13.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1170 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

21. mál, vígslubiskupar

Hálfdan Guðjónsson:

Eg vil leyfa mér að taka undir með háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) í því efni, að taka málið út af dagskrá að sinni. Eg bjóst við því, að hér mundu liggja fyrir breyt.till. við frumv., en það er ekki. Eg spurði skifarana á skrifstofunni um það, og kváðu þeir svo vera. Eg vil því leyfa mér að fara fram á, að hæstv. forseti taki málið út af dagskrá, eða að minsta kosti beri það undir atkv. deildarinnar.

Breyt.till., sem eg gat um áðan, er frá mér, og þess efnis að nema í burt sérstaka vígslu á vígslubiskupunum. Eg vil geta þess, að það vakti ekki svo mjög fyrir mér að bjarga við frumv., en það var heilög vígsla, sem eg vildi bjarga við, að hún væri ekki vanbrúkuð; en mér finst það liggja nærri að svo sé, ef farið er að vígja reglulegri biskupsvígslu þá menn, sem ekkert annað eiga að starfa, en að vígja biskup í viðlögum. eg lít svo á, að vígslan sé svo háleit athöfn, að ekki sé rétt að nota hana til þess að vígja menn, sem lítið eða ekkert hafa að gera. Annað atriði, sem eg álít að vinnist við breyt.till. mína er það, að spara má þessar 500 kr., sem áætlaðar eru til vígslunnar. Vígslan er að öllu leyti ónauðsynleg, því skipa má menn til þessa starfs, án þess þeir séu vígðir til þess sérstaklega.

Eg verð því að taka undir með h. þm. N.-Múl. (J. J.), að ekki sé rétt að hamra málið í gegn, en leyfi mér að óska eftir, að hæstv. forseti taki það út af dagskrá, eða að minsta kosti, beri það undir álit þm., hvort þeir álíti ekki rétt að taka málið út af dagskrá.