19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (1163)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Framsögumaður (Björn Jónsson):

Eg hef áður gert grein í ástæðum nefndarinnar fyrir breytingum þeim, er hún mælti með við þetta frumv. og hefir hæstv. ráðherra (H. H.) ekki hrakið þær að neinu. Um brúargerð á Rangá er það að segja, að eg fæ ekki séð, að nokkur meiri ástæða sé til að brúa þá á, en svo fjölda margar aðrar ár á landinu. Mjög víða á landinu hagar svo til, að vatnsföll eru erfið og ill yfirferðar, já oft og einatt ófær; þar er víða þörfin meiri en með þessa á, sem fremur má teljast lítill þrándur í götu. Áin er bergvatn með góðum botni, jafnvel á vögnum má hæglega komast yfir hana. En hve margar óbrúaðar torfærur eru það ekki, sem það er ekki hægt að segja um?

Miðstöðvarhitun í pósthúsinu er ekki rökstudd með öðru en því, að það sé þægilegra og skemtilegra — jú, ódýrara er líka sagt, en um það fer nú tvennum sögnum. Mér er að minsta kosti kunnugt, að miðstöðvarhiti var fyrir nokkru settur í stórt verzlunarhús hér í bænum og hefir mér verið sagt, að síðan eyðist þar 1000 kr. meira á ári til hitunar en áður. Auk þess er pósthúsið orðið gamalt og kröfur eru farnar að heyrast um að koma þurfi upp nýju pósthúsi. Það væri óhyggilegt að fara hér að leggja nýja bót á gamalt fat.

Þá talaði hæstv. ráðh. (H. H.) um símann til Vestmannaeyja og kvað hann það óráð og tap fyrir landið að fresta honum. Eg fæ ekki séð, að það sé neitt óráð að fresta því nú um stuttan tíma, ef tök væru á því að koma á hagkvæmu loftskeytasambandi, sem kemur að öllum sömu notum sem sími nema miklu meiri fyrir skip á sjó. Hvort hér verði komið við loftskeytasambandi, er nokkuð sem ekki er hægt að fullyrða fyrir víst, en það sem hæstv. ráðh. (H. H.) gat um, að starfræksla loftskeytastöðva væri svo feikna dýr, þá getur það verið að hún sé dýr við hinar miklu og stórkostlegu stöðvar úti í heimi, sem eiga að flytja skeyti mörg þúsund mílur, en ekki er því máli hér að gegna, þó að sett verði á stofn smástöð ein í Vestmannaeyjum. Annars þarf ekki mikið að vera að tala um þetta, því að það sýnist nokkurn veginn sjálfsagt, að koma hér upp loftskeytastöðvum sem fyrst.