29.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Sigurður Gunnarsson:

Eg á hér að eins 2 hreyt.till. og skal eg fyrst minnast á breyt.till. 669.

Eg er þakklátur Ed. að lánsheimildin í 22. gr. fjárlaganna hefir fengið að standa. Háttv. Ed. hefir verið sannfærð um, hve afarnauðsynleg þessi bátakví er, sem þar um ræðir, þar sem veiðistöðin er hin fisksælasta við Breiðaflóa, en brimlending háskaleg; en hin háttv. Ed. hefir gert annað. Hún hefir breytt lánskjörunum, gert þau miklu erfiðari. Eg kem nú hér með þessa breyt.till., sem miðar að því að setja þetta aftur í sama horf, og vona eg, að háttv. þingdm. telji það eigi eftir, þó lánskjörin séu bætt. Vona eg að þessari breyt.till. minni verði vel tekið, og að háttv. Ed. hafi eigi mikið við þetta að athuga, er hún íhugar það nánar.

Þá ætla eg að drepa á breyt.till. á þgskj. 666, sem eg á ásamt nokkrum öðrum háttv. þm. Þær eru viðvíkjandi skáldastyrk. Mér virðist bezt við eiga, að fara gætilega í að styrkja mörg skáld, þar sem þröngt er í búi landssjóðs og í mörg horn að líta, en vildi, að þau skáld, sem á annað borð fá styrk, væru styrkt myndarlega. Eg hefði helzt kosið, að þingið í þetta sinn hefði einungis styrkt 3 skáld, en látið hin bíða betri tíma. Vér, sem komum með þessar breyt.till., viljum leggja til, að styrkurinn í 22., 23. og 24. lið, 15. gr., sé færður niður, ýmist að þriðjungi eða helmingi.

Þá ætla eg að drepa með örfáum orðum á breyt.till. háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) um að 15 þús. kr. af því fé, sem ætlað er til gufubátaferða á fjörðum og flóum, verði varið til Hornafjarðar-gufubátsins. Virðist þetta bæði óréttlátt, þareð, ef þetta yrði, væri einar 30 þús. kr. ætlaðar til allra annara gufubátsferða á landinu, og því síður ástæða til að samþykkja þetta, er »Sam. gufuskipafélagið« gerir í tilboði sínu ráð fyrir sérstökum bát til þessa með auknu tillagi. Eg geng út frá því sem vísu, síðan tilboð »Thore«-félagsins var felt, að eigi verði í annað hús að venda, en að semja við hið Sameinaða. Annars er þetta tilboð Sam. fél. fyrst nú komið fyrir sjónir þingdeildarinnar allrar, svo að naumast er enn unt að átta sig á því til hlítar, sízt áætluninni um millilanda- og strandferðir, og er því skiljanlegt, að hvorki eg né aðrir þm. hafi getað kynt sér áætlanir félagsins að nokkru ráði. En við fljótlega yfirferð sé eg, að áætlunin er alsendis óviðunandi, að því er snertir Breiðaflóa, verði henni eigi breytt. Það má eigi minna vera, en ferðir verði þó eitthvað skárri en áður, þar sem þingið leggur ríflega fé til, og hefir hafnað öðru fyrirkomulagi á samgöngumálunum, er eg taldi og tel illa farið. Eg verð að treysta því, að svo verði um hnútana búið, að áætlun þessa megi laga til hagræðis fyrir landsmenn, frá því sem hún nú birtist.

Af því að svo mikill tími hefir gengið í þessa umræðu, þá ætla eg ekki að vera margorður, en minnast þó á einstöku breyt.till. Háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) kom með þá till. að fella burtu styrkinn til. G.-T.-reglunnar, og bygði hann þá breyt.till. sína á því, að starfi hennar myndi nú lokið hér á landi, er bannlög væru samþykt. Eg býst við, að hlutverk G.-T. verði sama og áður hefir verið, og veit ekki betur, en að vín verði flutt inn í landið til 1912. Og þótt eigi væri annað, þá ætti að veita þennan styrk sem viðurkenning fyrir gott og vel unnið starf. Vona eg að allir þingdm., sem meta þetta starf að nokkru, greiði atkv. á móti þessari breyt.till.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) virtist mér fordæma nokkuð snemma fjármálapólitík meiri hlutans. Enginn getur vænst þess með sanngirni, að meiri hlutinn hafi getað lagt nokkura fasta undirstöðu undir fjármálapólitík sína á þessu þingi, enda er það hinn heiðraði minni hluti, sem þar hefir lagt grundvöllinn, eða búið alt í garðinn. Hinar stórpólitísku öldur hafa, einsog kunnugt er, risið allhátt á þessu þingi, og þegar svo er, er naumast að vænta þess, að meiri hlutinn hafi haft færi á að breyta verulega stefnunni að þessu sinni. Svo er og á það að líta, að minni hlutinn hefir lagt alt kapp á að rugla fjármálin, og auðséð á mörgu, að honum hefði eigi leiðst, þótt tekjuhallinn hefði orðið mun drýgri. Mun minni hlutanum heppilegast að bíða með dóm sinn. Annars ætla eg ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að svo komnu.