154. löggjafarþing — 113. fundur,  16. maí 2024.

útlendingar.

722. mál
[20:38]
Horfa

Birgir Þórarinsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þetta er mjög mikilvægt. Það skiptir verulegu máli að við komum til með að sjá fækkun hér á næstu misserum og mánuðum eftir að frumvarpið verður að lögum. Ég held að það sé það sem skiptir okkur verulegu máli og ég hef áður sagt það hér að þjóðin er að kalla eftir því að við gerum breytingar í þessum málaflokki sem eru með sama hætti og á Norðurlöndunum. Þetta mun leiða til þess að hér mun verða fækkun, m.a. vegna þess að við erum hér með ákvæði sem eru séríslensk og gera það að verkum að fólk leitar hingað vegna þess að það kemst ekki að öðrum löndum hvað það varðar, eins og t.d. þegar það hefur fengið vernd í öðru landi, við tökum það til efnisathugunar á sama tíma og önnur lönd vísa þessum umsóknum frá. Þannig að já, ég tel að þetta frumvarp muni gera það að verkum að við munum sjá mjög fljótlega fækkun á þeim sem sækja hér um hæli.