17.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

4. mál, landsreikningurinn 1906-1907

Ráðherrann (H. H.):

Frumv. þetta er samið í sama formi og áður, þræðir fjárlögin að mestu lið fyrir lið. Þó er það á stöku stað, að fjárupphæðin í fremra dálki stendur ekki heima við fjárlögin, því að þar er einnig talið það, sem veitt er í fjáraukalögunum. En frumv. fylgir sundurliðað yfirlit, þar sem gerð er grein fyrir þessu.

Landsreikningarnir eru nú prentaðir og búið að svara endurskoðendum. En prentun á tillögum endurskoðenda er enn eigi lokið, og því ekki hægt að útbýta landsreikningnum nú þegar, en mun verða gert næstu dagana.

Eins og sjá má af frumv. þessu, er tekjuhallinn minni en búist var við. Hirði eg ekki að endurtaka það, sem eg sagði um þetta efni í gær. Hér í er og innifalinn kostnaður við konungskomuna o. s. frv. Verða reikningar yfir þann kostnað allan lagðir fyrir reikningslaganefndina.