154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:31]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanninum seinna andsvar. Að vissu leyti má segja að markaðurinn ráði við núverandi kerfi þar sem skattheimtan ræðst af markaðsvirði á vörunni. Það er hins vegar fyrirkomulag á þessari gjaldheimtu sem ég tel að mætti gera betur og vera eðlilegra og skynsamlegra, m.a. til þess að fyrirtækin séu betur í stakk búin til að sinna fjárfestingum sem eru til þess fallnar að hægt sé að ná árangri á umhverfissviði, hvort sem það er í loftslagsskiptum, betri búnaði, þjálfun starfsmanna og byggja sig upp, sinna rannsóknum og þróun. Það tel ég vera eðlilegt. Og að skattlagningin sé eins og önnur skattlagning. Hún sé þá fyrst og fremst bundin við hagnað sem fyrirtækin geta greitt. Það er eðlileg og það er einföld og fyrirsjáanleg leið þar sem jafnræði gildir gagnvart m.a. öðrum atvinnugreinum. Þetta eru svona meginsjónarmiðin.

Varðandi hina skattalegu hvata þá kann vel að vera að í þessari atvinnugrein séu rök fyrir því og þá kannski sérstaklega að horfa til atriða eins og að vinna að því að fá hér fram að það sé hægt að ala ófrjóan lax. Það getur verið gríðarlega mikilvægt að ná árangri á því sviði. Kannski er það möguleiki eftir fimm eða tíu ár. Bæði getum við þá aukið framleiðsluna gríðarlega og þá verða sjónarmið varðandi áhættumat allt öðruvísi ef einhver og það hefur auðvitað áhrif. Hvort það eigi að gera með grænum hvötum — ég er ekkert sérstaklega hrifinn af undanþágum og öðru slíku. Mín meginskoðun er sú að við skulum hafa (Forseti hringir.) umgjörð skattlagningarinnar almenna, eðlilega og fyrirsjáanlega.