22.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1330 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

51. mál, stofnun landsbanka

Framsögumaður (Magnús Blöndahl):

Það gladdi mig að heyra að háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) játar að frumv. þetta, eins og það liggur hér fyrir, gangi í rétta átt, þótt hann að öðru leyti geti ekki gefið því atkv. sitt. H. þm. gat þess, að ef keyptar yrðu 2 milj. af Íslands banka, þá mætti skoða það þannig, að báðir bankarnir væru orðnir landsins eign. Hann gat þess einnig til, að hin fyrirhugaða nefnd mundi leggja til að steypa bönkunum saman í eitt, þar sem óþarft virtist að landið ætti 2 banka með 5 bankastjórum.

Hvað fyrri aths. hans viðvíkur þá er hún alveg rétt, að svo mundi það verða í framkvæmdinni í raun og veru. En hvort hin væntanlega nefnd mundi komast að þeirri niðurstöðu að steypa bönkunum saman í einn, skal eg ekki um dæma, en ekki teldi eg það að öllu heppilegt, hvorki fyrir stofnanirnar sjálfar né landsmenn. — Annars skal eg ekki fara út í það að þessu sinni. Þm. gat enn fremur um það, að það liti allkynlega út að fjölga embættum við bankana, ef ekki bættist neitt við veltufé hans; þetta var alveg óþörf athugasemd hjá hinum hv. þm. því við framsögu málsins tók eg það fram, að frumv. væri á ferðinni þess efnis, að heimila stjórninni að taka 2 miljóna kr. lán til að hjálpa bankanum. Háttv. l. þm. Eyf. (H. H.) fann ástæðu til þess að hafa móti þessu frumv. og bygði ástæður sínar með fram á því, að ekki væri ástæða til að taka það vald af þinginu, sem það nú hefði yfir bankanum. Mér finst það ekki vera mikið vald, sem þingið missir, þegar það á eftir sem áður að kjósa eftirlitsmann eða ráðunaut til 4 ára í senn, en nú kýs það 2 gæzlustjóra, sem þó raunar hafa mjög lítið vald. Viðvíkjandi því að þingið skuli velja bankastjóra má segja margt með og móti, en hætt er við að það vald gæti orðið mislitt, eftir því sem þingið væri skipað í það og það skifti, því þó þingið hafi verið nokkurn veginn einlitt hingað til — þá er hætt við — eftir því sem flokkaskifting nú er komið, að hinar pólitísku öldur gætu á stundum risið allhátt og þannig haft miður heppileg afskifti eða áhrif á þessar aðal-peningastofnanir landsins. Enda hygg eg að engum sönnum fjármálafræðing — sem ann ættlandi sínu — blandist hugur um það, að bankarnir ættu algerlega að vera lausir við allar pólitískar æsingar. Ætti nú þingið að ráða nokkru um stjórn bankanna í hvert sinn, er hætt við að erfitt yrði að sneiða hjá þessum pólitísku æsingum. Sami hv. þm. talaði langt mál um það, að ráðunautur bankans ætti eftir frumv. að hafa meira vald en báðir bankastjórarnir til samans. Mér þykir leiðinlegt að þurfa að fara að andmæla þessu, þar sem eg var nýbúinn að taka það fram við framsögu málsins, að ætlast væri til, að þessu verði breytt við aðra umr. Getur verið að háttv. þm. hafi verið í svo þungum hugleiðingum, að hann hafi ekki getað fylgst með í máli þessu hér í deildinni. En ekki á eg sök á því. Það sem sami þm. sagði um fyrirkomulag slíkra banka erlendis t. d. Í Noregi og Englandi, að þar væri einn bankachef, þá get eg vel trúað því, að formaður Central-bankans norska hafi sagt honum það, því það kemur svo aðdáanlega vel heim við ráðríkishugsjón þess manns. Annars benti eg á fyrirkomulag danskra banka og vænti eg að hv. þm. taki mér það ekki illa upp.

Eg hefi þá ekki fleira um þetta mál að segja að sinni, hefi svarað þeim mótmælum, sem fram hafa komið, og vona að deildin taki þessu máli vel.