19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í B-deild Alþingistíðinda. (1001)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Ráðherrann (H. H.):

Eg skal taka það fram, að þessar sundurliðanir, sem háttv. framsm. er svo illa við, eru settar inn í fjárlögin af þinginu sjálfu, og stjórnin hefir að eins lofað því að standa. Eg sé ekki að þær geri neitt ógagn, þvert á móti eru þær til frekari nákvæmni.

Háttv. framsm. skildi ekki, hversvegna annari reglu er fylgt viðvíkjandi geðveikrahælinu á Kleppi, heldur en holdsveikraspítalanum. Ástæðan er sú, að geðveikrahælið hefir tekjur af sjúklingum sínum, og landssjóður leggur að eins til mismuninn, sem gjöldin fara fram úr þessum tekjum. Það er því ómögulegt að sundurliða í fjárlögum, hvað af þeim styrk fer til hverrar útgjaldagreinar hælisins, og verður að hafa upphæðina í einu lagi. Gjöld holdsveikraspítalans borgar landssjóður aftur á móti að fullu, og má því sundurliða gjöldin, lið fyrir lið.