24.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Jón Jónsson (1. þm. N.-Múl.):

Eg sé að hér er farið fram á, að lækka eigi all-lítið styrk þann til búnaðarfélaganna, er þau hafa að undanförnu notið, og lítur helzt út fyrir, að stefnan sé sú, að hann hverfi smátt og smátt úr sögunni.

Þessu háttalagi er eg gersamlega mótfallinn, því mér finst það koma ranglega niður á jafn-nytsömum félagsskap og búnaðarfélögin eru fyrir þetta land.

Búnaðarfélögin veita alþýðu manna mikla og happasæla fræðslu og hvatning til hvers konar búnaðarframfara, einkum jarðabóta. Félagsskapur þessi á víða erfitt uppdráttar, bæði vegna deyfðar og þó einkum vegna fólksfæðar. Auk þess verða búnaðarfélög að greiða árlega gjöld til búnaðarsambandanna eða svo er það fyrir austan hjá okkur. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðherra, að búnaðarfélögin hafi tekjur frá samböndunum og búnaðarfélagi Ísl. Styrkur sá er fólginn í leiðbeiningum, sýningum og þess háttar. Yfir höfuð að tala veitist sveitunum erfitt með að halda félögunum uppi, þar sem fólkið streymir eins og kunnugt er til kaupstaðanna, og þeir fáu menn, sem fást til að vinna í þarfir þessara félaga, eru afar-kaupdýrir.

Af þessu ætti að vera augljóst, að eigi félögin að geta komið að tilætluðum notum, þá verða þau að njóta styrks af hálfu hins opinbera. Mér finst það vera bein skylda þingsins, að stuðla að því, að þessi félagsskapur geti þrifist.

Mér skildist á ræðu háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.), að hann teldi landbúnaðinn alt of hátt settan í samanburði við sjávarútveginn. En það dugar ekki að vera að togast á um þessa atvinnuvegi, það getur orðið þeim báðum til tjóns. Happadrýgst mun verða, að samvinna geti haldist sem bezt milli þessara höfuð-atvinnugreina þjóðarinnar.

Eg býst við, að háttv. frams. (Sk. Th.) tali nú bráðum, og vildi eg skjóta því að honum, að gera bragarbót við hina fyrri ræðu sína, að því er snerti okkur Austfirðinga. Ella gæti eg trúað, að þær mætur, er ýmsir þar eystra hafa á honum færu minkandi.