154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

[11:49]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég þakka góða umræðu hér í dag, umræðu sem vonandi skilar sínu inn í það verkefni sem efling heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu er. Við þurfum að minnka óþarfaálag á lækna. Við þurfum að draga úr sóun í kerfinu. Við þurfum að fækka viðvikum sem hafa ekki skýran tilgang og heyra ekki undir kjarnastarfsemina, stuðla að hóflegu álagi og fjölskylduvænu starfsumhverfi. Þetta eru lykilþættirnir. Það þarf að styrkja kjarnastarfsemina en fyrst þarf að svara því hvaða verkefni við viljum að heilsugæslan sinni. Erum við á réttri leið þar? Ég verð að segja að ég sakna kannski aðeins skýrari svara frá hæstv. ráðherra um þetta. Er ætlunin að draga úr vægi heimilislækna? Ég lýsti hér áðan hvernig orðin læknir, læknastarfsemi eða lækning koma ekki fyrir í fjármálaáætlun. Læknafélagið hefur kvartað undan því að það sé verið, svo ég vitni nú bara í þeirra orð, með leyfi, að útrýma orðinu læknir úr heilbrigðisstefnu stjórnvalda. Þetta segir sína sögu. Spurningin er: Er þetta með vilja gert og hver er þá áætlaður ávinningur af þessu?

Mig langar til að árétta mikilvægi þess að fjármögnunarlíkanið sé nýtt þannig að hvatar séu byggðir upp og þeim sé viðhaldið, hvatar sem endurspegla markmið um afköst, um kennslu sérnámslækna, um heimilislækna, um þjónustu, um gæði og um opnun nýrra heilsugæslna, um nýsköpun og nýliðun. Við þurfum að tryggja heilbrigða skynsemi og ýta þannig undir eflingu heilsugæslunnar.

Hv. þm. Diljá Mist Einarsdóttir ræddi hér kannanir sem sýna góða útkomu einkarekinna stöðva í samanburði við þær ríkisreknu. Þetta er síendurtekin útkoma úr slíkum könnunum. Þetta er mjög mikilvægur þáttur og ég hvet ráðherra til að skoða ástæðurnar sem liggja þar að baki og leita leiða til að nýta þessa krafta sem búa í einkarekstrinum betur. Þetta er aukinn hvati til sköpunar. Það er aukið sjálfstæði. Það eru fjölbreyttari vinnustaðir, það er umhverfi sem býr til hvata til þessara þátta. (Forseti hringir.) Við þurfum að nýta kosti samkeppninnar.

Hæstv. ráðherra sagði hér áðan (Forseti hringir.) að hann væri með skýra sýn á það hvernig við gætum nýtt fjármögnunarkerfið betur og ég hlakka til að heyra meira af þeirri leið.