19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Það eru fáein smáatriði, er koma mér til að standa upp. Það að fella styrkinn til Hafnarfjarðarvitanna fyr en Hafnarfjörður hefir tekið að sér að bera kostnaðinn við lýsingu þeirra, og að nema hann af fjárlögunum álít eg ekki hægt, fyr en bæjarstjórnin þar hefir samþykt að bera kostnaðinn.

Þá ætla eg að minnast á breytingartillögu mína (313) um að færa tillagið til Vogastapavegarins úr ½ niður í ?. Þetta er eini þjóðvegurinn í sýslunni, og sem landssjóði því bæri að kosta að mestu leyti.

Síðan vegur þessi byrjaði, hefir Kjósarsýsla fallið frá og Hafnarfjarðarkaupstaður, með öðrum orðum, helmingur þeirra, er bera áttu byrðarnar eins og stóð á þegar til vegagerðarinnar var stofnað í upphafi. Ósk þessi er því í alla staði sanngjörn.

Svo ætla eg að segja fáein orð um brúna á Rangá. Eg hefi aflað mér töluverðra upplýsinga, og veit vel, að það er þörf á brúnni, en það eru afarmargar ár hér á landi, bæði stærri og smærri, meira að segja sprænur geta orðið bráðófærar, eftir því hvar þær liggja. Eg veit vel, hvernig á því stendur með Rangá og hefi eg leitað upplýsinga hjá póstinum, telur hann Rangá talsverðan farartálma, en samt hefir hann á þriggja ára tímabili ekki tepst nema einn dag við hana. Á sumrin er hún alt af fær. Yfir hana er ilt að komast með vagn. En svo bætir hann við: »Selalækur er miklu verri«. »Eru fleiri torfærur á leiðinni?« »Já, Þverá og Eystri-Rangá þyrfti einnig að brúa«. Milli þessara fjögurra vatnsfalla er tveggja tíma reið, og það er jafnmikil þörf á að brúa þær allar, eins og Ytri-Rangá, ef koma á vagnvegi austur sýsluna.

En hvað mikið mun það kosta? Um það þarf að gera áætlun, svo menn sjái kostnaðinn í einu lagi. Aftur á móti mundu svifferjur á allar árnar ekki kosta eins mikið og ein brú, ef hægt væri að nota þær. Eg á við svo fullkomnar svifferjur, að þær taki bæði hest og vagn. Eg hef séð þær erlendis á ám líkum og Rangá og smærri ám, og myndu þær kosta 3—5 þúsund krónur. Eru hlemmar á báðum endum, er upp má ljúka og loka eftir vild, sem mynda brú á land fyrir fólk og vagna. Það er auðsætt, að það er gagnslítið, að brúa eina af þessum ám í því skyni að tryggja sér vagnveg, sem hér er lögð öll áherzlan á, þegar að eins er tveggja tíma ferð milli þeirra allra, og að brúa þær allar mundi kosta ef til vill eins mikið og að brúa Þjórsá og Ölfusá til samans. Sem stendur eru þær að eins tálmun fyrir vagna, en eigi fyrir lestamenn. Virðist mér háttv. l. þm. Rangv. (E. P.) full harðorður þegar þess er gætt, að haldið er leyndu hinu sanna ástandi um brúarþörfina þar eystra. Eg fer ekki út í harðyrði hans: þau munu hvort sem er detta marklaus niður. Lái eg honum ekki, þó honum sé þetta kappsmál. Það má gera alt að kappsmáli, og svo er um þetta. Annars ætti stjórnin að gera áætlun um kostnað við að brúa allar þessar fjórar fyrtöldu ár, svo að þinginu gefist kostur á að vita um allan kostnaðinn.