16.03.1909
Neðri deild: -1. fundur, 21. löggjafarþing.
Sjá dálk 1506 í B-deild Alþingistíðinda. (2058)

68. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Eg vil biðja háttv. þm. Vestm. (J. M.), að benda mér á, hvar slík ákvæði standi í stjórnarskránni, sem þessi br.till. brjóti bág við. Eg hefi stjórnarskrána í höndunum og get hvergi fundið þar neitt af því tagi, og hygg eg því að þingið hafi óbundnar hendur í því máli. Engin lög ætla eg heldur til vera, er banni það að ákveða eftirlaun um ákveðinn áratíma, en ekki æfilangt, enda benti þm. ekki á nein slík lög. Þingið getur því gert alt það, er það vill í þessu máli. Fyrir þinginu liggur nú frumv. til laga frá sjálfri landstjórninni um laun háskólakennara með stígandi launum. Fyrir því gera launalög vor nú ekki ráð, og við slík laun getur ekki verið átt í stjórnarskránni. Rekur það frumv. sig þá ekki líka á stjórnarskrána?