20.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (1054)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg hef komið fram með breyt.till. um, að ekki verði tekið til greina breyt.till. fjárlagan. um það, að lækka styrk til barnaskóla í kaupstöðum. Vitanlega stendur tillaga stjórnarinnar, ef tillaga nefndarinnar verður feld, og að því leyti er hún óþörf, enda hefir mér gengið það eitt til þessarar breyt.till., að vekja athygli háttv. þm. á þessum lið fjárlaganna. Af því að margir munu enn eiga eftir ótalað, skal eg vera stuttorður.

Hér hefir mikið verið rætt um kvennaskólana, einkum kvennaskólann í Reykjavík. Meðal annara, sem á það atriði hafa minst, er háttv. þm. Dal. (B. J.). Hann kvaðst ekki vera andstæður því, að þessi skóli væri styrktur, en taldi að öðru leyti alt vort skólafyrirkomulag ófullkomið og að sumu leyti öfugt. Eg get verið honum samþykkur um það, en hætt er við, að slíkar umbætur ættu langt í land, því að vandasamt er að taka öll kenslumál landsins fyrir. En meðan það er ekki gert, tel eg ekki rétt, að smásálga lífið úr þessum skóla eða öðrum slíkum. Kvennaskólinn hefir nú aflað sér betra húsnæðis og breytt fyrirkomulagi sínu í praktiskari átt með því að stofna heimavistir og húsmæðrafræðslu. Þetta tel eg holla stefnu og skylt að hlynna að henni. Það hefir og nokkur áhrif á mig, að skóli þessi hefir ágæta kenslukrafta. Forstöðukonan er hin mesta dugandis kona, en vér vitum, að það sem mest ríður á við alla skóla, eru kennararnir. En í samræmi við það, að kvennaskólinn á Blönduósi er styrktur svo sómasamlega af hlutaðeigandi sýslufélagi, þá sýnist mér sanngjarnt, að Reykjavík legði eitthvað talsvert af mörkum til skólans, því að sú upphæð, sem heita á, að bærinn leggi skólanum nú, er hlægilega lítil, 100 kr. eða svo. En það er vitanlegt, að meiri hluti stúlkna á skólanum er úr Reykjavík. Að sjálfsögðu mundi eg og vera samþykkur fjárveitingu til hins skólans, ef fjárveitingin, sem skólinn hér í Reykjavík hefir farið fram á nær fram að ganga, til þess að allur jöfnuður haldist.

Þá vildi eg minnast á nokkra liði í 15. gr. Svo framarlega, sem vér viljum heita mentaþjóð, er sjálfsagt, að vér styrkjum vísindi, skáldskap og listir eftir því, sem efnin leyfa. Eg skal játa það, að fátækt landsins leyfir ekki, að styrktir séu aðrir, en afbragðsmenn. En afbragðsmenn tel eg oss eiga í þeim mönnum, sem hér hafa oft verið nefndir í dag, Einari Hjörleifssyni, Þorsteini Erlingssyni o. fl. Það viðurkenna sjálfsagt allir, að skáldskapur og listir hafi stórmikla þýðingu fyrir hverja þjóð, og sé því nauðsyn, að hlynna að skáldum og listamönnum.

Því hefir verið kastað fram, að skáldin semdu sín beztu kvæði, þegar þeir væru í þröng. Eg skal játa það, að oft hefir það reynst svo í sögu heimsins, en af því flýtur ekki það, að nauðsynlegt sé að kvelja þessa ágætismenn. Eg skal því til sönnunar t. d. leyfa mér að benda á hæstv. ráðherra. Allir vita og viðurkenna, að hann hefir verið eitt af beztu skáldum landsins. Hann hefir að sönnu víst aldrei verið neinn auðmaður, en það hefir þó aldrei, svo eg viti, kreft neitt verulega að honum, og þó hefir hann náð einum af hæstu og beztu tónunum. Það er því ekki annað en bábilja, að skáldunum þurfi endilega að líða illa til þess að þau geti ort vel, og náð mjúkum og hljómþýðum tónum.

Það er ómögulegt að meta, hve mikils virði fyrir hugsjónir og frelsisást það er, að þjóðirnar eigi góð skáld, það er ekki einasta samtíð þeirra, heldur einnig niðjarnir, sem uppskera af ljóðunum. Eg vil t. d. benda á eitt góðskáldið okkar, Jónas Hallgrímsson. Hversu mikið mundi okkur ekki finnast gefandi að eins fyrir eitt einasta lítið kvæði eftir hann, t. d. kvæðið »Grátitlingur«? Hve mörg góð frækorn hafa ekki fallið í ung hjörtu frá ljóðunum hans? Hve margar göfugar hugsanir hafa ekki ljóðin hans og annara góðskálda vorra vakið í hjörtum landsins barna.

Að því er snertir Einar Hjörleifsson og Þorstein Erlingsson, þá eru þeir báðir heilsulitlir menn, sem vér getum líklega ekki notið lengi, og því finst mér sjálfsagt, að styrkja þá í tíma; hvorugur þeirra getur neytt hæfileika sinna til hlítar með lægri styrk, en breyt.till. fara fram á eða 1500 kr. En eg tek það fram aftur, vér höfum ekki efni á að styrkja jafn mörg skáld og hér er gert ráð fyrir.

Um Helga Jónsson grasafræðing er mér kunnugt, hve ágæta stund hann hefir lagt á ísl. grasafræði og hve einelskur hann er að henni, enda hefir hann notið trausts og álits kennara síns prófessors Warming, sem er einhver hinn færasti vísindamaður í þeirri grein á Norðurlöndum. Það er enginn efi á því, að hann er færastur allra núlifandi Íslendinga í þessari fræðigrein, og því verður það nærri óskiljanlegt, þegar svo fór fyrir skemstu, að honum var ekki veitt skóggræðslustjórastaðan. Hann var þó Íslendingur og vafalaust fær til þessa starfa. Eg vil því leyfa mér, að mæla með því, að honum sé veittur 1500 króna styrkur.

Mér gefst máske færi á því, að segja síðar eitthvað um aðra liði. Eg ætlaði ekki að tala svona snemma, og var því ekki alskostar viðbúinn.