154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:12]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni sína framsögu. Þetta mál leiðir óneitanlega hugann að því hvort óútfærð aðhaldskrafa sem er einhvern veginn svona hreintrúarstefna þegar kemur að opinberum fjármálum leiði okkur ekki óhjákvæmilega í þann vanda sem við erum hér að leysa með sérstöku lagafrumvarpi, að eftirlitsstofnanir og stjórnsýslustofnanir séu veiktar það mikið að þær geti ekki rækt verkefni sín með sóma. Hér er sú leið farin að taka þjónustugjald sem ég held að sé bara ágætasta leið til að komast hjá þessum vanda. En ég held að þetta sé eitthvað sem við mættum skoða í almennara samhengi líka. Hvað varðar þær umsóknir sem koma til Orkustofnunar þá eru þær náttúrlega svo gríðarlega mismunandi að umfangi að það er eðlilegt að þeir aðilar sem eru með stærstu umsóknirnar til umfjöllunar greiði í samræmi við það þannig að hér er tvímælalaust skynsamleg nálgun og ekki á hverjum degi sem við sjáum Samtök iðnaðarins skila mjög jákvæðri umsögn gagnvart frumvarpi sem snýst um heimild til gjaldtöku á iðnaðinn. Nú heyrir maður stuðning úr báðum áttum sem sjaldnast heyrist.

Þau lög sem hér er verið að fjalla um eru þess eðlis að þó að Orkustofnun hafi það hlutverk að gefa út leyfin þá er lögbundið að hafa samráð við ákveðnar aðrar ríkisstofnanir, sérstaklega nefni ég Umhverfisstofnun, Náttúrufræðistofnun og Hafrannsóknastofnun sem eiga að skila umsögnum til Orkustofnunar. Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hefur eitthvað verið skoðað hvort þurfi að koma einhvers konar gjaldtökuheimild til þeirra í tengslum við þessar umsagnir eða ætti Orkustofnun að geta einhvern veginn stutt þær eða greitt eitthvert gjald til þeirra til að sinna þessu? (Forseti hringir.) Það dugar ekki að liðka bara fyrir eitt skref í löngu ferli ef hin eru áfram jafn stirð og þau voru áður.