27.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 848 í B-deild Alþingistíðinda. (1338)

7. mál, háskóli

Ráðherrann (H. H.):

Eins og háttv. þingd. mun vera kunnugt, þá er frv. það, sem hér liggur fyrir komið fram samkvæmt þingsályktun frá síðasta alþingi.

Eins og tekið er fram í athugasemdunum við frumv., þá er það að miklu leyti samið eftir tillögum forstöðumanna mentastofnananna hér, og síðan hefir hans hátign konungurinn fallist á hugmyndina, og er því full vissa fengin fyrir því, að lögin muni ná staðfestingu konungs.

Ed. hefir rætt frumv. ítarlega og samþ. með litlum breyt., er eg finn enga ástæðu til að fara að ganga í gegnum. Þó er það ein af breyt. hv. Ed., sem eg get ekki felt mig við eða fallist á að sé rétt. Í stjórnarfrumv. var ákveðið að lögin gengju í gildi á afmælisári Jóns Sigurðssonar 1911, en Ed. hefir breytt þessu ákvæði þannig, að lögin skuli þá fyrst koma til framkvæmda, er veitt sé fé til háskólans á fjárlögunum, og er meiningin að því sé skotið á frest í þetta sinn.

Eg get ekki skilið, hvers vegna það á að fresta framkvæmdum laganna, ef þingið á annað borð aðhyllist þau. Mér finst einmitt að það ætti að vinda bráðan bug að framkvæmdum. Það er engin ástæða til að fara að bíða eftir sérstakri háskólabyggingu, því það má í bráðina komast af með það húsnæði, sem æðri skólarnir hafa nú, eða eins og sumir hafa stungið upp á, má ef til vill nota efra loft mentaskólans fyrir háskólakensluna. Ef ekki er byrjað með háskólabyggingu, þá verður lítill útgjaldaauki að háskólanum, og mundi ekki muna miklu fyrir landið hvað það snertir, en aftur á móti er ýmislegur hagnaður við að fá háskólann strax, sem ekki er hægt að meta til peninga.

Eg býst við, að háttv. deild setji nefnd í málið til að athuga það. Eg vil því ekki fara fleiri orðum um það í bráðina, en láta mér nægja að skírskota til þess, sem tekið er fram í athugasemdunum við stjórnarfrumv.