18.02.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1557)

89. mál, varabiskup

Jón Þorkelsson:

Þó að frumvarp þetta sé stutt, er þó mál þetta merkilegt. Það er ómissandi þáttur í sjálfstæði voru, að kristni landsins og kirkja sé óháð erlendu valdi, og að því miðar frumvarpið.

Eg er alveg á gagnstæðri skoðun við háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Það væri mjög óviðeigandi, að demba þessari virðingarstöðu á einhvern vissan prest eða prófast. En nafnið »vara-biskup« er óvinsælt, leiðinlegt og óþjóðlegt, og er eyrnamark á ýmsu hér síðan einvaldinu var dembt yfir landið. Þórður meistari Þorláksson varð fyrstur »vara-biskup« hér á landi, og var það að Brynjólfi biskupi enn lifanda; fékk hann vonarbréf að honum fornspurðum fyrir Skálholtsstól. En þó stóð Þórði meistara sá geigur af þessu atferli og tiltæki, að ekki þorði hann sjálfur að skýra biskupi frá því, heldur ritaði vinum hans og bað þá að sefa skap hans. Að vísu mun það ekki hafa verið »vara-biskupsnafnið«, sem hann setti fyrir sig, heldur verkið. En upp frá þessu varð það all-títt, að menn tóku að fá vonarbréf fyrir biskupsembættum og öðrum embættum.

Það hlýtur að vera ein af sjálfstæðiskröfum vorum, að fá biskup vorn vígðan hér á landi og prestastéttin er ekki svo vel launuð, að horfa ætti í þessa lítilfjörlegu þóknun, sem frumv. ákveður, handa einhverjum af vorum fremstu kennimönnum, sem sá starfi væri falinn. En nafnið geðjast mér ekki. Skár kynni eg við þjóðprófast, officialis eða eitthvað því um líkt.