28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 798 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Pétur Jónsson:

Eg ætla ekki að halda ræðu, en að eins spyrja forkólfa hins háttv. meiri hluta, hvort þeir ætla ekki að svara fyrirspurnum hins háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.)

Mér finst þjóðin eiga heimting á að fá að vita, hvað þessir menn hugsa sér um framgang þessa máls framvegis.

Eg vil því að eins árétta þessa spurningu fyrir mína hönd og margra annara á þessu landi, hvað þeir hugsa sér um framgang þess, þar sem Danir eru búnir að neita í áheyrn forseta alþ. og þar sem forsprakkar meiri hluta flokksins hafa lýst því yfir, að tilhliðrun við Dani eigi ekki að eiga sér stað í þessu máli. Hvað hugsa þeir sér? Þetta gæti mint menn á fornar tíðir, þegar líkt stóð á, þá var skylt mál á ferðinni, er átti að halda til streitu. Það var endurskoðunarbaráttan, er hófst 1885 og var endurnýjuð 1888.

Þá var gerð sú heitstrenging, að halda þessu máli til streitu með kappi og hiklaust og röggsamlega. Öllum er kunnugt, hve sú röggsemi dignaði upp á áraskeiðinu frá 1897 til 1903 og hvernig sumir áköfustu kraftarnir gugnuðu. Eru nú líkur til röggsamlegri framgöngu, þegar sem engin von er um sigur þess, sem barist er fyrir?