154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:10]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að samþykkja þessa umræðu um stöðu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Staðan þar hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, þá helst löng og oft á tíðum óboðleg bið eftir tíma hjá lækni annars vegar og síðan óhóflegt álag á heimilislækna hins vegar. Á sama tíma og Íslendingum fjölgar og þjóðin eldist með tilheyrandi vaxandi þörf á heilbrigðisþjónustu er mönnun heimilislækna í sögulegu lágmarki. Það þyrfti að þrefalda fjöldann í fullu starfi enda er nú mjög stór hluti íbúa höfuðborgarsvæðisins án heimilislæknis. Ég spyr því hæstv. ráðherra: Hvað hefur verið gert til að mæta þessari áskorun?

Það hefur komið fram að aukin sókn er í sérnám í heimilislækningum en ekki allir skila sér á heilsugæslurnar heldur fara annað til starfa og sumir stoppa þar stutt við. Á sama tíma og þeim fjölgar sem eru án heimilislæknis er almennt viðurkennt hversu góð áhrif það hefur á heilsu fólks að eiga eigin heimilislækni þar sem samband læknis og skjólstæðings til lengri tíma er mjög fyrirbyggjandi, fækkar innlögnum á sjúkrahús, dregur úr sjúkdómum, dregur úr álagi og lengir líf. Áhrifamesta leiðin til að uppfylla þetta mikilvæga markmið er að fjölga læknum.

Önnur leið og auðvitað nátengd er að gefa læknum færi á að sinna læknisverkum frekar. Við hæstv. heilbrigðisráðherra höfum ítrekað rætt vottorða- og tilvísanafargan sem íþyngir heimilislæknum og í morgun sá ég auglýsingu frá hæstv. ráðherra á samfélagsmiðlum um hann ætli að einfalda fyrirkomulag tilvísana fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Þetta er jákvætt en samt bara eitt lítið skref í rétta átt, skref sem hefur tekið allt of langan tíma að stíga. Ég minni á að þessi ríkisstjórn hefur verið við völd í sex og hálft ár. Eftir sitja tilvísanir til iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og talmeinafræðinga svo dæmi sé tekið. Svo eru það vottorðaskrif vegna framfærslumála, sjúkradagpeninga, endurhæfingarlífeyris örorku, hjálpartækja vegna ferðalaga með súrefni, vegna ferðalaga með hjólastóla, vegna íþrótta og leikfimi, vegna biðlista, vegna endurgreiðslu ferðakostnaðar, vegna dvalar á sjúkrahóteli, vegna barna sem þurfa sérfæði í skóla vegna ónæmis o.fl. Þetta er auðvitað ekki allt á forræði heilbrigðisráðherra en ríkisstjórn hans fær hér með enn eina áminninguna um mikilvægi þess að einfalda íþyngjandi og óþarflega þungt regluverk.

Frú forseti. Í samræmi við stefnu stjórnvalda hefur verkefnum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins fjölgað jafnt og þétt síðustu ár. Borið hefur á réttmætri gagnrýni á að þetta hafi veikt kjarnastarfsemi heilsugæslunnar, sjálfa læknisþjónustuna. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða nýja fjármálaáætlun, stefnuplagg ríkisstjórnarinnar til næstu ára. Þar er texti um framtíðarsýn og meginmarkmið fyrir heilsugæsluna og framtíðarsýnin er, með leyfi forseta, að lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir sé sérstaklega hluti af þjónustu heilsugæslunnar og að heilsugæslan verði leiðandi þátttakandi í heilsueflingu og aðgerðaáætlun um lýðheilsu og forvarnir. Orðið læknir eða læknisþjónusta kemur ekki fyrir í textanum þó að við vitum að sambandið við lækni er besta forvörnin. Mér finnst ástæða til að spyrja ráðherra beint út: Er markmiðið að endurskrifa hefðbundna kjarnastarfsemi heilsugæslunnar á þann hátt að draga úr vægi heimilislækna þar?

Frú forseti. Heilsugæslan hefur ekki frekar en aðrir farið á mis við áhrif örrar tækniþróunar síðustu ára og áratuga og þar eru miklir möguleikar, en til þessa hefur gengið hægt að nýta tækifærið til að einfalda verkferla og auka skilvirkni. Rafræn samskipti hafa jafnvel frekar aukið álag á heimilislækna. Ég spyr ráðherra: Hvaða tækifæri liggja þar helst og hverjar eru helstu áskoranir?

Að lokum langar mig að beina sjónum að fjármögnunarlíkani Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem var tekið í notkun árið 2016. Markmiðið var að auka afköst, bæta þjónustu og auka nýliðun og til þess voru byggðir hvatar inn í kerfið. Allar heilsugæslur höfuðborgarsvæðisins, jafnt ríkisreknar sem einkareknar, voru fjármagnaðar á sama hátt. Fyrstu tvö árin var töluverð afkastaaukning í heilsugæslunni og hvatarnir sem voru byggðir inn í kerfið virtust virka. En þá tóku heilbrigðisyfirvöld til sinna ráða, bjuggu t.d. til sérstakan miðlægan pott utan við fjármögnunarkerfið sem var helst nýttur til að greiða niður sérstök ný verkefni sem ríkisreknu stöðvarnar tóku að sér. Afleiðingin var kerfi sem hefur færst nær flatri fjármögnun án skilgreindra markmiða og án afkastahvata. Ég spyr: Er hæstv. ráðherra sáttur við hvernig fjármögnunarkerfið hefur verið nýtt og hvernig afköst hafa verið og hvernig hvatarnir hafa nýst? Ef ekki, hvaða leiðir vill hann fara til úrbóta með fjármögnunarkerfið?