154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:26]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ef ég man rétt, ég bið þá þingheim að bera það með mér ef það er rangt og ég get leiðrétt það, þá var hinn almenni varasjóður upp á 46 milljarða í fjárlögum, ef ég man rétt. Af því var kannski innan við helmingur áætlaður í hugsanlegt svigrúm fyrir launabreytingar sem gætu orðið til vegna samninga. 26 milljarðar voru auðvitað hugsaðir til að geta gripið til til alls kyns annarra hluta. Ef ég man rétt þá varð eldgos við Grindavík 14. janúar, mánuði eftir að fjárlög voru samþykkt. Vorum við með plön uppi um að það þyrfti að fara í allar þær aðgerðir sem raun ber vitni, nýta varasjóðinn og þessa tvo fjárauka til þeirra verkefna sem við höfum gert í Grindavík með góðum hætti? Svarið er auðvitað augljóslega nei, hv. þingmaður. Þess vegna þarf að grípa til annarra leiða.

Landsvirkjun hefur á síðastliðnum árum náð að greiða niður skuldir sínar og skuldar orðið, held ég, eina EBITDA og verður væntanlega skuldlaus á þessu ári þannig að þetta hefur óveruleg áhrif á fjárfestingargetu þeirra, óveruleg ef nokkur. Við erum hins vegar akkúrat að glíma við aðstæður þar sem við erum bæði að fjármagna kjarasamninga, takast á við jarðhræringar, reyna að nýta alla möguleika án þess að hækka skatta eða fara í blóðugan niðurskurð vegna þess að við erum að reyna að styðja við lækkun verðbólgu og vaxta og vaxtastigs. Þá er þetta hin skynsamlega leið sem farin er með þessu verklagi og þess vegna er fyrirkomulagið með þessum hætti og af engum öðrum ástæðum.