154. löggjafarþing — 101. fundur,  23. apr. 2024.

lagareldi.

930. mál
[18:01]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Eftirlit og viðbrögðin við slysasleppingum, við slysum, er öll að finna hér. Þau liggja ekki heima í héraði þannig að það er ekki í valdi heimamanna að fást um það hvernig viðbrögð við slysasleppingum eða slysum verða en sektarákvæðin eru hér inni. Varðandi eftirlitið þá vitum við að það hefur verið mikið ákall og við settum það inn 2019 og lagaramminn er skýr um það hvernig eftirliti eigi að vera háttað. Síðan voru það stofnanirnar sem ekki fóru eftir því. Og að kalla eftir eftirliti — við vitum það alveg að það tók stundum lengri tíma að fá eftirlitsaðila frá Selfossi til að mæta þegar eitthvað kom upp í Patreksfirði en það tók fyrirtækin að fá til sín sérfræðinga frá Noregi. Þetta á ekki bara við um fiskeldið. Við vitum alveg hver viðbrögð eftirlitsaðilanna voru þegar það varð olíuleki í höfninni á Suðureyri því að það var kominn föstudagur, þetta var eftir hádegi á föstudegi, og það var að koma helgarfrí. Þess vegna gátu þeir ekki mætt fyrr en á mánudegi. Meðan viðhorf eftirlitsstofnananna eru þessi þá er ekki við heimamenn að sakast.