154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:28]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Fyrr í dag í óundirbúnum fyrirspurnum sagði hæstv. forsætisráðherra, formaður flokksins sem hv. þingmaður situr hér á þingi fyrir en var ekki kosinn fyrir, með leyfi forseta:

„En það sem flest ríki eru að gera á Norðurlöndunum, og reyndar er sú umræða líka uppi í Evrópusambandinu, er að aðlaga löggjöf og reglur um þessi efni betur að lágmarkskröfum sáttmála Sameinuðu þjóðanna um þessi mál..“

Mjög áhugaverð orð vegna þess að lágmarkskröfur samnings Sameinuðu þjóðanna um málefni og réttindi flóttafólks kveða á um það að þegar einhver kemur og sækir um hæli, mætir til Íslands og leggur á borðið umsókn: Ég er flóttamaður — ef hann uppfyllir þau skilyrði þá ber okkur að taka á móti viðkomandi í þjónustu og veita vernd. Það eru þeir „allir“ sem Píratar eiga við, allir sem eiga í alvörunni rétt á vernd samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna sem hæstv. forsætisráðherra var að tala um hérna fyrr í dag. Finnst hv. þingmanni þetta ekki eiga að gilda? Eigum við ekki að fara eftir þessum lágmarkskröfum samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna? Er það það sem hv. þingmaður er að segja?

Það sem við erum að benda síðan á í þessum þingmálum sem koma hérna, sérstaklega þingmálinu sem var samþykkt hérna fyrir ári síðan, er að það sé verið að ganga á þessi lágmarksréttindi sem eru í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna. Þetta mál er allt öðruvísi. Þetta er bara frekar kjánalegt mál og veldur innankerfisþvælu í rauninni þegar allt kemur til alls. Það er meira hnoð einhvern veginn í umsögnunum þar sem er verið að velta tímanum fram og til baka, styttri tíma t.d., sem veldur því að (Forseti hringir.) endurumsóknarferli verða tíðari og og fleiri slík mál í staðinn. En ég spyr þá hv. þingmann: (Forseti hringir.) Þessir allir sem eiga rétt á vernd, vegna þess að þeir eru í alvörunni flóttamenn, eigum við ekki að taka á móti þeim.

(Forseti (ÁsF): Forseti minnir ræðumenn á að ræðutíminn er tvær mínútur.)