154. löggjafarþing — 108. fundur,  7. maí 2024.

Þjóðarsjóður.

881. mál
[17:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um Þjóðarsjóð. Frumvarpið hefur áður verið lagt fram á Alþingi og nú síðast var afgreiðslu þess slegið á frest þegar kórónuveirufaraldurinn reið yfir í kjölfar efnahagsráðstafana stjórnvalda vegna faraldursins. Tekist hefur með festu og hóflegri aðhaldssemi í stjórn ríkisfjármálanna að draga hratt úr miklum halla sem varð á afkomu ríkissjóðs eftir heimsfaraldurinn og verður honum snúið í afgang árið 2028 samkvæmt nýframlagðri fjármálaáætlun. Með lækkandi vaxtastigi og þar með vaxtakostnaði mun til að mynda sá kostnaður sem fellur til vegna kjarasamninga á næstu fjórum árum verða greiddur af slíkri breytingu á útgjöldum ríkissjóðs.

Þjóðarsjóður er nú aftur á dagskrá enda stendur tilefnið til uppbyggingar á slíkum áfallavörnum óhaggað. Má raunar segja að kórónuveirufaraldurinn sem og jarðskjálfta- og eldsumbrotahrinan á Reykjanesi á undanförnum árum hafi fært heim sanninn um að slíkur fjárhagslegur viðbúnaður getur haft mikla þýðingu.

Ég vil þó nefna það hér í upphafi að hér er verið að mæla fyrir þessu máli. Ég hef engar væntingar til þess að allri umfjöllun um þetta mál verði lokið á þessu vorþingi, ég vonast til að nefndin sendi það út til umsagnar og ég vonast til að það verði umræða í samfélaginu um þetta og síðan myndi ég taka málið aftur inn til ráðuneytisins til skoðunar í sumar með það að markmiði að leggja málið fram aftur næsta vetur.

En til hvers er svona þjóðarsjóður? Jú, hann er bæði til að jafna áhrif stórra áfalla á ríkisfjármál og til að greiða fyrir fjármögnun við aðstæður þegar aðgengi að fjármálamörkuðum getur verið kostnaðarsamt. Hins vegar þykir nú ástæða til að aðlaga áformin að breyttum aðstæðum á þann veg að sjóðmyndunin verði fremur hægfara þangað til skuldahlutfall ríkissjóðs verður aftur komið niður fyrir sett mörk

Varðandi tilgang og hlutverk sjóðsins er honum ætlað, eins og áður hefur verið nefnt í framsögu við fyrri framlagningu þessu frumvarps, að gegna því meginhlutverki að verða eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annað hvort vegna tekjubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsráðstafanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varnar gegn slíku.

Með frumvarpinu er þannig ætlunin að undirbúa viðbúnað við skakkaföllum sem eru fátíð en sagan sýnir að hafa riðið yfir á nokkurra áratuga fresti en þó stundum með lengri hléum. Það gætu verið stórfelldar náttúruhamfarir sem gætu stórlaskað byggð, samgönguinnviði, vatnsafls- og jarðhitavirkjanir eða þess vegna stóriðjuver eða önnur áföll sem valdið gætu þungbæru efnahagslegu tjóni umfram þann skaða sem tryggður er með öðrum hætti, svo sem með Náttúruhamfaratryggingu Íslands.

Tilefni lagasetningar um að koma á fót varúðarsjóði er einnig það að ríkissjóður er þegar farinn að hafa og mun á komandi árum áfram hafa talsverðar auknar tekjur af arðgreiðslum eða auðlindaafnotagjöldum frá orkuvinnslufyrirtækjum vegna nýtingar á orkuauðlindum á forræði ríkisins. Samkvæmt þessu frumvarpi verða þær fyrst um sinn tekjur frá Landsvirkjun og það er að mínu mati skynsamlegt fyrir okkur að búa þannig um hnútana að þessar nýju tekjur verði ekki nýttar til frambúðar eins og hver annar tekjustofn til að standa undir auknum og reglubundnum ríkisútgjöldum. Vöxtur þeirra hefur þar að auki verið hraður á undanförnum árum en í frumvarpinu er miðað við að á næstu árum gætu þessar tekjur legið á bilinu 10 til 20 milljarðar kr. á ári hverju.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrirkomulag sjóðsins verði í meginatriðum þannig að hann fái framlög úr ríkissjóði sem svari til tekna næstliðins árs af arðgreiðslum og leigugreiðslum frá orkuvinnslufyrirtækjum. Sjóðurinn fjárfesti þá fjármuni einvörðungu í erlendum verðbréfum samkvæmt fjárfestingarstefnu sem stjórn sjóðsins myndi setja með samþykki ráðherra.

Gert verði ráð fyrir fjárreiðum sjóðsins í fimm ára fjármálaáætlunum fyrir hið opinbera og í fjárlögum. Komi til ófyrirséðs áfalls af framangreindum toga og að uppfylltum tilteknum skilyrðum og mati nefndar á fjárhagsáhrifum áfallsins, eins og fjallað er um í frumvarpinu, geti ráðherra gert tillögu um að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu um að stjórn sjóðsins úthluti til ríkissjóðs framlagi sem nemi allt að helmingi eigna sjóðsins vegna eins atburðar. Heimildir vegna slíkra framlaga og fjárreiðna sjóðsins að öðru leyti verði jafnframt settar með fjárlögum með atbeina þingsins.

Þjóðarsjóður verður eign íslenska ríkisins og verður færður sem slíkur í efnahagsreikning ríkissjóðs, enda verður hann í rauninni tiltekið fyrirkomulag á stýringu og ávöxtun á afmörkuðum hluta af peningalegum eignum ríkissjóðs. Sjóðmyndunin jafngildir því að greiða niður skuldir ríkisins í sama mæli. Í frumvarpinu er einmitt gert ráð fyrir að sjóðurinn komi til frádráttar skuldastöðunni samkvæmt skuldareglu laga um opinber fjármál.

Frumvarpið mælir fyrir um að sett verði sérstök stjórn yfir sjóðinn sem fari með yfirstjórn hans. Stjórnin beri ábyrgð á rekstri, setji sér starfsreglur og geri tillögu um fjárfestingarstefnu til samþykktar af ráðherra á grundvelli meginviðmiða í frumvarpinu samþykktu af Alþingi.

Það fyrirkomulag mála sem hér er verið að leggja til á sér að vissu leyti ákveðnar samsvaranir erlendis. Það verður engu að síður að teljast nokkuð sérstætt með tilliti til þess að hlutverk sjóðsins verður mjög afmarkað við fátíð áföll og að fyrirkomulag á ráðstöfun hans verður í mjög skýru samhengi við fjárstjórnarvald þingsins. Meginforsenda ráðstöfunar úr sjóðnum er að umfjöllun og samþykki Alþingis liggi fyrir.

Í öðru lagi má nefna í sambandi við sparnaðarsjóði að ólíkt því sem gerist víða annars staðar er hér á landi fyrir hendi öflugt kerfi almennra lífeyrissjóða sem felur í sér uppsöfnun sparnaðar. Það felur í sér að þjóðarbúið er mun betur í stakk búið en flest önnur lönd til að standa undir öldrun þjóðarinnar og vaxandi lífeyrisútgjöldum samfara henni.

Eins og ég hef rakið í stuttu máli varð niðurstaðan sú við undirbúning þessa frumvarps að ekki væri sama þörf og í sumum öðrum löndum fyrir sjóð sem væri til mótvægis við áhrif af nýtingu óendurnýjanlegrar auðlindar eða af ófjármögnuðu lífeyriskerfi. Meðal annars þess vegna felur frumvarpið í sér að hlutverk sjóðsins verði frekar að veita viðnám við ytri stóráföllum sem örhagkerfi og smátt samfélag er viðkvæmara fyrir en gengur og gerist meðal stærri þjóða.

Virðulegi forseti. Eðlilegt er að spurt sé hver sé hæfileg stærð sjóðs sem þessa. Markmiðið hlýtur að vera að sjóðurinn verði nægilega stór til að ekki þurfi að nýta hann allan í einu áfalli. Vegna góðra trygginga gagnvart náttúruhamförum og annars viðbúnaðar sem þegar er fyrir hendi í landinu er talið skynsamlegt að stefnt verði að því að framtíðarstærð sjóðsins verði nálægt 400–450 milljörðum eða nærri tíu hundraðshlutar af landsframleiðslu. Það er sjóður sem byggist upp yfir mörg ár. Ástæða er til að leggja áherslu á að þjóðarsjóður verður ekki til í einni sviphendingu heldur hægt og bítandi. Ætla má að það gæti tekið um 15–20 ár að byggja upp slíkan sjóð miðað við að tekjur ríkissjóðs frá orkuvinnslufyrirtækjum geti aukist um langa hríð og líka að því gefnu að ekki þurfi að bæta fjárhagsáföll úr sjóðnum á því sama tímabili. Uppbygging slíks sjóðs er langtímaverkefni enda er um að ræða varnir gegn fátíðum atburðum. Ég undirstrika að þetta er að gefnum öllum þeim forsendum að ekkert komi upp á.

Með þessu frumvarpi er því ekki stefnt að því að mynda risavaxinn sjóð sem dragi til sín mikið fjármagn á fáum árum heldur er um að ræða hægfara uppbyggingu á litlum hluta þjóðhagslegs sparnaðar landsins og það mun útheimta töluverða pólitíska þolinmæði.

Ég vil ítreka hér undir lok minnar ræðu að tilgangurinn er að leggja þetta mál hér fram til að fá umsagnir frá fagaðilum og þeim sem kynnu að hafa skoðanir á þessu og fá gjarnan fram umræðu í samfélaginu um mikilvægi slíkra sjóða og hvaða verkefni þeir ættu að glíma við. Það hefur líka komið fram að áður en að til þess komi að við förum að greiða í slíkan sjóð þurfum við að ná skuldahlutfallinu enn neðar heldur en við höfum náð nú þegar þannig að við erum ekki að fara að greiða í þennan sjóð hvort eð er á næstu árum.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég til nánari umfjöllunar um fyrirkomulag þjóðarsjóðs í greinargerð frumvarpsins og legg til að því verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og eftir atvikum 2. umræðu að lokinni þessari umræðu.