154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eyjólfur Ármannsson) (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hugtakið viðbótarvernd er skilgreint í 28. tölulið 3. gr. laga um útlendinga. Varðandi fjölskyldusameiningar þá eigum við ekki að hafa rýmri reglur um þær en önnur ríki. Þannig er það. Og við berum ekki ábyrgð á öllum flóttamönnum sem hingað koma. Við berum ekki ábyrgð á öllum flóttamönnum heimsins eða því sem er að gerast í heiminum. Við gerum það ekki. Það er gríðarlega mikilvægt að við séum með samræmda löggjöf á Íslandi miðað við önnur ríki og að við uppfyllum skilyrði flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna með sama hætti og önnur ríki svo við tökum sömu ábyrgð og önnur ríki. Það eru ákvæði í inngangi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna um samábyrgð, Evrópusambandið er líka að reyna að innleiða reglur um samábyrgð. Við eigum öll að bera sömu ábyrgð. Ísland á ekki að bera miklu meiri ábyrgð á heiminum, hörmungum heimsins og flóttamönnum en önnur ríki. Við getum ekki gert það. Það er ástæða fyrir fjölskyldusameiningum sem felst í þessari samábyrgð. Það er það sem er svo mikilvægt, að það séu sömu reglur í löndum í þessum heimshluta en ekki að við séum sérstakur segull (Forseti hringir.) hvað þessi mál varðar. Út á það ganga reglurnar, það er grundvallaratriði í þessum reglum, það er samábyrgðin. (Forseti hringir.) Við eigum að segja við hinar þjóðirnar: Við berum sömu ábyrgð og þess vegna ætlum við að hafa okkar reglur strangari. Það er grundvallaratriði.