154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum þann áhuga sem hann hefur á þessu máli. Þetta skiptir mjög miklu máli. Kannski er hann að draga mig inn í einhverja umræðu hérna til að teygja lopann aðeins og sjálfsagt að taka þátt í því, en ég er nú reyndar ekki mjög hrifinn af því yfir höfuð. Ég tek bara undir það að það er mjög mikilvægt, eins og kemur fram í þessu nefndaráliti, að þeir sem nýta þjónustu Orkustofnunar borgi fyrir þá þjónustu, enda muni stofnunin vanda sig í sinni vinnu og skila henni á réttum tíma, sem hefur staðið á, bæði vegna þess að það er of lítill mannskapur og kostnaðurinn kannski meiri en gjöldin. Tek bara undir það að það sé mjög mikilvægt. Ég hef aldrei verið á móti því að veiðigjöld eða annað slíkt geti staðið undir kostnaði við ýmsa þjónustu við sjávarútveginn en veiðigjöldin eru tengd verðmætum þannig að það er ekki hægt að áætla þau fram í tímann eða setja þau þannig upp að þau standi kannski akkúrat undir kostnaði. Eins og t.d. núna, núna var engin loðnuveiði og ríkissjóð munar náttúrlega verulega mikið um þær upphæðir sem hafa tapast. En ég held að að öllu jöfnu þá ættum við bara að stefna að því að það sé sirka þannig að gjöld standi undir kostnaði.