154. löggjafarþing — 102. fundur,  24. apr. 2024.

dvalar- og atvinnuleyfi fórnarlamba vinnumansals.

[15:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin en ég beindi spurningunni til hans vegna þess að hann er félags- og vinnumarkaðsráðherra og við vitum að Alþýðusamband Íslands hefur lengi verið í samskiptum við hið opinbera um að þjónusta við þolendur mansals verði styrkt til muna og til frambúðar. Það er hluti af góðum vinnumarkaði að gera það. Auðvitað er þetta mjög brýnt mál og það gleður mig að heyra að það sé verið að finna vinnu og störf fyrir fólkið sem lenti í þessum afbrotum og þessu ofbeldi. Við verðum að taka höndum saman um að það sé í lagi þannig að tímafrestirnir haldi og að staðið verði við loforðin um að þau geti verið hér. Þau eru þolendur í þessu máli, ekki gerendur og okkur ber að standa með þeim og okkur ber líka, og það er skoðun okkar í Samfylkingunni, að bæta upplýsingagjöf til erlends fólks á vinnumarkaði og einnig að bæta heimildir til vinnustaðaeftirlits.