154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[16:47]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2024 sem er að finna á þskj. 1821. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi tillögur um breytingar á fjárheimildum nokkurra málefnasviða og málaflokka og er frumvarpið það fjórða sinnar tegundar á árinu. Áður hafa verið lögð fram og samþykkt tvö fjáraukalagafrumvörp vegna jarðhræringa og eldsumbrota í og við Grindavíkurbæ. Þriðja fjáraukalagafrumvarp ársins varðar auknar fjárheimildir vegna aðkomu ríkisins að kjarasamningum sem undirritaðir voru í mars síðastliðnum og er það enn hjá fjárlaganefnd þingsins.

Búið var að leggja fram fjárlagafrumvarp ársins 2024 þegar stigmögnun varð á jarðhræringum á Reykjanesskaga sem endaði með rýmingu Grindavíkurbæjar 10. nóvember 2023. Stuðningsaðgerðum var bætt við frumvarpið í meðförum þingsins og nam viðbótarfjárheimild vegna þeirra alls 3 milljörðum kr. Kom það til viðbótar við 5,1 milljarðs kr. aukningu heimilda í fjáraukalögum 2023 vegna atburðanna. Síðan hafa fjögur eldgos orðið í Sundhnúkagígaröðinni og íbúar og atvinnurekendur í Grindavíkurbæ standa frammi fyrir áframhaldandi óvissu.

Í frumvarpi þessu eru lagðar til auknar fjárheimildir til viðeigandi málefnasviða og málaflokka af tvennum toga. Annars vegar er verið að framlengja úrræði sem ríkisstjórnin greip til strax í upphafi eldsumbrotanna í lok síðasta árs. Hins vegar koma inn ný úrræði sem beinast að stjórnsýslu Grindarvíkurbæjar og fyrirtækjum sem starfa í sveitarfélaginu. Þá eru einnig lagðar til breyting á 5. gr og 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs.

Lög um opinber fjármál marka skýra stefnu um hlutverk og efni fjáraukalaga. Þannig er tilgreint í lögunum að fjármála- og efnahagsráðherra sé heimilt að leita aukinna fjárheimilda í frumvarpi til fjáraukalaga til að bregðast við tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum innan fjárlagaársins, enda hafi ekki verið unnt að bregðast við þeim með öðrum þeim leiðum sem tilgreindar eru í lögunum. Ef fyrrgreindar leiðir duga ekki til er enn fremur hægt að mæta tímabundnum, ófyrirséðum og óhjákvæmilegum útgjöldum sem ekki er hægt að mæta með öðrum hætti með almennum varasjóði.

Ég vil vekja athygli á því í tengslum við hlutverk og umfang fjáraukalaga að í 24. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um almennan varasjóð A-hluta ríkissjóðs. Skilyrði fyrir ráðstöfun úr sjóðnum eru samskonar og þau sem gilda um frumvarp til fjáraukalaga, þ.e. að honum er ætlað að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg. Það er hins vegar mat ríkisstjórnarinnar að best fari á því að þau verkefni sem eru inntak þessa frumvarps verði að svo stöddu ekki fjármögnuð beint með framlögum úr almenna varasjóðnum heldur óskað eftir heimildum með sérstökum fjáraukalögum.

Virðulegur forseti. Ég vík nú að meginefni frumvarpsins. Í frumvarpinu eru lagðar til auknar fjárheimildir til viðeigandi málefnasviða og málaflokka, samtals um 6,3 milljarðar kr. Í fyrsta lagi er um að ræða 4,5 milljarða kr. aukningu fjárheimildar málasviðsins umhverfismál vegna framkvæmda við varnargarða við Grindavíkurbæ. Skömmu eftir að eldsumbrot á Reykjanesi hófust í nóvember síðastliðnum var byrjað að reisa varnargarða til að verja byggð og innviði í Grindavíkurbæ og orkuverið í Svartsengi. Varnargarðarnir hafa löngu sannað gildi sitt og haldið hefur verið áfram að reisa þá og hækka eftir því sem hraun hefur runnið í kvikuhlaupum undanfarinna mánaða. Áætlaður heildarkostnaður vegna varnargarða við Grindavíkurbæ og Svartsengi liggur á bilinu 6,6–7,3 milljarðar kr.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir að auka fjárheimildir um 960 millj. kr. vegna framlengingar stuðnings í formi beinna styrkja til rekstraraðila í Grindavíkurbæ. Markmið þessarar aðgerðar er að styðja rekstur þar sem starfsemin fer fram í Grindavíkurbæ og hefur skerst verulega með beinum eða óbeinum hætti. Gerðar eru nokkrar breyting á skilyrðum styrkveitinga, m.a. er einungis gerð kvöð um a.m.k. 20% tekjufall í stað 40% áður. Þann 23. maí síðastliðinn höfðu 27 fyrirtæki sótt um rekstrarstuðning og nam greiddur styrkur 142 millj. kr. en gera má ráð fyrir að umsóknum muni fjölga á næstu vikum og mánuðum. Hlutfall fyrirtækja í Grindavíkurbæ sem gætu átt rétt á stuðningi hækkar jafnframt úr tæpum þriðjungi í helming frá fyrra úrræði vegna rýmri viðmiða um tekjufall. Því má gera ráð fyrir að kostnaðurinn aukist áður en yfir lýkur.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 400 millj. kr. auknum fjárheimildum vegna Afurðasjóðs Grindavíkur. Sjóðurinn er nýtt stuðningsúrræði til að koma til móts við áhættu rekstraraðila við að halda uppi starfsemi í Grindavíkurbæ. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn veiti eingöngu framlög á yfirstandandi ári. Með sjóðnum er komið á laggirnar fjárhagsaðstoð á vegum stjórnvalda fyrir rekstraraðila sem verða fyrir óbeinu tjóni á matvælum og fóðri af völdum náttúruhamfara. Með þessu úrræði er komið til móts við áhyggjur mikils meiri hluta rekstraraðila á svæðinu sem hafa bent á mögulegt óbeint tjón á afurðum sínum af völdum náttúruhamfara.

Í fjórða lagi er lagt til að auka fjárheimildir um 250 millj. kr. vegna framlengingar sérstaks húsnæðistuðnings. Um er að ræða viðbótarhúsnæðisstuðning til þess að lækka húsnæðiskostnað Grindvíkinga sem þurfa að leigja húsnæði til íbúðar utan Grindavíkurbæjar. Gert er ráð fyrir að úrræðið verði framlengt um fjóra mánuði, þ.e. til ársloka. Verði úrræðið framlengt til áramóta muni það kosta um 1,2 milljarða kr. og því þarf 250 millj. kr. viðbótarframlag í fjárheimildir ársins.

Í fimmta lagi er um að ræða 150 millj. kr. aukningu fjárheimildar til að greiða kostnað vegna framkvæmdanefndar um málefni Grindavíkurbæjar. Framkvæmdanefndin er tímabundið skipuð og er henni ætlað að fara með stjórn, skipulagningu og samhæfingu aðgerða og hafa heildaryfirsýn með málefnum Grindavíkurbæjar vegna þeirra margvíslegu úrlausnarefna í sveitarfélaginu sem tengjast yfirstandandi jarðhræringum á svæðinu.

Þá er eins og áður sagði lögð til breyting á 5. og 6. gr. fjárlaga. Í 5. gr. er verið að auka heimildir endurlána til Fasteignafélagsins Þórkötlu um 3 milljarða kr. þannig að heimild ársins nemi 15,5 milljörðum kr. en í lok maí síðastliðinn var Þórkatla búin að festa kaup á fasteignum fyrir um 45,6 milljarða kr. Samtals hefur 577 kaupsamningum verið þinglýst og er gert ráð fyrir að umsóknir um kaup Þórkötlu á íbúðarhúsnæði gætu orðið allt að 950. Einnig er lagt er til að tveimur nýjum liðum verði bætt við 6. gr. fjárlaga yfirstandandi árs. Annars vegar er heimilda leitað til að auka við hlutafé Fasteignafélagsins Þórkötlu um allt að 37 milljarða kr. sem kemur í stað 25,9 milljarða kr. gildandi heimildar vegna fjármögnunar á kaupum á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Hins vegar er lagt til að heimildar verði aflað í 6. gr. fjárlaga til að ráðstafa allt að 15 milljörðum kr. úr sjóðum Náttúruhamfaratryggingar Íslands til Fasteignafélagsins Þórkötlu sem nýttir verði til að fjármagna hluta af hlutafjáraukningu til félagsins til að standa undir kaupum á íbúðarhúsnæði í Grindavík. Við þá ráðstöfun verður gætt að því að Náttúruhamfaratrygging geti staðið undir skuldbindingum sínum til framtíðar.

Virðulegur forseti. Ég hef nú farið yfir helstu þætti þessa fjórða frumvarps til fjáraukalaga fyrir árið 2024. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. fjárlaganefndar þingsins.