Staða Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. framsögumanni að taka þetta mál á dagskrá hér og umræðuna. Ég held að við deilum öll sýninni á mikilvægi heilsugæslunnar. Það kom fram hér í máli hv. þingmanna, svo ég dragi það saman, að það er býsna mikill samhljómur um það hver verkefnin eru og hversu brýn þau eru og hversu umfangsmikil þau eru og í hverju þau felast. Ég er alveg skýr með það, hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson, framsögumaður, að það er enginn að draga úr vægi lækna. Við áttum okkur alveg á mikilvægi þeirra í kjarnastarfsemi heilsugæslunnar sem kom fram í spurningu hv. þingmanns. En við erum auðvitað að horfa á það að það er miklu fjölþættari, fjölbreyttari þjónusta sem við erum að veita nú til samanburðar fyrir einhverjum 20 árum. Samfélagið hefur bara breyst svo mikið og það er aðkoma fjölmargra og fleiri stétta. Það kallar á þverfaglega samvinnu. Þar er heimilislæknir auðvitað í algjöru kjarnahlutverki en með fjölmörgum öðrum stéttum. Geðheilsuteymin, það var komið inn á þau hér, eru auðvitað mjög mikilvæg viðbót, sálfræðingar í heilsugæslu. Stöðugildum hefur fjölgað verulega. Ég er bara aðeins að draga fram staðreyndir gegn þessum eilífu umræðum um bið og að allt sé í kaldakoli. Við höfum aukið fjármagn hér 2017 til dagsins í dag, á föstu verðlagi, um 40%. Bara til samanburðar við það hvernig heilsugæslan hefur þróast, ef við tökum hlutfall af vergri landsframleiðslu 2008 og núna í dag, þá er aukningin veruleg. Það eru 101 heimilislæknir núna og svona miðað (Forseti hringir.) við þá sem eru að klára sérnám eru um 60 að koma inn á næstu þremur árum. Það hefur aldrei verið eins mikil birta gagnvart því (Forseti hringir.) og akkúrat núna.
Ég gæti auðvitað farið inn á fleiri þætti. Varðandi líkanið, þá vil ég bara taka undir með hv. þingmanni (Forseti hringir.) og framsögumanni að líkanið er mikilvægt. En það á fyrst og fremst að draga fram gagnsæi og jafnræði í útdeilingu (Forseti hringir.) fjármuna og hvatana sem felast í gæðavísunum sem er búið að setja í líkanið.