26.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (1881)

50. mál, kirknafé

Jón Magnússon:

Eg ætla ekki að þörf sé á, að endurtaka það, sem eg sagði við fyrri umræðu þessa máls, en eg geng að því vísu, að háttv. flutningsm. (St. St.) sé full-kunnugt um það, hvers vegna peningarnir voru sendir norður. Ástæðan var sú, að amtmaður afhenti kirkjuna, er var umboðskirkja, og var honum því fengið álagsféð. Aðrar ástæður komu ekki til greina; þetta er ósköp skiljanlegt.

Það gleður mig, að háttv. flutningsmaður (St. St.) hefir ekki fært nein rök fyrir ásökun sinni á hendur biskupi eða landsstjórninni um, að verið sé að svíkjast að söfnuðinum; hann hefir ekki einu sinni reynt það. Og svo hefir hann tekið aftur það, sem saknæmt virtist í ræðu hans, þar sem hann viðurkennir, að það sé ekki sama stjórnin, er afhenti féð og sú, er nú krefji þess að lögum.

Enn fremur segir hann, að biskupi muni ekki hafa verið kunnugt um skilyrðin.

Eg get því látið mér nægja það, að háttv. flutningsm. (St. St.) hefir þannig tekið aftur ásökun sína í garð stjórnarinnar og biskups.