154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[19:21]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V):

Herra forseti. Við ræðum hér þessar breytingar sem ríkisstjórnarflokkarnir eru að leggja til að verði gerðar á lögum um útlendinga. — Það er nú enn þá eitthvað ólag á klukkunni, hæstv. forseti, ef hægt er að kippa því í lag. Ég held bara áfram að tala, ég held að ég sé ekki búinn með tímann.

Þetta hafa alltaf verið svolítið umdeild mál, það hvernig við höfum regluverkið okkar í kringum þá útlendinga sem hingað leita og eru í neyð. Þetta er sérstaklega mikilvægt kerfi fyrir okkur, hælisleitendakerfið. Bæði er það til þess að vera með útrétta hjálparhönd gagnvart fólki á flótta og fólki sem býr við allt aðrar aðstæður en við Íslendingar. Það eru meira en 100 milljónir einstaklinga á flótta í heiminum. Flestir þeirra eru enn þá innan eigin lands eða í nágrannaríkjunum en það eru ansi margir sem leita eftir skjóli í löndum Evrópu og koma hingað til okkar til Íslands líka og það er brýnt að taka vel á móti þessu fólki. Regluverkið og alþjóðlegar skuldbindingar leggja líka okkur þær skyldur á herðar að skoða mál þessara einstaklinga en eiga menn ekki rétt á því að fá sjálfkrafa einhverja vernd eða hæli. Við þurfum a.m.k. að skoða málið. Þetta er með öðrum orðum ekki þannig, eins og stundum má skilja af umræðunni, þá er ég ekkert endilega að vísa í umræðuna hér í þingsal, að hér sé hægt að setja einhvern kvóta; við ætlum að taka á móti 300 á ári eða þess háttar. Það skiptir því mjög miklu að regluverkið okkar sé skýrt og gott. Hér er einhvers konar tilraun til þess og, eins og alltaf er gert þegar verið er að breyta þessu regluverki, gera það í þágu skilvirkni, í þágu þess að fara betur með fé almennings en um leið að reyna að gefa ekki neinn afslátt af kröfum um mannúð og mannréttindi. Mönnum gengur misvel í þessu.

Það hefur talsvert verið talað um annan anda í umræðunni núna heldur en var síðast. Það helgast að einhverju leyti af því að þetta frumvarp er ekki næstum því á sama stað og það frumvarp og þau lög sem síðast voru samþykkt. Það er kannski fyrst og fremst þjónustuskerðingin sem var í því frumvarpi sem skilur á milli. Það eru atriði í þessu máli engu að síður sem ég á erfitt með að sjá að standist endilega þær kröfur sem við gerum um mannúð og mannréttindi. Ég er hins vegar alveg þeirrar skoðunar að það sé eitt og annað í þessu frumvarpi sem vel megi skoða að samþykkja. Ég nefni til að mynda breytingarnar sem á að gera á kærunefndinni. Það er samt ekki hægt að horfa fram hjá því að það eru gerðar athugasemdir við það af hálfu þeirra sem senda inn umsagnir um frumvarpið, um að það sem lagt er af stað með í frumvarpinu muni kannski ekki skila tilætluðum árangri. En ég er mjög til í að skoða það hvort einhverjar breytingar á kærunefndinni gætu leitt til meiri skilvirkni í kerfinu. Ég sé það að meiri hlutinn gerir ráð fyrir því að þessar breytingar verði þá metnar og skoðuð reynslan sem kemst á þetta. Ég get síðan alveg skilið rök fyrir því að stytta dvalarleyfi, þá að einhverju leyti til samræmis við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Þótt þau séu ekki samræmd innbyrðis þá skil ég röksemdina einhvern veginn þannig að við séum a.m.k. komin nær einhverju norrænu meðaltali heldur en við værum ella. Þá er nú mikið vísað til þess að Finnar eru að gera breytingar hjá sér og svo er farið yfir það hverjar reglurnar eru á hinum Norðurlöndunum, í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Þetta finnst mér vel mega skoða og er alveg til samtals um að það geti verið ágætt að samþykkja þetta.

Ég staldra hins vegar svolítið við það efnisatriði frumvarpsins sem snýr að fjölskyldusameiningu. Ég skoða fyrst og fremst það mál út frá því að þegar við erum að veita einstaklingum til að mynda viðbótarvernd þá er verið að horfa til aðstæðna í því ríki sem viðkomandi einstaklingur kemur frá. Það er metið að aðstæður í heimalandinu séu þess eðlis að það sé grundvöllur til þess að veita hér viðbótarvernd. Þá gildir auðvitað það sama um fjölskyldu viðkomandi einstaklings ef fjölskyldan er stödd í heimalandinu einnig. Sú fjölskylda er í stöðu sem er þá henni hættuleg. Það er verið að setja einhverja tveggja ára reglu með alls konar undanþágum þegar kemur að fjölskyldusameiningunni. Það hefur komið svolítið sterkt fram í umsögnum um frumvarpið að allar þessar hugmyndir í vinni kannski svolítið gegn þeim markmiðum sem menn vilja þó setja sér með þá sem hér fá vernd um inngildingu, þetta vinni gegn markmiðum um inngildingu. Ég er satt best að segja svolítið sammála þeim rökum fyrir nú utan það að ef fólk á annað borð er komið með vernd hér á Íslandi, viðbótarvernd t.d., þá finnst mér svolítið skrýtið að ætla að setja einhverja tveggja ára reglu á fjölskyldusameininguna. Ég held að það geri það að verkum að minni líkur séu á því að viðkomandi einstaklingur komi sér almennilega inn í samfélagið, að vera í ákveðinni óvissu í langan tíma um það hvort fjölskyldan komi. Ég tek líka eftir því að það er bent á það í umsögnum um frumvarpið að þetta gangi gegn barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðlegum reglum sem við höfum undirgengist. Mér finnst líka, bara svo maður hugsi þetta sem manneskja, mjög einfalt að setja sig í þá stöðu ef maður sjálfur væri að flýja stríð eða hörmungar í einhverju landi, kæmist á stað í skjól og þyrfti að bíða í tvö ár eftir því að fjölskyldan kæmi til manns. Mér finnst mjög auðvelt að hugsa þetta því þótt ég geti engan veginn sett mig í spor fólks sem er á flótta og býr við allt aðrar og verri aðstæður heldur en við gerum hér á Íslandi þá finnst mér mjög auðvelt sem föður að setja mig í þessi spor þannig að ég á mjög erfitt með þessar tilteknu breytingar. Ég er auðvitað ekki einn um það af því að þetta hefur verið harðlega gagnrýnt af þeim sem veita umsagnir um málið. Ég tek svolítið undir þær vangaveltur sem komu fram áðan hjá hv. þm. Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur. Úr því að það er verið að setja allar þessar undanþágur og þessar undanþágur eru settar vegna þess að menn eru að reyna að semja sín á milli um einhverja niðurstöðu milli stjórnarflokkanna í þessu máli, jafnvel eitthvað annað þá gert í staðinn fyrir einhvern flokkinn, eins og maður hefur grun um að sé í þessu tilviki — þegar við erum komin með fullt af undanþágum þá spyr maður sig: Til hvers erum við þá yfir höfuð með þakið?

Hitt er síðan alveg spurning: Eiga menn að geta sótt strax um fjölskyldusameiningu? Ég er ekkert endilega á því en tveggja ára markið finnst mér svolítið bratt. Á að setja einhverjar kröfur um það að menn hafi húsnæði, framfærslu, íslensku og annað í þeim dúr? Ég sé að það eru svolítið skiptar skoðanir um það. Sums staðar er það þannig að slík skilyrði eru frekar notuð heldur en einhver tímarammi. Mér finnst þetta allt leiða okkur að þeirri hugsun að eitthvert tveggja ára mark sé ekki endilega heppilegasti kosturinn.

Annað ákvæði hefur líka mikið verið rætt um, þ.e. 2. mgr. 36. gr. og brottfelling hennar. Þá erum við að tala um sérstök tengsl og sérstakar ástæður fyrir því að taka umsóknir fólks til umfjöllunar hér á Íslandi. Það sem mér finnst að við þurfum að hafa svolítið í huga þegar við erum að skoða þessa breytingu er að þetta ákvæði á að grípa fólk sem oft mestu lætin verða út af í samfélagsumræðunni, einmitt vegna þess að aðstæður þess eru með einhverjum tilteknum hætti. Það getur verið fötlun, það geta verið einhvers konar aðstæður sem fólkið býr við þar sem okkur svíður að sjá að það er verið að senda það úr landi. Auðvitað er það þannig að í flestum tilfellum reynir á þetta hjá fólki sem kemur frá Grikklandi. Og hver er staðan í Grikklandi? Þetta kom mjög skýrt fram hjá gestum sem komu fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og er auðvitað vitað og menn hafa vitað í mörg ár, segir sig bara sjálft miðað við fjöldann sem kemur til Grikklands, þ.e. að fólk sem er með vernd í Grikklandi nýtur ekki sömu réttinda og fólk sem er með vernd á Íslandi, ofur einfaldlega vegna þess að kerfið er sprungið. Verndin er í orði en ekki á borði. Þetta höfum við t.d. séð sérstaklega grimmilegar gagnvart fólki sem er með fötlun, fötluðu fólki sem nýtur ákveðinna réttinda í orðanna hljóðan í Grikklandi en getur ekki sótt sér þau réttindi. Þau eru ekki á borði vegna þess að kerfið þar er sprungið. Þar undir er þessi tilhneiging okkar hér sem erum staðsett þar sem við erum í álfunni, alltaf undirliggjandi þessi tilhneiging hjá okkur að útvista vandanum til þeirra ríkja sem eiga landamæri að t.d. Afríku eða Asíu eða landamæra að Miðjarðarhafinu af því að fólkið kemur þar eða niður á hafinu þegar fólkið kemur þar mikið yfir. Ég er ekki að segja þetta til að gagnrýna Grikki. Ég veit að þeir hafa gert mikið til að reyna að bæta hjá sér kerfið en það segir sig bara sjálft að fjöldinn sem þangað kemur er svo mikill að innviðir þar, sem fyrir eru veikari heldur en hér á Íslandi, þola það ekki. Þannig að ég staldra svolítið við þetta ákvæði. En eins og ég segi, sumt má vel skoða í þessu frumvarpi í því skyni að samþykkja en annað geld ég mikinn varhug við.

Það er síðan þannig að það verður að ræða um útlendingamálin í kannski svolítið víðari mynd þegar við erum að tala um þetta frumvarp. Þá vil ég nefna að það er mikið vísað til þess hér á Íslandi í umræðunni að innviðir þoli ekki allan þennan fjölda. Innviðir hér á Íslandi, heilbrigðiskerfið, menntakerfið og annað, hafa ekki verið byggðir upp með hliðsjón af þeim fjölda útlendinga sem hingað hefur komið. Málið er hins vegar, og þessu er stundum sleppt í umræðunni, að langflestir þeirra sem hingað koma ekki í gegnum hælisleitendakerfið. Þess vegna finnst mér oft svolítið grimmt í fyrsta lagi að ríkisstjórn sem vanrækir uppbyggingu innviða skuli demba vandanum yfir á þennan tiltölulega fámenna hóp sem eru hælisleitendur og sleppa því að tala um að fólk sem kemur hingað á öðrum forsendum, til að mynda í gegnum einhver sérfræðileyfi eða í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, notar líka innviðina okkar. Þar kemur álag á skólakerfið, þar kemur álag á heilbrigðiskerfið o.s.frv. Svo megum við heldur ekki gleyma því að atvinnuþátttaka útlendingar almennt á Íslandi er mikil, líka þeirra sem hér hafa fengið rétt til að vinna eftir að hafa farið í gegnum hælisleitendakerfið. Þetta fólk vinnur auðvitað og heldur uppi að mörgu leyti ákveðnum innviðum hér á Íslandi vegna þess að það getur verið erfitt að finna Íslendinga til þess að vinna þessi störf. Þetta þekkjum við mjög vel.

Síðan get ég tekið undir það að kostnaður við hælisleitendakerfið er mikill. Ég set eiginlega spurningarmerki við það, hvernig það megi vera að kerfið okkar sé svona dýrt í framkvæmd miðað við hvað umsýslan er gagnvart tiltölulega fáum einstaklingum. Við vitum auðvitað að hluti af kostnaðinum er til kominn vegna þess að við höfum boðið fólki að koma hérna og þá er ég að vísa í fólkið frá Úkraínu. Við vitum að hluti af kostnaðinum varð til vegna þess að fólk frá Venesúela fékk hér viðbótarvernd, það er búið að breyta þeirri framkvæmd. Það leiðir okkur síðan að þeirri staðreynd, af því að það er alltaf verið að tala um þennan óskaplega fjölda sem hingað kemur, að tölfræðin okkar í dag er á þeim stað að það eru miklu, miklu færri að koma á fyrstu mánuðum þessa árs heldur en komu á sama tíma í fyrra. Við erum ekkert að tala um einhver örfá prósent. Fækkunin er um 50% og 60% af þeim sem koma er fólk frá Úkraínu.

Mér finnst þetta vera hlutur sem við verðum að hafa í huga þegar við erum að ræða um þetta allt saman. Ég get ekki tekið undir þá orðræðu að innviðirnir okkar séu laskaðir og það sé gríðarlegt álag á þeim og það sé bara hælisleitendum að kenna. Það er bara ekki rétt að stilla málum þannig upp. Mig langar að biðja þá sem eru í meiri hluta hér í þinginu að hafa það í huga að álagið á innviðina er flóknara og margþættara heldur en snýr að því og árétta að þar er fólkið sem kemur í gegnum EES-samninginn undir líka sem og sú staðreynd að ríki eins og Ísland, sem reiðir sig jafn mikið og raun ber vitni á erlent vinnuafl í þessu sveiflótta hagkerfi okkar, verður að hafa dug og þor til að byggja innviði upp í samræmi við það og það hefur ekki verið gert.

Síðan langar mig að nefna annað. Það er mikið talað um séríslenska segla og þá er til að mynda vísað í þessa grein sem ég nefndi hér áðan, 2. mgr. 36. gr., hún sé séríslenskur segull. Nú er það þannig að í öðrum löndum þá koma gjarnan hælisleitendur og flóttafólk frá allt öðrum löndum heldur en koma til okkar hingað á Íslandi. Við þekkjum af hvaða þjóðerni fólk er sem sækir mest hingað til Íslands en það er fólk frá öðrum löndum sem lætur ekkert sjá sig hér heldur fer í hælisleitendakerfið annars staðar í Evrópu. Við getum til að mynda nefnt að í Þýskalandi sjá þeir mikið af fólki frá Tyrklandi sem við sjáum ekki mikið hér. Í Frakklandi kemur margt fólk frá Bangladess sem sést ekki mikið hér og til Belgíu koma hlutfallslega mjög margir frá Búrúndí og Erítreu sem sjást ekki í sama hlutfalli hér. Þetta segir okkur auðvitað að þegar menn eru að tala um séríslenskar segla þá eru einhverjar aðstæður í öðrum löndum sem gera það að verkum að þar er segull á fólk frá einhverjum allt öðrum löndum heldur en leitar til okkar hingað á Íslandi. Mér finnst það ekkert alltaf sanngjarnt að stilla þessu upp þannig að hér séu einhverjir séríslenskir seglar.

Hitt er síðan annað mál að kerfið okkar á hverjum tíma verður að vera þannig, fyrir það fyrsta, að það sé ákveðinn friður um það. Þar hefur okkur mistekist. Okkur tókst þó árið 2016 að búa til frið um eitthvert kerfi sem auðvitað var gert í allt öðrum aðstæðum heldur en er núna. En mig langar hins vegar að gjalda svolítinn varhug við því að við séum að reyna að búa til einhver óskapleg læti í kringum hælisleitendakerfið á tíma sem er í raun og veru ekki alveg eðlilegur að því leytinu til að við erum að taka á móti svo mörgum frá Úkraínu tímabundið og við tókum á móti svo mörgum frá Venesúela og það er búið að breyta þeirri framkvæmd. Þessi mikla tilhneiging til að vera rökstyðja það að hér sé einhver óskaplegur fjöldi til þess að kollvarpa kerfi sem sett var upp í sátt 2016 finnst mér ekki alveg halda vatni. Hitt er síðan annað mál að þetta kerfi, eins og öll önnur, þarf að vera í stöðugri endurskoðun og það má vel samþykkja tilteknar breytingar sem búa til einhverja skilvirkni í kerfinu, draga jafnvel úr kostnaði. Hann er of mikill eins og við vitum. En það er ekki sama hvernig það er gert.

Síðan ætla ég líka svona í lokin að gagnrýna þann málflutning sem hér hefur verið viðhafður í íslenskri umræðu oft á tíðum um hælisleitendur og útlendinga. Það er þessi margfræga skautun sem alltaf er verið að tala um. Mér finnst það reyndar stundum vera þannig að þeir sem bera allmikla ábyrgð á skautuninni eru einhvern veginn með mestar áhyggjur af henni. Mig langar að nefna tvennt vegna þess að orð stjórnmálamanna og ekki síst orð stjórnmálaforingja, formanna flokkanna, þá er ég ekki síst að tala um ráðherra, skipta miklu máli. Ég held að það hafi gert umræðu um útlendingamál og hælisleitendamál mjög vont þegar formaður Sjálfstæðisflokksins gagnrýndi tjaldbúðir hér á Austurvelli. Við sáum það bara strax að umræðan blossaði upp. Það gerði líka umræðunni mjög vont þegar við sáum, eftir að þjónustusviptingin varð að veruleika og við sáum bara klárt og kvitt hverju það skilaði, deilunum sem urðu milli ráðherra, deilum á milli ríkis og sveitarfélaga og annað. Það gerði umræðunni um útlendingamál mjög vont. Það jók á skautunina. Svo ætla ég að fá að gagnrýna það hvernig formaður Samfylkingarinnar hefur talað stundum um útlendingamálin og talað um að það sé ekki hægt að vera hér með opin landamæri og velferðarkerfi á sama tíma þegar staðreyndin er auðvitað sú að við erum með opin landamæri gagnvart allri Evrópu, hingað geta flutt 500 milljónir á morgun án þess að við höfum neitt sérstaklega mikið um það að segja, sem auðvitað gerist ekki. Þess utan er það auðvitað þannig að flest ríki álfunnar, svo ekki sé talað um þau sem stöndugust eru og sinna best mannréttindum og mannúð, eru öll að reyna bæði að halda uppi velferðarkerfi og taka á móti fólki á flótta til að sinna sínum alþjóðlegu skuldbindingum og mennsku í verki og það er ekkert annað en partur af velferð þeirra ríkja.

Svo ég taki þetta nú bara saman þá er eitt og annað í þessu frumvarpi sem vel má skoða og gæti vel verið til bóta. Ég nefni þá aftur þessar breytingar sem á að gera á kærunefndinni og dvalarleyfum, ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir við það. En ég get ekki sætt mig við þetta ákvæði um fjölskyldusameiningu eins og það er í frumvarpinu í dag. Ég get þó alveg fallist á að allsherjar- og menntamálanefnd hafi mildað það aðeins en ég hefði viljað sjá þetta tveggja ára tímamark fara alveg út. Mér finnst það allt of bratt og ekki samræmast þeim kröfum sem við setjum á okkur sjálf um inngildingu og að fólk geti komið sér almennilega fyrir hérna í samfélaginu.

Síðan verðum við að skoða það hvort það haldi vatni að þessi brottfelling 2. mgr. 36. gr. skili því sem ætlast er til. Hún hefur verið ákveðinn varnagli fyrir fólk í mjög þröngri stöðu. Ég átta mig alveg á því að þetta einstaklingsbundna mat sem þarf að fara fram á sérstökum ástæðum býr til ákveðin þyngsli í kerfinu en ef við erum að halda hér úti hælisleitendakerfi og verndarkerfi þá kemur að sjálfsögðu til þess að við þurfum að meta stöðu fólks, það bara liggur í hlutarins eðli að það verða alltaf einhver þyngsli einhvers staðar í kerfinu. Það sem gerist með þessu, óttast ég, er að við erum í raun og veru bara að færa til vandann á milli lagagreina og rétt eins og hv. þm. Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir benti á þá er í sjálfu sér ekkert sem segir okkur að þessi regla um að það eigi ekki að senda fólk í aðstæður þar sem því er hætta búin grípi endilega þetta fólk sem var undir í þeirri lagagrein sem hér stendur til að vísa út úr lögunum.