154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[17:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann til að fara um landið og sannfæra þjóðina um að hún hafi algjöran yfirráðarétt yfir sameiginlegri auðlind, hvort sem það er fiskveiðiauðlindin eða aðrar auðlindir. (Gripið fram í.) Það hafi tekist svona ljómandi vel að breyta fiskveiðistjórnarkerfinu í þá réttlætisátt að tryggja einmitt að auðlindin sé sameign þjóðarinnar, að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna raunverulega virki. Það var nú líf heillar ríkisstjórnar sem hékk á því ákvæði. Svo var ekki hægt að fylgja því eftir. Og af hverju hefur niðurstaða auðlindanefndarinnar ekki náð fram að ganga? Það vill svo til að Jóhannes Nordal í sinni ævisögu, sem kom út í fyrra, hnykkir á því að það þurfi að fara frekar uppboðsleiðina, tryggja tímabindinguna til þess að tryggja réttlætið og líka hagkvæmnina í kringum rekstur auðlindarinnar og rekstur fyrirtækjanna. Við erum sammála um að það þurfi fyrirsjáanleika, fyrirtæki þurfa þennan fyrirsjáanleika. (Forseti hringir.) En það má ekki vera þannig að við getum ekki tryggt það að rentan af auðlindinni fari ekki til þjóðarinnar. Það er óásættanlegt og (Forseti hringir.) það er rétt að okkur greinir á við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að því. Við viljum tryggja að auðlindir þjóðarinnar séu raunverulega í eigu hennar. Við viljum tryggja almannahagsmuni framar sérhagsmunum.

(Forseti (AIJ): Forseti minnir á að ræðutími er ekki ótímabundinn í andsvörum.)