12.03.1909
Sameinað þing: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í B-deild Alþingistíðinda. (162)

6. mál, aðflutningsgjald

Ráðherra (H. H.):

Eg er flutningsmanni breyt.till. samdóma um það, að tilgangur frumv. muni ekki nást með því að hækka tollinn á súrsaftinni, og held að það komi alls ekki í veg fyrir misbrúkun hennar. Í frumv. er að eins farið fram á að tolla súra saft, en það er alveg eins hægt að blanda áfengi í sæta saft. Eg held að sæt saft sé ekki annað en súr saft, sem sykur hefir verið látinn í. Það er því hægt að svíkja súrsaftina með því að blanda púðursykri í hana, t. d. láta fáein pund af sykri í súrsafttunnu, þá er það ekki annað en sætsaft, því hún er þá orðin sæt.

Eg álít ranglátt að setja svona háan toll á súrsaftina, en álít aftur á móti rétt að tolla hana með tolli, sem bannar ekki kaupmönnum að verzla með hana, t. d. 30 aura pottinn, eins og fyrst var farið fram á hér í deildinni.