154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:26]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður talaði um Grindavík og hér var lýst yfir hneykslan yfir því að ég sagði það hér í ræðustól að það væri skortur á húsnæði á Suðurnesjum vegna þess að þar væru fjölmargir hælisleitendur og það væri skortur á húsnæði, m.a. fyrir þá. Svo verður þjóðin fyrir áfalli þegar um 4.000 manns verða að yfirgefa heimili sitt og þurfa húsnæði, Íslendingar og Grindvíkingar. Ég ætla bara að segja hv. þingmanni það að ég er ekkert hræddur við að segja það. Ég er búinn að skrifa grein um það og ég er búinn að segja það opinberlega að ég tel að það hefði átt að loka landinu fyrir hælisleitendum tímabundið, í einhverja mánuði, meðan verið væri að greiða úr húsnæðisvanda Grindvíkinga. Þetta er mín skoðun og ég stend við hana. Það er bara þannig.

Ég hef skilið málflutning Pírata þannig að þeir vildu bara taka á móti öllum, þ.e. hver sem kæmi hingað til landsins fengi hér vernd. Ef svo er ekki þá vil ég bara spyrja hv. þingmann: Hver er stefna Pírata? Hverjum vilja þeir taka á móti? Hversu mörgum vilja þeir taka á móti og hver telja þeir vera þolmörk okkar til að taka á móti öllum? Það er bara gott að hv. þingmaður skýri þetta hér og nú og hann fær þá tækifæri til þess.