17.02.1909
Efri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (195)

8. mál, laun háskólakennara

Ráðherra (H. H.):

Eg gat þess áðan, að forstöðumenn hinna æðri skóla hér hefðu sent stjórnarráðinu frumv. til laga um laun háskólakennara, um leið og sjálft háskólafrumv. kom frá þeim.

Þess er getið í athugas. við frv. að stjórnarráðið sé ekki að öllu leyti samdóma nefndinni um ýms atriði, t. d. um það, að ekki mundi nægja að hafa tvo prófessora og einn dósent við lagaskólann í stað 3 prófessora, sem farið er fram á í frumv. Samt sem áður hefir stjórnarráðið álitið rétt að leggja frumv. óbreytt fyrir alþingi, einkum vegna þess, hve áliðið var tímans þegar frumv. kom, svo tími varð naumur til breytinga.

Það er nýbreytni í þessum lögum, að laun kennaranna fara hækkandi með embættisaldri. Þetta tíðkast í öðrum löndum og þykir fara heppilega, og eru þá byrjunarlaunin sett að því skapi lægri. Væri æskilegt að hægt væri að taka upp þetta fyrirkomulag einnig að því er snertir aðra embættismenn landsins.

Nefndin hefir samið athugasemdir með frumv., sem gera ljósa grein fyrir því.

Eg skal nú að eins mæla sem bezt með frumvarpinu og vona að háttv. deild taki því vel.