154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

fjáraukalög 2024.

1078. mál
[16:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er alveg sama, og nú ætla ég að endurtaka fyrri ræðu mína, hvað hv. þingmaður og stjórnarandstöðuþingmenn koma hingað oft upp og þylja þessa þvælu aftur og aftur, það sem hv. þingmaður las á bls. 65 var ekki stefnubreyting eða ákvörðun fjármálaáætlunar heldur var sagt að þar sem gildistaka þessa málaflokks samkvæmt frumvarpi sem er óafgreitt frá þinginu, enn óafgreitt frá þinginu, tekur gildi 1. september 2025 þá þarf samkvæmt fjármálaáætlun ekki að fjármagna þann hluta fyrr en frá þeim tíma. Það er ekki tekin nein ný ákvörðun í fjármálaáætlun. Hún sýnir bara tölurnar eins og þær birtast vegna þeirrar ákvarðanatöku að frumvarpið, eins og það liggur fyrir hjá þinginu, taki gildi 1. september 2025. Það stendur á bls. 65 og hv. þingmaður hefur þar rétt fyrir sér. En það að halda því fram að í þessari fjármálaáætlun eða í stefnu ríkisstjórnarinnar sé verið að fela að það sé verið að fjármagna kjarasamninga með þessum hætti er auðvitað bara þvæla, hv. þingmaður. Það er bara þvæla. (Gripið fram í.) Það er einfaldlega þannig. Gildistakan er 1. september 2025 samkvæmt frumvarpi sem ekki er enn orðið að lögum. Það er ekki enn orðið að lögum. Þetta er alveg skýrt. Þannig að ég ætla bara að láta þetta svar við andsvari hv. þingmanns duga að þessu sinni.