19.04.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (15)

1. mál, fjárlög 1910 og 1911

Framsögumaður (Sig. Stefánsson):

Fyrst skal eg minnast stuttlega á breytingartillögur nefndarinnar.

1. breytingartillagan er við 14. gr. B.II. b. 2. um að athugasemdin við námsstyrkinn við læknaskólann væri eins orðuð og sams konar athugasemd við námsstyrkinn við prestaskólann. Það er að eins lítilfjörleg orðabreyting, er miðar að því, að gera athugasemdina skýrari og gleggri.

Þá fara þrjár næstu breytingartillögurnar fram á að hækka fjárveitingar til lagaskólans. Sú fyrsta fer fram á að hækka fjárveitinguna til aukakenslu við skólann úr 800 kr. upp í 1600 kr. á ári. í fjárlagafrumvarpi stjórnarinnar munu 1800 kr. hafa verið ætlaðar til slíkrar kenslu, en háttv. neðri deild færði fjárveitinguna niður í 800 kr. Nefndinni hefir verið sýnt fram á, að það væri ærinn starfi fyrir 3 menn að kenna við skóla þenna, og hún getur ekki búist við að hægt verði að fá hæfan mann fyrir minna en 1600 kr. á ári. Það er eins og eg hefi tekið fram áður, bein skylda fjárveitingarvaldsins að sjá þeim stofnunum fyrir nægu fé, sem á annað borð er búið að setja á stofn. Aðsóknin að skólanum er mikil; í vetur sækja hann 8 menn, og sagt er að auk þess séu 4 búnir að sækja um skólavist að vetri. Og þótt hér á landi sé ef til vill vel mikið af löglærðum mönnum, þá virðist ekki ástæða til að reyna að draga úr aðsókninni að þessum skóla fremur en hinum æðri skólunum hér. Fyrir því leggur nefndin til að hækka námsstyrkinn úr 1000 kr. upp í 1200 kr., og húsaleigustyrkinn úr 640 kr. upp í 960 kr., á ári. Þessar upphæðir eru þó lægri en það sem veitt er til læknaskólans í sama skyni, og þó eru allar líkur til, að áður langt um líður verði að minsta kosti jafnmargir stúdentar við lagaskólann, sem við læknaskólann. Auk þess ber og þess að gæta, að efnahagur margra stúdenta er svo þröngur, að þeir geta ekki styrklaust komist gegn um námið.

Þá hefir nefndinni borist erindi frá umsjónarmanni mentaskólans, þess efnis, að færa upp styrkinn til umsjónar og viðhalds á munum skólans um 200 kr. Nd. feldi þessa upphæð burtu. Umsjónin er nú í höndum manns, sem lengi hefir gegnt þessu starfi með sparsemi og reglusemi, og getur nefndin ekki séð neina ástæðu til þessarar úrfellingar í Nd. og vill því veita þessa upphæð. Erindi þessu fylgdi einnig umsókn um 100 kr. til dyravarðar, en þetta fé vill nefndin ekki veita, af því að hún álítur að ástæður þær, sem þessi umsókn er bygð á, geti ekki komið til greina. Það segir sem sé í umsókninni, að nú leggist nýr skattur á húsið, vatnsskattur, og þann skatt verði dyravörður að borga; en það getur auðvitað eigi komið til mála annað en að sá skattur leggist á húsið sjálft, en ekki á dyravörð.

Þá kem eg að br.-tillögunni við 14. gr. B. VIII. a. 1., þar sem ræðir um kvennaskólann í Reykjavík. Þar hefir Nd. samþykt að veita 3000 kr., en í frumvarpi stjórnarinnar voru ætlaðar 7000 kr. Þessi hækkun stjórnarinnar frá því sem verið hefir undanfarið, stafar af því, að skóli þessi hefir nú í mörg ár haft við óviðunanlegt húsnæði að búa. En nú er í ráði að leigja húsrúm handa skólanum fyrir 2000 kr., og eru það allmikil útgjöld fram yfir það vanalega. Og í öðru lagi á að gera miklar breytingar á fyrirkomulagi skólans í þá átt að verkleg kensla verði meiri en verið hefir. Það má álíta að sjálfsagt sé að gjöra breytingar á skólanum, því eins og nú stendur á, eru húsakynnin svo lítil, að skólinn hefir hvergi nærri getað tekið á móti öllum sem sótt hafa um kenslu í honum. Þessi skóli er elzti kvennaskóli landsins, og þing og stjórn álítur, að honum hafi verið prýðisvel stjórnað; og þar að auki er þetta skóli alls landsins, en alls ekki fyrir Reykjavík eina. Og þegar litið er til þess, að nú er sem óðast verið að auka rétt kvenna, þá liggur nærri sú krafa, að þjóðfélagið sjái um, að þær eigi kost á sem mestri mentun til þess að geta sem bezt hagnýtt sér réttindi sin. Þegar á alt þetta er litið, álítur nefndin að rétt sé að hækka tillag það, sem Nd. samþykti að veita skólanum, um 1500 kr., en nefndin áskilur að Reykjavík leggi fram 500 kr. til skólans að minsta kosti, hvort árið. Reykjavík hefir að vísu lagt eitthvað lítilsháttar til skólans að undanförnu, 100 kr. eða því um líkt, en það er svo lítið, að nefndin áleit sjálfsagt, að áskilja það, að bærinn legði meira fram, þegar tillag landsjóðs er hækkað. Enda efast eg ekki um, að bæjarstjórnin leggi þetta fúslega fram, þegar hún sér að það varðar svo miklu. — Þá kem eg að barnaskólunum. Nd. hefir fært niður um 1000 kr. þá upphæð, sem ætluð var í frv. stjórnarinnar til barnaskóla í kaupstöðum. Nefndin vill nú hækka þennan lið um 2000 kr. hvort árið og styrkinn allan til barnaskólanna um 3000 kr., og þykir hækkunin vera á miklum rökum bygð, þegar litið er á þær skyldur, sem lagðar hafa verið á landsmenn í þessu efni; eg get ekki séð, að það sé rétt að minka tillagið til barnaskólanna í kaupstöðum, því fræðsluskyldan kemur þó þyngst niður á kaupstöðunum, að því leyti sem þar sem flest börnin og kaupstaðarbúar verða að leggja mikið á sig í þessu skyni og nemur það eigi alllitlu fé. Það virðist því engin ástæða til að lækka þennan útgjaldalið á fjárlögunum. — Þá hefir Nd. felt burt þær 600 kr., sem stjórnin áætlaði til aðstoðar við samning skýrslna og skrifstofukostnaðar handa umsjónarmanni fræðslumálanna. Hér vill nefndin fara miðlunarveg og leggur til að veittar séu í þessu skyni 300 kr. eftir reikningi; nefndin hyggur að komast megi af með þetta, en eg get um þetta atriði látið mér nægja að vísa til nefndarálitsins. Eg skal leyfa mér að geta þess hér, að mér þykir óheppilegt að eftirlitsferðir umsjónarmanns fræðslumálanna geta ekki orðið á þeim tíma ársins, sem kensla er í skólunum. Það má vel vera, að slíkar ferðir yrðu oft erfiðar, en eg verð þó að líta svo á, að það sé enginn ógjörningur, og það má telja víst, að meiri árangur yrði af þessum ferðum með því móti, en þegar þær eru farnar að sumrinu, þegar engin kensla er í skólunum.

Þá kemur br.till. við sömu gr. B. VIII. b. 5. c. um að á eftir staflið c. komi nýr stafliður d. svohljóðandi: Til unglingaskóla í sambandi við barnaskólann á Ísafirði 2500—2500 kr., og eru færðar ástæður að því í nefndarálitinu. Svo stendur nefnil. á, að á Ísafirði er framhaldsskóli fyrir unglinga í sambandi við barnaskólann. Þessi framhaldsskóli hefir fengið húsrúm fyrir ekkert hjá bæjarstjórn Ísafjarðar, en það húsrúm er svo lítið, að þar geta að eins verið 20 nemendur. Nú er í ráði að stækka hús barnaskólans, og það gæti því orðið til mikils hagnaðar, ef þingið vildi veita það fé, sem hér er farið fram á, svo unglingaskólinn gæti átt von á meira húsrúmi í þeirri byggingu. Mér er kunnugt um, að þar vestra er mikil löngun hjá fólki til þess að menta börn sín betur en kostur er á í barnaskólanum, og menn þar hafa jafnvel í huga að reyna að koma þar upp gagnfræðaskóla, þótt að því sé ekki enn komið. Þessi fjárveiting virðist því vera á fullri sanngirni bygð. — Þá er enn í 14. gr. einn liður um kenslu þriggja blindra barna í Danmörku. Hér er sú breyting á orðin, að eitt af þessum börnum hefir fengið flogaveiki, svo það hefir verið flutt af blindrahælinu og á flogaveikrahæli. Þennan lið má því færa niður um 300 kr., því að nú er gefið með barninu af þessa árs styrk, en nefndin gengur út frá því, að landsjóður kosti barnið ekki á flogaveikishælinu; það kemur að sjálfsögðu á sveit barnsins, ef foreldrarnir ekki geta gefið með því. — Þá kem eg að styrk þeim, sem lagt er til að veittur sé Ingibjörgu Guðbrandsdóttur til þess að veita sveitastúlkum kenslu í leikfimi. Nefndin lítur svo á, að ekki sé mikil nauðsyn að veita þennan styrk, því hún lítur svo á, að sveitastúlkur þurfi alls ekki að læra þessa svonefndu leikfimi. Þær hafa nógar hreyfingar þó þær ekki læri að ganga, hoppa og hringsnúast eftir kúnstarinnar reglum. Nefndin álítur þessa fjárveitingu hinn mesta hégóma; auðvitað er hér ekki um stóra fjárupphæð að ræða, en þetta sýnir vel hve geysimikið hugvit menn hafa til þess að finna upp ástæður fyrir styrkbeiðnum úr landsjóði, og sumar hverjar af þessum ástæðum eru svo lítilsverðar, að það er furða, að menn skuli bera slíkt fram fyrir alþingi, — nema ef þeir væntist þess að þingið vilji launa þeim fyrir hugvit þeirra. — Nei, sveitastúlkur hafa nógar hreyfingar; en öðru máli er að gegna um kaupstaðarstúlkur, sem margar hverjar sitja hreyfingarlausar mestan tíma ársins.

Við 14. gr. B. IX. a. hefir nefndin gjört þá breytingu, að hún vill að lærisveinar stýrimannaskólans njóti sundkenslunnar ókeypis eins og lærisveinar latínuskólans. Þetta er ekki nema sanngjarnt, þó að þetta raunar komi ekki öllum lærisveinum stýrimannaskólans að notum vegna þess, að þeir eru farnir úr bænum margir á þeim tíma að vorinu, sem sundkenslan stendur yfir.

Þar sem ræðir um náttúrugripasafnið í 15. gr. vill nefndin fella burt þá athugasemd, að stjórnin fái skírteini fyrir því, að safnið sé eign landsins. Það á nfl. ekki að vera þörf á að taka þetta fram, því það er vitanlegt, að náttúrugripasafnið er eign landsins. En það gæti einmitt fremur orðið athugavert að slá því föstu með sérstökum fyrirmælum, því að í fyrsta lagi er safnið stofnað af einstökum mönnum og hirt af mönnum, sem lítið hafa tekið fyrir ómak sitt, og hlynt að því eftir megni, og í öðru lagi er ekki vist, hvað lengi þessi nægjusemi manna yrði gagnvart safninu ef það væri »lagalega afhent« landinu. En eign landsins er safnið auðvitað, eins og meðal annars sést af því, að landið leggur því til ókeypis húsnæði.

Þá kemur að liðnum um bókakaup til bókasafnanna á Ísafirði og Akureyri. Að því er snertir Ísafjörð, hefi eg talað svo rækilega um það áður hér á þingi, að eg hefi engu við það að bæta. Eins og kunnugt er, hefir það lengi verið ósk Ísfirðinga að fá Amtsbókasafnið flutt til Ísafjarðar, vegna þess að þar er heppilegri staður fyrir safnið en þar sem það nú er. En ef þessi fjárveiting fengist nú eitt skifti fyrir öll, myndi óánægjunni linna, þó fjárupphæð þessi sé raunar 3000 kr. lægri en menn þar vestra vilja; því þeir vildu fá 5000 kr. til bókakaupa, ef Amtsbókasafnið fengist ekki flutt. — Bókasafnið á Akureyri er sem stendur í fjárkröggum vegna bókaaukninga og einnig vegna þess, að það hefir nýlega komið sér upp allgóðum lestrarsal. Það myndi því ekki um of að veita því 1000 kr. styrk. Um styrkinn til sýslubókasafna og lestrarsala þótti nefndinni rétt, að binda ekki við neitt vist hámark þann styrk, sem veita mætti sýslubókasöfnum og lestrarsölum í kauptúnum til bókakaupa, því þar á auðvitað að fara eftir þeirri þörf, sem er fyrir hendi um hvert safn fyrir sig. Nefndin leggur því til að orðin: »Alt að 150 kr. til hvers« falli burt. — Að því er snertir styrkinn til að semja þjóðréttarsögu Íslands, get eg sagt það fyrir hönd nefndarinnar, að hún er í sjálfu sér hlynt þessari fjárveitingu, þó hún á hinn bóginn geti alls ekki felt sig við þennan lið eins og hann kemur frá Nd., nfl. að þingið kjósi nefnd til þess að sjá um þennan starfa. Nefndin álítur að réttara sé að veita þetta eftir á, þegar verkinu er lokið, og að sá njóti þá styrksins, sem bezt ritið hefir samið. Eg sé að nú er komin fram br.till. um að fella burt ákvæðið um að þingið skuli kjósa nefndina, og eg get sagt það fyrir mitt leyti, að eg felli mig vel við þá breytingu, en eg get ekkert sagt um það fyrir nefndarinnar hönd, því hún hefir ekki haft tækifæri til að bera sig saman um hana. Það var tekið fram í nefndinni, að það væri tilhlýðilegt og vel við eigandi, að veita verðlaun fyrir þetta verk, og mætti taka þau úr sjóði Jóns Sigurðssonar að einhverju leyti.

Þá kem eg að allri rununni til blessaðra skáldanna. Nefndin hefir hér eins og annarsstaðar haft sparnaðinn fyrir augum, þó hún virði mikils hvað skáldin yrkja mikið og gott. Eins og tekið var fram í Nd., má telja sumar af þessum fjárveitingum fremur eftirlaun en skáldlaun. Vér vitum t. d. allir um eitt þeirra skálda, sem skáldstyrk hefir haft um mörg ár undanfarið, að hann er gersamlega hættur að yrkja og hefir svo gengið í mörg ár; það lítur með öðrum orðum út fyrir, að skáldskapargáfa þess manns sé að ganga til þurðar, svo eg álít að hann mætti þykjast góðu bættur, ef hann héldi þeim styrk, sem hann hefir haft, þó ekki væri hækkað við hann. Vér verðum í þessu sem öðru að sníða oss stakk eftir vexti. Þetta eru að vísu ekki stórar upphæðir, sem hér er um að ræða, en ef vér erum mjög örir á skáldstyrki, getur vel svo farið með tímanum, að þeir verði alltilfinnanlegur gjaldliður. Mér dettur ekki í hug að neita því, að góður skáldskapur er bæði til skemtunar og óbeins gagns. En það er þó með hann líkt eins og skrautgripi, sem menn gjarnan vilja hafa í húsum sínum, að menn láta slíkt sitja á hakanum fyrir nauðsynlegum útgjöldum. Eg hirði ekki að fara fleiri orðum um þessa skáldstyrki.

En þá kem eg að þeim gjaldlið, sem gengur undir nafninu orðabókastyrkir. Alla slíka styrki vildi eg helst strika alveg út. Þar finst mér ekki vera um neina brýna þörf að ræða. Að vísu er helzt þörf á islenzkri orðabók, en því er aftur svo varið um styrkinn til hennar, að það er vitanlegt, að manninum, sem á að gera hana, endist ekki aldur til að ljúka við hana. Þetta verður svo stórt verk, að það eru litlar líkur til að einn maður geti lokið því.

Líkt er um styrkinn til Sigfúsar Blöndals til þess að semja íslenzk-danska orðabók. Sá styrkur hefir staðið á fjárlögunum ár frá ári og verið borgaður út stöðugt, án þess að nokkur trygging sé fyrir því, að maðurinn vinni nokkurn skapaðan hlut fyrir styrknum. Þingið veit ekkert um það, hvort verkinu miðar nokkuð eða ekki neitt.

Eg fyrir mitt leyti hefði helzt viljað fella alla orðabókastyrki, en nefndin hefir ekki getað komið sér saman um að leggja það til, nema um styrkinn til Jóns Ófeigssonar til að gera þýzk-íslenzka orðabók. Um þá orðabók er það að segja umfram hinar, að það er ekki einu sinni minsta þörf á henni, því að þeir sem læra þýzku, kunna sjálfsagt allir eða flestallir dönsku áður, og geta því vel notað þýzk-danskar orðabækur. Það er að því leyti alt öðru máli að gegna um þýzka orðabók en enska, því að ensku læra margir nú orðið, sem ekki kunna neitt í dönsku. Eg skal líka geta þess, að það er ætlast til að þessi maður fái 1000 kr. styrk, án þess að nein trygging sé heimtuð fyrir því, að verkið sé unnið. Það er eins um þennan styrk eins og styrkinn til Sigfúsar Blöndals að því leyti. Þingið er orðið frjálslyndara og örara að fé í þessu efni en það var. Hér á árunum, þegar þingið veitti 800 kr. styrk til ensk-íslenzkrar orðabókar, var það gert að skilyrði, að styrkurinn kæmi til útborgunar þegar bókin væri búin. En nú á að veita 1000 kr. styrk ár eftir ár til orðabókar, sem á að semja, en sem engin trygging er fyrir að nokkru sinni verði samin.

Það er nokkuð öðru máli að gegna um styrkinn til Jóns Ólafssonar, því að hann á að fá ákveðna borgun fyrir hverja örk prentaða. Nefndin hefir lagt til að færa þann styrk niður úr 1500 kr. í 960 kr. hvort árið. Eg vona að háttv. deild verði sammála nefndinni um að sú niðurfærsla sé á rökum bygð; því að úr því það er auðsætt, að manninum endist ekki aldur til að fullgera bókina hvort sem er, þá er því minni ástæða til að veita mikið fé til þessa verks.

Þá er hér einn styrkur í 15. gr. 37, sem nefndin vill fella burt. Það er 1000 kr. styrkur til Guðmundar Bárðarsonar til utanfarar til jarðfræðisrannsóknanáms. Meiri hluti nefndarinnar var þeirrar skoðunar, að þessi styrkur mætti missa sig. Við höfum einn mann, sem leggur stund á jarðfræði, og það sýnist ekki vera ástæða til að styrkja fleiri til þeirrar fræðigreinar. Það er alveg óvíst um árangurinn af þessari utanför, og því væri réttara að styrkja þann mann, sem við nú höfum, betur, heldur en að fara að bæta fleirum við. Það getur vel verið, að þessi maður sé efnilegur, en hins vegar er mér ókunnugt um, að hve miklum praktiskum notum það kæmi fyrir landið, að eiga svo og svo marga sérfræðinga í þessari grein.

Sama er að segja um styrkinn til Ísólfs Pálssonar, 15. gr. 39. Nefndin veit ekki hvort nokkrar sérlegar líkur eru til að utanför hans kæmi landinu að gagni, og leggur til að sá styrkur verði feldur burt.

Þá er styrkurinn til Einars Jónssonar myndasmiðs, 15. gr. 43. Nefndin vill láta þann styrk halda sér, en leggur til að athugasemdin við fjárveitinguna falli burt. Nefndin áleit ekki rétt, að vera að setja honum neinar reglur um það, hvernig hann skyldi verja fénu. Hann hefir sýnt dugnað og áhuga á starfi sínu, og á þennan styrk fullkomlega skilið og þó meira væri. Nefndin vill halda upphæðinni, 1200 kr., óbreyttri, en eg get sagt fyrir mitt leyti, að eg gæti vel verið með miklu hærri styrk til þessa manns. Það er auðvitað erfitt fyrir okkur hér, að dæma um listgildi mynda hans, en frumlegar eru þær og bera það ljóslega með sér, að þær eru af íslenzku bergi brotnar. Hann er íslenzkur listamaður og íslenzkur frumleiki í öllum hans verkum. Það er ekkert að marka, þó að hann hafi ekki fengið alþjóðaviðurkenningu ennþá. Sú viðurkenning getur komið þegar minst varir, og þá þætti okkur leitt að hafa vanrækt hann og yfirgefið, á meðan hann þurfti okkar hjálpar við.

Þá kem eg að 16. gr. frv. Þar vill nefndin bæta við nýjum lið aftan við 1. c. 5, 18,500 kr. fyrra árið til byggingar skólahúss á Hólum. Í frv. stjórnarinnar var ætlað fé til byggingar skólahúss við báða bændaskólana, enda er það skylda þingsins að veita fé til þessara bygginga. Þingið hefir gefið loforð fyrir því, er það ákvað í bændaskólalögunum, að skólarnir skyldu geta veitt móttöku 40 piltum hvor, en það geta þeir ekki með þeim húsakynnum, sem nú eru þar. Neðri deild hefir nú veitt fé til byggingarinnar á Hvanneyri, og þá er því síður ástæða til að neita um féð til byggingar á Hólum. Hins vegar vill nefndin fresta öðrum byggingum þar að þessu sinni, sem stjórnin vildi veita fé til, svo sem leikfimishúsi, smiðju o. fl. En sjálft skólahúsið álítur nefndin öldungis óhjákvæmilegt að ljúka við, því að skólinn getur ekki fullnægt aðsókninni að öðrum kosti.

Þá er skólinn á Hvanneyri. Þar hefir fjárveitingin til kennaralauna verið hækkuð um 300 kr. og það ákveðið um leið, að þessar 300 kr. gangi til launaviðbótar handa Hirti Snorrasyni. Nefndinni er kunnugt um, að Hjörtur Snorrason hefir ekki haft þessa kenslu á hendi sjálfur síðastliðinn vetur. Hann býr á jörð nálægt Hvanneyri og hefir látið annan mann stunda kensluna í sinn stað. Þegar þessa er gætt, sér nefndin ekki ástæðu til að bæta við laun hans. Það er ekki hægt að ætlast til persónulegrar launabótar fyrir verk, sem hlutaðeigandi leysir ekki af hendi. Því leggur nefndin til að fella þessa viðbót og færa liðinn niður í 2700 kr. aftur.

Þá er breytingartill. við 16. gr. 4. a., að styrkur til byggingar á Eiðum verði 20 þús. kr. fyrra árið í stað 10 þús. hvort ár. En um leið vill nefndin taka það fram, að hún ætlast til að slíkar bænir um byggingarstyrk við þennan skóla komi ekki til þingsins framar.

Styrkinn til verklegrar búnaðarkenslu við þennan skóla vill nefndin færa niður um helming, í 1500 kr., eins og þingið hefir áður fastákveðið til þessarar kenslu. Það var ákveðið með bændaskólalögunum, að bókleg kensla skyldi engin fram fara á kostnað landsjóðs, hvorki á Eiðum eða í Ólafsdal. Hinir 2 skólarnir, á Hvanneyri og Hólum, áttu að fullnægja þörf landsins til aukinnar bændamentunar, og var ekki ætlast til, að fleiri skólar yrðu styrktir af landsfé í þeim tilgangi. Samt hefir byggingarstyrkurinn til Eiðaskólans komist inn í fjárlögin í neðri deild, og sá nefndin sér ekki fært að leggja til, að hann væri feldur hér í deildinni, þó að það væri í rauninni full ástæða til þess. Ef það er satt, að þessi skóli eigi að kosta um 40 þús. kr., er það óskiljanlega mikil rausn af þeim, sem hlut eiga að máli, en þeir um það.

Þá hefir nefndin lagt til, að 1000 kr. styrkveiting til húsmæðrakenslu á Eiðum væri feld burt. Nefndin veit ekki til, að sýslunefnd hafi mælt með stofnun þessarar húsmæðradeildar, og lítur út fyrir, að það sé að eins uppástunga skólastjóra sjálfs. Það sýnist ekki ástæða til að bæta þessu ofan á hina styrkveitinguna til þessa skóla.

Enn er 1000 kr. styrkur til Jónínu nokkurrar Sigurðardóttur, sem kvað vera að burðast með matreiðslukenslu. Nefndin vill færa þann styrk niður um helming. Hún álítur 500 kr. vera nægilegt fyrst um sinn, því að hún efast ekki um, að þetta matreiðsluskólahald verði bráðlega svo umfangsmikið og nauðsynlegt, að þá komi ný beiðni um aukinn styrk, og má þá bæta upp þó styrkurinn sé ekki meiri en þetta í fyrstu. Annars vil eg geta þess, að styrkirnir gætu farið að verða nokkuð margir, ef þingið færi að gera sér að reglu, að veita styrk til allrar mögulegrar kenslu, sem það hefir enga hugmynd um, hvort nokkurs virði er eða ekki. Það sýnist ekki ofverk kvennaskólanna að hafa á hendi kenslu í matreiðslu. Þar er staðurinn fyrir slíka kenslu, enda er í ráði að þeir komi henni á stofn hjá sér. Það er langhentugast, að þessi kensla sé einmitt í sambandi við aðra kenslu þar.

Þá er næsti liður á atkvæðaskránni. Það er 500 kr. lækkun á styrk til Ungmennafélags Íslands til eflingar líkamlegra íþrótta og til skóggræðslu. Þennan lið, 16. gr. 11, vill nefndin lækka úr 2000 kr. hvort árið í 1500 kr. Nefndin viðurkennir, að stefnuskrá félagsins er lofsverð, eins og hún er á pappírnum, og því líklega vert að styrkja félagið, þó að bæði eg og aðrir hefðum kunnað betur við, að þessi mikli eldlegi áhugi félagsmanna hefði komið fram í einhverju öðru fyr en því, að sækja um styrk af landsjóði. Eg veit ekki hvernig á að verja þessu fé. Það er sagt, að það eigi að vera til skóggræðslu, og eg hefi heyrt, að félagsmenn hugsi sér þá aðferð til eflingar skóggræðslunni, að hver þeirra fái eina skógarhríslu frá útlöndum og gróðursetji hér í landinu. Eg veit ekki hvort þetta er vænleg aðferð til skóggræðslu, að gróðursetja útlendar plöntur. En það vill svo vel til, að hér í deildinni er fagmaður, háttv. 6. kgk. þm., sem getur sjálfsagt gefið upplýsingar að þessu leyti. Nefndinni þótti það vafasamt, að styrkveitingin kæmi landinu að miklu gagni hvað skógræktina snertir, en hitt álítur hún gott og þarflegt, að félagið gangist fyrir að efla líkamlegar íþróttir.

Úr því eg er að tala um þetta félag, þá get eg ekki stilt mig um að geta þess, að mér finst að ekkert ætti að liggja fjær slíkum félagsskap en að halda samkomur og leigja fólk til að kveða þar og syngja óhróðurssamsetning um einstaka menn. Eg hefi heyrt að þetta félag hafi gengist fyrir þess konar samkomu nýlega, og er leitt til þess að vita, að félagið skuli byrja með því að innleiða slíkt útlent apaspil í landið. Það gæti tekið sér eitthvað þarfara fyrir hendur en að halda samkomur til að gera gys að þeim mönnum, sem eru þó eftir mætti að vinna að hag þjóðarinnar. Það er engin uppbygging að slíku fyrir land eða lýð, og sízt viðeigandi fyrir svo góðan félagsskap. Eins álít eg óþarfa fyrir félagið að blanda sér til muna í pólitískar »agitationir.« Það hefir mikið starf og lofsvert fyrir höndum, þar sem er efling líkamsíþrótta og ætti að beita kröftum sínum sem mest að því markinu.

Þá vill nefndin bæta við nýjum lið, 1200 kr. hvort árið, til yfirmatsmanna á gæðum síldar. Það þarf víst ekki að fjölyrða um þá fjárveitingu. Hún er samkvæm lögum um það efni, sem samþykt voru hér í deildinni um daginn, og tilsvarandi fjárveitingu í aukafjárlögunum.

Þá er breyt.till. við 16. gr. 27. C. Þar hafði neðri deild felt 300 kr. fjárveitingu til ræstingar á efnarannsóknarstofunni. Nefndin álítur ekki rétt að sleppa þessari fjárveiting alveg, en vill lækka hana um 100 kr. Í sambandi við það leggur nefndin til, að liðurinn c., til ljósa og eldsneytis, hækki um 200 kr., verði 500 kr., og veitist sú upphæð til ræstingar jafnframt.

16. gr. 28 er styrkur til tveggja íslenzkra stúlkna til handavinnunáms hjá »Kunstflidsforeningens Friundervisning« í Kaupmannahöfn. Nefndin leggur til, að þessi liður falli burt. Henni er ókunnugt um, hvert gagn landið getur haft af slíkri styrkveitingu. Sams konar kensla kvað vera veitt hér í kvennaskólanum í Reykjavík, og eg veit ekki hvað getur verið unnið við að kosta stúlkur til að nema það í útlöndum, sem þær geta vel numið hér heima. Auk þess get eg sagt fyrir mitt leyti, að eg sé ekki neina þörf á að kvenfólk læri þesssa sárfínu handavinnu. Eg veit ekki betur en að konur okkar flestar hafi öðrum störfmn að gegna þegar út í lífið kemur, en að vera að fitla við þess konar hannyrðir.

Þá vill nefndin lækka styrkinn til ábúandans á Tvískerjum úr 400 kr. í 200 kr. Við vildum ekki mæla með hærri styrk að sinni, enda er okkur ókunnugt um, hve nauðsynlegt er að styrkja þennan mann. Auðvitað á styrkurinn að vera til þess, að veita ferðamönnum þá hjúkrun og beina, sem hann hefir hingað til veitt styrklaust. En slíkar styrkveitingar gætu orðið margar, ef farið væri að styrkja öll þau heimili á landinu, sem þættu eiga það skilið vegna gestrisni. Það eru ekki fá heimili, sem líða töluverðan baga af gestagangi, svo að eg veit ekki hvar enda skal, ef lagt er út á þá braut.

Í 18. gr. vill nefndin fella burt 1000 kr. sem Þorvaldi Björnssyni eru ætlaðar í »viðurkenningar skyni«. Nefndinni fanst ekki rétt að veita þessa upphæð, því að ef byrjað er að veita slíkar viðurkenningar, mundu margir alþýðumenn koma fram með sams konar kröfur.

Eg get verið stuttorður um breyt.till. við 22. gr. Þær ganga flestar í sömu áttina, að ákveða vexti af lánunum 14½% jafnar afborganir árlega. Hitt eru smábreytingar, sem eg flnn ekki ástæðu til að fara nákvæml. út í. Þó skal eg geta þess um tölul. 10, sem er lánveiting til Björgvins Vigfússonar sýslumanns, að þann lið vill nefndin lækka úr 12000 kr. í 4000 kr. Hún álítur þá upphæð nægilegt lán til húsbyggingar, en álítur hins vegar ekki ástæðu til að veita þessum manni lán til neins annars. Það hvílir engin skylda á þinginu að styðja embættismenn til jarðakaupa.

Eg hefi gleymt að minnast á 16. gr. 30., 2000 kr. styrkveiting til Iðnaðarmannafélagsins til iðnsýningar. Þar vill nefndin bæta við því skilyrði, að Reykjavíkurbær leggi að minsta kosti jafn mikla upphæð til sýningarinnar. 2000 kr. hlýtur að vera of lítið fé til þess að sýningin verði myndarleg, en að öðrum kosti er gagnslaust að styrkja hana nokkuð. Þess vegna vill nefndin binda styrkveitinguna þessu skilyrði til tryggingar því, að styrkurinn komi að nokkru gagni, ef hann verður notaður á annað borð.

Eg ætla ekki að lengja ræðu mina meir að þessu sinni. Vil fresta því, að tala um breytingartillögur háttvirtra deildamanna, þangað til eg hefi heyrt, hvað tillögumenn hafa fram að færa þeim til stuðnings, og tek þá ef til vill til máls aftur síðar.