19.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (1171)

2. mál, fjáraukalög 1908 og 1909

Jóhannes Jóhannesson:

Eg stend upp að eins til þess að minna háttv. deild á það, að háttv. fjárlaganefnd hefir að öllu leyti fallist á þær 2 br.-till, sem við þm. að austan höfum leyft oss að koma fram með á þskj. 261.

Fyrri breyt.till. er eðlileg afleiðing þess, að háttv. fjárlaganefnd hefir séð nauðsynina á því, að Fagradalsbrautin, er langt er síðan byrjað var á, verði fullger á yfirstandandi ári, og því lagt til, að fjárveitingin til hennar verði færð úr fjárlögunum yfir á fjáraukalögin. Vegur sá, sem hér er um að ræða, á nefnilega að liggja frá enda brautarinnar við Egilsstaði um svo nefnt Egilsstaðanes að Lagarfljótsbrúnni og kemur brautinni eigi að fullum notum fyrri en vegurinn er lagður.

Að því er brúna á Jökulsá á Dal hjá Hákonarstöðum snertir, skal eg leyfa mér að upplýsa það, að áætlun um trébrú á þessum stað að upphæð 6 þús. kr. eftir þáverandi lands-verkfræðing, hr. Sigurð Thoroddsen, lá fyrir þinginu 1905 og veitti það á fjárlögunum fyrir árin 1906—1907 3 þús. kr. til brúar þessarar, þó ekki yfir helming kostnaðar. Núverandi lands-verkfræðingur hr. Jón Þorláksson lagði hins vegar til, er til hans kasta kom, að amerísk stálbrú væri sett í stað trébrúar á ána — þótti brúin of löng til að vera trébrú — og áætlaði kostnaðinn við stálbrú 2600 kr. hærri en við trébrú eða 8600 kr. Helminginn af þessum 2600 kr. eða 1300 kr. veitti þingið 1907 á fjáraukalögunum fyrir fjárhagstímabilið 1906—1907 og sýndi með því, að það ætlaðist til að landssjóður greiddi helming kostnaðarins við brúargerðina.

Nú komst brú þessi loks á síðastliðið sumar og kostaði alls kr. 9116,28. Helmingur af þessari upphæð er kr. 4558,14. Þar af eru veittar eins og eg gat um kr. 3000,00 á fjárlögunum fyrir árin 1906—1907 og 1300 kr. á fjáraukalögunum fyrir sömu ár.

Mismunurinn milli hálfs kostnaðarins og hinna veittu upphæða kr. 258,14, að viðbættum kr. 0,79, sem eigi hafa komið til útborgunar af hinu veitta fé og því er endurveiting, eða samtals kr. 258,93, fer því breyt.till. vor fram á, að veitt verði á fjáraukalögum þessum og treysti eg því að hún nái fram að ganga.