28.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

5. mál, samband Danmerkur og Íslands

Framsögumaður minni hlutans (Jón Ólafsson):

Af orðum hins háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) verður ekki annað dregið en það, að hann hugsi sér þann endi þessa máls, að vér höfum sama ástandið óbreytt og nú höfum vér, að vér berjum í sífellu höfðinu við steininn, eða gefumst upp að öðrum kosti — eftir 30 ár eða hver veit hvað langan tíma; að vér þá gefum upp loftkastalavígin! En hvar eru þá öll skilnaðarstóryrðin? Voru þau öll ekki annað en »reykur, bóla, vindaský« — tómur vindur?

Eg gerði þá fyrirspurn til hæstv. ráðh. (B. J.) áðan, hversu hann ætlaði að fara að, þá er hann hefir flutt fyrir konungi þetta frumv. og fengið neitað staðfesting þess — hvort hann ætlaði þá að leika norska leikinn upp aftur.

Eg sé, að hæstv. ráðh. (B. J.) er hér nú ekki sýnilega nálægur í holdinu — í sæti sínu, en eg þykist sjá hér inn um gættina á ráðherra-herberginu, að hann sé svo nálægur, að hann megi vel nema mál mitt. Þjóðin á fylstu heimting á, að hann skjótist ekki í felur fyrir orðum mínum, heldur svari þessari spurningu vífilengjulaust. — Eða getur hann ekki svarað? Þarf hann að halda flokksfund fyrst og leita véfréttar hjá þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um, hverju hann megi svara? Eða hefir flokkurinn skipað honum að þegja við öllum óþægilegum spurningum?

Það lítur út fyrir, að það sé ekki hæstv. ráðherra (B. J.), er flokknum ræður, heldur sé það flokkurinn, er honum ræður. En hvað sem því líður nú, þá er svar hins hæstv. ráðherra (B. J.) ókomið enn.

Kemur það?