28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (1281)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Hannes Hafstein:

Eg ætla mér ekki að fara í orðakast við háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um það, hvort Ísland fái »fullveldi« (souverænitet) með frumv. eða ekki. Þetta eru orð, sem toga má og skýra á ýmsa vegu, enda er það eftirtektavert, að engin ríki hafa tekið þetta orð eða þessa lýsingu á sér upp í stjórnarskrár sínar nema nokkur smáríki, sem ekki eru »souveræn« eða hafa fullveldi í orðsins venjulegu merkingu, ekki einu sinni eins mikið eins og við höfum í framkvæmd og reynd. Það mundi ekki auka tangri né tegund við réttindi Íslands eða bæta stöðu þess á neinn hátt, þó að þessu orði væri aukið inn í 1. gr. sambandslagafrumv. Ef Ísland hefir ekki »fullveldi« eftir öðrum ákvæðum frumv., þá nær það því ekki, þó að þessu orði sé troðið inn.

Annars virðist það auðsætt, að svo framarlega sem fullveldi Íslands skerðist við málasambandið um hermál og utanríkismál, eins og frá því er gengið í frv. sambandslaganefndarinnar, þá hlýtur fullveldi Danmerkur að skerðast að sama skapi við samning þennan. Eins og Ísland felur Danmörku mál þessi Dönum til meðferðar án uppsegjanleika, eins skuldbinda Danir sig til þess að hafa þessi mál á hendi og standast fyrir oss kostnað af þeim án uppsegjanleika, og væri svo að Ísland ætti þá fólksfjölgun fyrir höndum, sem meiri hlutinn hefir gert ráð fyrir, þegar hann hefir verið að berjast móti jafnréttisákvæðinu, þá mundi með tímanum vera allmikið misrétti í því, að Danir einir bæru allan kostnað af vörn og utanríkispólitík ríkjasambandsins. En þeir gætu ekki losað sig við það. Þeir væru bundnir, þangað til sambandslögunum væri breytt. En til þess þyrfti Íslands samþykki. Sannleikurinn er auðvitað sá, að hvorugt landið glatar þjóðarfullveldi sínu, þótt þau leggi á sig þær takmarkanir, sem samningur þessi hefir í för með sér, og láti ríkjasambandið (Statsforbindelsen) framkvæma í einu fullveldi beggja landanna í vissum greinum.

Viðvíkjandi tali forsetanna við Neergaard forsætisráðherrann skal eg að eins taka það fram, sem áður hefir sagt verið, að þar sem þeir frá upphafi settu á odd þá efnisbreyting, sem ekki gat komið til tals, og hver einasti flokkur í ríkisþinginu skýlaust hafði aftekið, þá var engin von til þess að hann færi að fyrra bragði að brjóta upp á formbreytingum.