að víkja frá því grundvallaratriði að við byggjum löggjöfina og smíðum ákvæði þess þannig að það grundvallist á vísindalegum rannsóknum? Það er ekkert komið fram um burðarþol Eyjafjarðar eða Öxarfjarðar, það er ekki komið fram neitt mat á umhverfisáhrifum eða matsáætlanir um hver áhrif fiskeldis væru á lífríki þessara fjarða. Þess vegna væri það mjög furðulegt að löggjafinn væri hér að taka út þessi landsvæði, þessa tvo firði, ad hoc, ef svo má segja, og segja: Hér má ekki vera fiskeldi. Gæti það þá gengið upp, frú forseti, að ég kæmi hér með breytingartillögu og legði til að fiskeldi yrði heimilað í Steingrímsfirði á Ströndum? Ég hef ekki nein vísindaleg gögn á bak við þá tillögu, það er alveg rétt, en í frumvarpinu er heldur ekkert á bak við það að loka eigi þessum fjörðum frekar en einhverjum öðrum. Þannig að ég tel að þetta ákvæði þurfi að fara út.

Að síðustu er mjög flókið mál í bráðabirgðaákvæði I sem segir að ef fleiri en einn rekstrarleyfishafi séu með starfsemi á einu og sama smitvarnarsvæðinu skuli leyfi þeirra felld úr gildi af Matvælastofnun og Umhverfisstofnun hinn 1. júlí 2028. Hér er með öðrum orðum verið að þvinga aðila til samninga um tilhögun á smitvarnarsvæði undir ógn um niðurfellingu rekstrarleyfa. Það eru einfaldlega veruleg áhöld um það hvort svona ákvæði standist hreinlega stjórnarskrána. Þetta þarf hv. atvinnuveganefnd að taka til gaumgæfilegrar skoðunar.

Að lokum, frú forseti: Samantekið er ávinningur af fiskeldi mikill fyrir íslenskt samfélag. Sérstaklega eru áhrifin jákvæð á þau byggðarlög þar sem eldi er starfrækt. Það hefur verið yfirlýst stefna stjórnvalda, eins og leiðir af lögunum fram til þessa, að byggja áfram fiskeldi í samræmi við ráðgjöf vísindamanna og tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið samhliða vexti greinarinnar. Vísindaleg ráðgjöf og fagleg stjórnsýsla verða að ráða för til að tryggja að auðlindir landsins séu nýttar með skynsamlegum og ábyrgum hætti, í eldi sem og öðrum greinum, í þágu allra landsmanna. Íbúar við sjávarsíðuna, íbúar á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem tækifæri eru í fiskeldi, eiga það skilið að þetta sé lagt til grundvallar. Með þessum hætti má ná meiri sátt um þessa atvinnugrein, sátt um uppbyggingu, en það þarf þá að vera þannig að löggjöfin sé skýr, hún sé skynsamleg, hún sé sanngjörn, byggi á hlutlægum viðmiðum og horfi til þessara mikilvægu sjónarmiða.