23.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 643 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

87. mál, vantraust á ráðherra

Sigurður Sigurðsson:

Út af umr. þeim, er orðið hafa hér viðvíkjandi orðalaginu í þingsályktunartill. þeirri, er hér liggur til umr., vil eg segja það, að eg hefði kosið að öðruvísi hefði verið þar að orði kveðið. Eg á þar við orðið »vítaverður«. Fyrir því vil eg láta þess getið, að þegar eg greiði atkv. með þessari till. þá legg eg þann skilning í orðið vítavert, að það sé

sama sem, að ýmsar ráðstafanir stjórnarinnar séu aðfinsluverðar. En það sem einkum ræður mínu atkv. Í þessu máli er það, að eg vil ekki stuðla til þess að þingræðið sé brotið, ekki stuðla til þess, að ráðherrann sitji við völd, þótt hann hafi meiri hluta þjóðkjörinna þm. á móti sér. Því verður heldur ekki neitað, að það hefir verið ýmislegt athugunarvert í fari stjórnarinnar. Það sem mér í þeim efnum finst athugaverðast, er það hversu ógætilega núverandi stjórn hefir farið með fé landsins, miklu ógætilegar heldur en hyggnir menn mundu álíta heppilegt. Eg álít að hverri þjóð sé nauðsynlegt, að stjórnin sé aðgætin í fjármálum; hún þarf heldur að reyna að takmarka fjáraustur þingsins heldur en hið gagnstæða. Það er óneitanlegt, að stjórnin hefir gengið lengra en holt var í þessum efnum. Hins vegar er ekki hægt fyrir stjórnina að vitna í núverandi fjárhag — því það er ekki forsjá stjórnarinnar að þakka, að tekjuafgangur hefir orðið á fjárlögunum að undanförnu heldur hinu góða árferði, er verið hefir að undanförnu. Svartasti bletturinn í fjármálapólitíkinni er því hinn gegndarlausi fjáraustur, sem átti sér stað við konungsmóttökuna og þótt það sé vitanlegt að hæstv. ráðh. (H. H.) hefir ekki einn átt sök á því, þá er hitt þó ljóst, að honum hefir ekki verið það mjög á móti skapi, því þá hefði naumast verið gengið jafnlangt í fjársóuninni og raun varð á. Það hefir verið minst á titla og krossa. Get ekki látið þess ógetið, að eg álít að slíkt geti haft ill áhrif á menn. — Hitt er óviðurkvæmilegt, þegar farið er að nota krossa og nafnbætur sem verzlunarvöru, eins og sagt er að hafi átt sér stað. Það er og eigi ofmælt að nafnbæturnar hafi einkum hitt þá,

er fylgdu stjórninni að málum, og ekki er fráleitt að álykta, að einhver hafi bundið sig fastari böndum við stjórnina fyrir þessi gæði.

Sömuleiðis var minst á útlendinga, sem eru starfsmenn í landinu, og að þeir hefðu að jafnaði hærri laun en aðrir. Eg skal ekki fara langt út í það mál, að eins benda á það að eg álít að sjálfsagt sé að gera þá kröfu til þessara manna, að þeir kunni okkar mál. Það eru hreinustu vandræði þegar t. d. þeir sem starfa við símann kunna ekki það mál, sem talað er í landinu. Skal ekki orðlengja frekara, en vil að eins taka það skýrt fram, að eg skil orðið »vítaverður« sama sem aðfinsluverður.