154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:24]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður segir að það sé mikilvægt að góð umræða fari fram í þessum málum. Samt er ítrekað eins og hv. þingmaður heyri ekki það sem aðrir þingmenn eru að segja. Eins og t.d. með kennarana, það var ekki þannig að hv. þm. Sigmar Guðmundsson væri að segja að það væri ósatt að kennarar upplifðu ekki álag. Það var ekki það sem hv. þingmaður sagði. Samt ítrekar hv. þm. Birgir Þórarinsson það einhvern veginn eins og það sé satt. Það er rosalega oft verið að grafa upp ummæli eða tilvitnanir sem eru bara ekki til. Mig langar einmitt að spyrja hv. þingmann um ummæli sem hann fór með hérna fyrr í umræðunni þar sem hann túlkaði það sem svo að ríkisstjórnin væri vond við fólk af því að við tökum ekki á móti öllum, eins og hann sagði. Þá velti ég fyrir mér: Hvaða öllum er verið að tala um, öllum hverjum? Það er lykilspurning.

Í öðru lagi það sem hv. þingmaður sagði, með leyfi forseta:

„Ef við bara förum til Suðurnesja eru kennarar þar að hverfa frá störfum vegna álags, m.a. vegna mikils fjölda innflytjenda sem sækja skólana, og það eru ekki lausar íbúðir á Suðurnesjum fyrir Grindvíkinga, það er ekkert húsnæði laust vegna þess að svo margir hælisleitendur búa á Suðurnesjum.“

Í fyrsta lagi er enginn að gera athugasemd við það eða hefur efasemdir um að það sé ekki álag á Suðurnesjum vegna þess að þar eru margir hælisleitendur sem hafa í rauninni verið sendir þangað. Og það er vandinn. Við þurfum að passa okkur rosalega vel þegar við ræðum þessi mál að orða ekki hlutina eins og hv. þingmaður gerir þarna, þar sem ýjað er að því að það sé einhvern veginn hælisleitendunum að kenna að það sé ekkert húsnæði fyrir Grindvíkinga, annaðhvort vegna þess að stjórnvöld séu í rauninni að senda svona marga til Suðurnesja eða vegna þess að það koma svo margir hælisleitendur til landsins. Þannig að ég vil spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Finnst honum þetta góð umræða og hvaða öllum er hann að tala um?