154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[16:40]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvar og það er rétt, við erum um margt sammála um að vera ósammála. Við höfum áhyggjur af sömu atriðum en úr sitthvorri áttinni. Já, ég hef áhyggjur af því að sum þessara ákvæða, sem eru mjög íþyngjandi og veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum miklar heimildir til inngrips inn í þessa mikilvægu atvinnustarfsemi, séu einmitt óljós og geti verið matskennd og það kann ekki góðri lukku að stýra, á hvorn veginn sem það er. Við getum verið sammála um það.

Varðandi lokun fjarða, eins og kemur fram í 7. gr. frumvarpsins, tilraun til sátta, þá er þetta einmitt rof á þeirri sátt. Þetta er rof á þeirri sátt sem hefur verið í gildi í um 20 ár um hvar eigi að leyfa fiskeldi. Með auglýsingu frá 2004 var einmitt kveðið á um að fiskeldi ætti hugsanlega að vera starfrækt í Eyjafirði og Öxarfirði og á Vestfjörðum og Austfjörðum. Þetta er inngrip inn í þá sátt án nokkurs málefnalegs rökstuðnings sem byggir á vísindum eða rannsóknum á þessum svæðum. Það er stórt atriði að mínu mati.

Varðandi fyrirvarana þá get ég upplýst um það að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur þá fyrirvara sem ég var að koma inn á og áhyggjur af nokkrum atriðum. Það er atriði eins og svipting rekstrarleyfa sem er í bráðabirgðaákvæði I. Það eru auðvitað sektarfjárhæðirnar, hvernig þær eru reiknaðar út, gríðarlega háar, eiga sér eiginlega ekki fordæmi í íslenskri atvinnusögu, að þær séu lagðar á með þessum hætti. Það er atriði sem þarf að skoða. Ég hef komið inn á framleiðslugjaldið, útfærsluna á því, hversu skynsamlegt það er, hvort það sé sanngjarnt og réttlátt og hlutlægt og með fyrirsjáanleika, og atriði eins og þjónustugjöld. Þetta eru skiljanlega þýðingarmikil atriði í mjög þýðingarmiklu frumvarpi sem varðar mjög þýðingarmikla atvinnugreina og fjölda fólks í þessu landi.