20.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1423 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

93. mál, löggilding Viðey

Hannes Hafstein:

Hinir háttv. þm. Rvk. hafa að eins haft þessa einu mótbáru fram að bera gegn löggilding verzlunarstaðar í Viðey, sem eg hefi áður drepið á, og það er sama mótbáran, sem þm. Rvk. hafa haldið fram áður á þingi. Þeir líta svo á, að slík löggilding mundi skaða einn sjóð í þeirra kjördæmi, og mér er ómögulegt að sjá, að það sé annað en eg sagði áðan, »reykvísk sérpólitík«, sem ekki ætti að leiða menn til þess að fara hér eftir öðrum reglum en þeim, sem þingið alt af er vant að fylgja, þegar um aðrar hafnir er að ræða, það því síður, sem hér er að ræða um mikla hagsmuni fyrir siglingar hér um slóðir, að minsta kosti meðan Reykjavík hefir enga brúkandi höfn að bjóða.

Þetta mál féll hér í deildinni á síðasta þingi með 1 atkv. mun, eða með jöfnum atkv. Og þótt 1. þm. Rvk. sem þá var, bankastjóri Tryggvi Gunnarsson, hafi verið þessari löggilding mótfallinn, þá er það ekki svo undarlegt, því að hann hefir jafnan á þingi verið mótfallinn öllum nýjum löggildingum, sem ekki hefir verið brýnasta þörf á, og á síðari árum öllum löggildingum undantekningarlaust. Eg þykist þess fullviss, að honum mundi ekki þykja neitt minni ástæða til að samþykkja þessa löggildingu en ýmsar aðrar, er nú er farið fram á og samþyktar hafa verið.

Háttv. 2. þm. Rvk. sagði, að löggilding Viðeyjar »hefði ómetanleg skaðandi áhrif á þennan bæ, svo að slíkt tjón væri óútreiknanlegt og yrði engum tölum talið«. (Magnús Blöndahl: Eg stend við það). En þó sagði háttv. þm. jafnframt, að hafnartækin þar væru svo vond og höfnin yfir höfuð svo ómerkileg, að enginn mundi vilja mundi vilja nota hana, þó að hún væri löggilt. (Magnús Blöndahl: Það sagði eg ekki). Jú, háttv. þm. sagði einmitt þetta, og býst eg við, að fleirum en mér hafi þótt þessar tvær röksemdir einkennilegar svona hvor með annari, í sömu andránni. Að enginn noti höfnina, eftir að hún verði löggilt, en samt verði löggildingin óútreiknanlegt tjón fyrir Reykjavík, vegna þess hvað Viðey dragi frá henni, það er leyndardómur, sem víst öllum er hulinn, nema háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.), ef málinu er ekki þannig varið, að hann hafi gleymt því, sem hann sagði fyrst, og ekki rámað neitt í það, þegar hann kom fram með síðari spekina. Honum hefir verið það svo mikið kappsmál, að fylgja fram vilja kjósenda sinna, er hann hyggur að muni vera, að hugsunin hefir farið út í veður og vind.

Þá lagði sami háttv. þm. (M. Bl.) mikla áherzlu á það, að úr nærsveitunum hefðu ekki komið fram neinar óskir um þessa löggilding. En af því verður engin ályktun dregin. Bændum í nærsveitunum, Mosfellssveit og Seltjarnarnesi, hlýtur eftir hlutarins eðli að liggja það í fremur léttu rúmi, hvort löggiltur verzlunarstaður verður í Viðey eða ekki; þeir mundu eftir sem áður hafa viðskifti sín í Reykjavík og sækja þangað, heldur en bæta sjóferð út í Viðey við landferðir sínar. Það eru siglingarnar og fiskiveiðarnar, sem þessi löggilding kæmi aðallega að haldi, að minsta kosti beinlínis. Nærsveitirnar hefðu svo auðvitað einnig óbeinlínis hagnað af því, er verzlunin með kol og steinolíu hefði af því, að fá afnot af góðri og fljótlegri höfn.

Skipum, sem þurfa að ná vatni eða öðru í flýti, þykir þetta svo mikið hagræði, að mér finst als ekki rétt að hafna því. Og þótt nú sé það ekki nema eitt félag, er hlut á að máli, geta síðar komið fleiri félög eða fleiri menn, er vildu hafa not af höfninni.

Löggildingin opnar einmitt veg til þess, að fleiri en þetta félag fái notið hafnarinnar. Nú meðan höfnin er ekki löggilt, getur félagið útilokað aðra eftir vild frá slíku hagræði að reka þar atvinnu; en ef löggilt höfn kæmi þar, þá verða eigendur eyjarinnar að hlíta fyrirmælum laganna frá 13. marz 1891, um rétt manna til að fá útmældar lóðir í kaupstöðum og í löggiltum kauptúnum, og hleypa öðrum að til að reka þar verzlun. Löggilding eyjarinnar er því eina ráðið til þess að útiloka þar allan einkarétt eins félags.

Þess vegna er það undarlegt, að þingið skuli ekki — bæði 1907 og nú 1909 — vilja löggilda þessa höfn. Það virðist miklu nær sanni, að það hefði tekið upp hjá sjálfu sér að löggilda hana, án beiðni frá eigendum, einmitt til þess að opna öllum aðgang að því, að hafa gagn af gæðum hafnarinnar, án þess að vera komnir upp á geðþótta eyjareigenda.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. Bl.) gaf í skyn, að um hinar löggildingarnar, sem frumv. hljóðar um, gegndi nokkuð öðru máli, þeir staðir gætu ekki notið sín án löggiltrar hafnar o. s. frv. En eg verð að álíta, að þær hafnir gætu einmitt notið sín alveg jafnt fyrir því, þar getur verið sveitaverzlun, og öðruvísi verða þær varla notaðar. Það er mjög ólíklegt, að nokkur þeirra verði eiginleg verzlunar- eða siglingahöfn, sem skip komi til eingöngu frá útlöndum. Þangað mundu í hæsta lagi koma við og við skip, sem hvort sem er greiða gjöld sín annars staðar. Þá gerir löggildingin lítið til eða frá, annað en möguleikann til vínsölu.

Sami háttv. þm. sagði enn fremur, að skipstjórar hefðu látið mjög illa af Viðeyjarhöfn, hann kvaðst hafa vottorð um það. Þá vildi eg biðja hinn háttv. þm. að sýna mér það vottorð, það gæti verið nógu fróðlegt að fá að sjá það.

Eg veit ekki betur, en að allir skipstjórar hafi einmitt látið hið gagnstæða í ljósi, þeir hafa sagt, sem er, að höfnin væri örugg og góð, og um það hefi eg séð ýms vottorð áreiðanlegra manna.

Að því er bryggjuna í Viðey snertir, þá hefi eg skýrslu frá einum skipstjóra um það, að hann hefði eitt sinn í vetur í hvassviðri orðið að liggja 3—4 daga (25.—28. febr.) aðgerðalaus á höfninni hér í Reykjavík, en hefði í sama veðri getað athafnað sig í Viðey. (Magnús Blöndahl: Hvers vegna fór hann þá ekki þangað). Það gerði hann líka, og lauk því þar á einum degi, er hann gat hér ekki á mörgum dögum. Eg sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál; eg vil enn á ný algerlega vísa því á bug, að mér sé þetta »kappsmál« enda þótt það hafi komið fram sem stjórnarfrumv. í þetta skifti, af því mér virtist beiðni um það réttmæt og rökstudd. Eg hefi talað lítillega fyrir málinu af þeirri ástæðu, að mér fanst það skylda mín að gefa réttar upplýsingar, er málinu gætu orðið til skýringar og eg hefi til skams tíma ekki getað gert mér í hugarlund að fara ætti að slá pólitískt númer út úr öðru eins máli og þessu, blanda inn í það þjóðarríg og útúrborings-stjórnspeki með glósum og getsökum.