08.03.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

6. mál, aðflutningsgjald

Sigurður Hjörleifsson:

Mér finst eins og háttv. deildarmönnum hættivið að gleyma aðalatriði málsins, nfl. því, að tryggja landsjóði tekjuauka. Ef það tekst ekki, eru lögin gagnslaus. Mig furðaði mjög á ræðu háttv. 5. kgk. þm. Hann lagði mikla áherzlu á þá grimd, sem væri innifalin í því, að láta lögin ná til allra vörubirgða. En sami háttv. þm. gaf þær upplýsingar við 2. umræðu málsins, að tveir kaupmenn hér í Reykjavík hafi á óleyfilegan hátt fengið njósnir af undirbúningi þessara laga, og hafi því birgt sig upp til margra ára. En hvernig fer þá, ef slíks eru mörg dæmi? Mundi þá ekki verða harla lítið gagn að ákvæðum laganna? Og ef svo er, að nokkrir menn hér í bænum hafa haft njósnir af lögunum, er lítil trygging fyrir því, að menn úti um land hafi ekki líka fengið einhvern pata af þeim. Það fréttist margt með ritsímanum. Eg get sagt fyrir mig, að áður en eg fór af stað frá Akureyri, var eg búinn að heyra ávæning af því, að til stæði veruleg hækkun á tolli. Og úr því þetta hafði heyrst bæði í Reykjavík og á Akureyri, er ekki ólíklegt að svo hafi verið víðar. Þessvegna finst mér full ástæða til að setja ákvæðið inn í lögin, að láta tollaukann ná til allra birgða. Annars koma lögin alls ekki að tilætluðum notum.

Háttv. 3. kgk. þm. hélt því fram, að ákvæðið um umlíðan á gjaldinu væri þýðingarlaust af því, að gjaldfrestur væri heimilaður í tolllögunum hvort sem er. Þetta er ekki rétt athugað. Hér er ekki um aðflutningsgjald að ræða, heldur skatt, sem greiða skal af vörubirgðum. Þess vegna er ekki úr vegi að taka það skýrt fram, ef ætlast er til að gjaldfrest megi veita.

Háttv. 5. kgk. þm. lagði mikla áherzlu á það, að ákvæðið mundi ekki koma eins hart niður á kaupmönnum eins og kaupendunum, af því kaupmenn auðvitað hækka verðið sem tollaukanum nemur. Og hann talaði um það, að þetta yrði til þess að taka brauðið frá konum og börnum drykkjumannana. En hvers vegna er þessi háttv. þm. þá ekki móti öllum tolllögum. Vitanlega koma öll slík lög niður á kaupandanum, og því er engin ástæða til að vera með neina mannúðarmælgi út úr þessu atriði, fremur en lögunum í heild sinni, eða öllum tolllögum yfir höfuð.