14.04.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1481 í B-deild Alþingistíðinda. (2009)

56. mál, byggingarsjóður

Jón Þorkelsson:

Spurningu hins hv. flutningsmanns til mín get eg fljótlega svarað. Eg hefi að vísu ekki spurst fyrir um það, hvort héraðslæknirinn geti fengið að búa framvegis í húsi því, sem hann nú býr í, en eg hugsa, að eg megi fullyrða að á því geti varla verið fyrirstaða. Fósturmóðir konu hans á húsið. Hún á enga skaparfa og er einstæð kona, og mundi vera vandræðalítið fyrir lækninn að ná kaupum á húsinu af henni, og búa í því framvegis. Að öðru leyti gerir það svo sem minst til, hvar hann býr í bænum, því allir vita, að hann er skjótur og vaskur í förum og »á hjólum« fram og aftur um allan bæ. Þingið hefir annars hingað til ekki heimilað nokkra aðra meðferð, en sölu á þessum fasteignum. Og hver ástæða væri svo nú til þess að fara að leigja þessa lóð helmingi ódýrara, en skaðlaust er eftir því verði, sem á henni er nú, og þó getur hækkað, þegar frá líður, meira en nokkrum kemur nú til hugar? Og hvernig ætlar háttv. flutnm. að fara að því að tryggja það, að þetta verði alt af óslitið læknissetur í 100 ár? Á landssjóður kanske að fara að kaupa bústað handa héraðslækninum? Ef svo er, má þá ekki segja berum orðum til hvers refarnir eru skornir? Eg sé ekki betur en að alt mæli á móti því, að þessi till. nái samþykki deildarinnar.